Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, febrúar 20, 2012 :::
 
Hæ,
Ég fór í Hörpu í gær, nánar tiltekið í Eldborgar-salinn og hlýddi á Þresti og gesti. Karlakórinn Þrestir hefur sungið í hundrað ár linnulaust og hélt upp á afmælið með eftirminnilegum hætti ásamt mörgum karlakórum, söngvurum, skemmtikröftum, sinfóníuhljómsveit og barnakór af stærri gerðinni. Salurinn var þéttsetinn og fólk skemmti sér hið besta.
Forsetinn og eiginkona hans voru á staðnum og ég sá ekki betur en kvikmyndatökumaður hefði fengið aðstöðu við forsetasætin. Mér sýndist hann tylla tökuvélinni á öxl og höfuð forsetans og þá flaug sú hugsun í gegnum huga minn að forsetakvikindið gæti þó komið að einhverju gagni.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 8:58 e.h.


 


::: posted by Bergthora at 8:58 e.h.


mánudagur, nóvember 21, 2011 :::
 
Hæ,
Ég er bara að viðhalda blogg-síðunni minni, svo hún verði ekki þurrkuð út vegna notkunarleysis. Það tekur því ekki að skrifa einhverja langloku, þar sem enginn les þetta hvort sem er. Það mætti þó segja margt um ástandið í þjóðfélaginu, um landsfund sjallanna, fátækt á Íslandi og spillingu og kreppu lúxus-heimsins.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:42 e.h.


þriðjudagur, desember 14, 2010 :::
 
Hæ,
Það verður ekki annað sagt en forstjóri Landsvirkjunar kunni að velja sér starfsfólk, a.m.k. réð hann framúrskarandi manneskju í stöðu skrifstofustjóra nýlega, þ.e. Rögnu Árnadóttur. Það er ekkert nema hneyksli að sú kona skyldi ekki fá ráðuneytisstjórastöðu í nýjum ráðuneytum umyrðalaust. Sýnir bara endalausan klíkuskap og vinavæðingu í heimi stjórnmálanna.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:57 e.h.


miðvikudagur, október 27, 2010 :::
 
Hæ,
Ég stunda jóga hjá tveim kennurum sem virðast ekki vera af þessum heimi, svo flinkir og færir eru þeir. Ég elska stundirnar í jóga þegar ég er hreyfingarlaus og hef allt í einu ekki lengur þörf fyrir að anda. Mér finnst líða margar mínútur þar til yfir mig hellist þörf fyrir að draga að mér andann og stundum hugsa ég: "Hvað gerist ef ég þarf ekki að anda? Yfirgef ég þá þetta líf í flókinni jógastellingu? Hvernig kistu þarf þá utan um mig?"
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:59 f.h.


fimmtudagur, október 21, 2010 :::
 
Hæ,
Hvernig er þetta? Eru allir hættir að blogga og eru allir hættir að lesa blogg? Það rifjaðist allt í einu upp fyrir mér að ég hafði bloggað um nokkurra ára skeið og það af talsverðum móð. Þar af leiðandi fór ég að athuga hvort ritsmíðar mínar væru enn á skjánum og þar sem mér tókst að rifja upp lykilorðið er ekki úr vegi að setja inn nokkur orð - aðallega til að halda síðunni gangandi um hríð.
Ég ætti kannske að gefa bloggið út sem jólabók.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:07 f.h.


fimmtudagur, desember 24, 2009 :::
 
Hæ,
Þegar tal um kreppu og IceSave tröllríður öllu á Kreppuklakanum, þegar fulltrúar (fulltrúðar) fólksins standa í virðulegri pontu Alþingis og kvarta yfir hungri eða lítt fjölskylduvænum vinnustað, þegar almenningur sligast undan lánum sem tekin voru til að standa undir íburði og munaði, er jafnframt tekið til við að undirbúa jól upp á íslenskan máta og ekki slegið slöku við frekar en áður.
Jólin ýta öllu til hliðar og jafnvel hið pólitíska karp víkur fyrir jólunum og undirbúningi þeirra, þingmenn slíðra sverðin, leggja sannfæringu sína til hliðar og fara í jólafrí Verslanir hafa verið opnar fram eftir kvöldi allan jólamánuðinn, auglýsingar með endalausum gylliboðum hafa verið margendurteknar i sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum til að minna á glingur og drasl sem enginn virðist geta verið án. Ekkert vandamál er að fá jólin upp á krít og borga þau á vormánuðum eða með raðgreiðslum ef illa skyldi standa á að halda þau einmitt núna í desember.
Í landi þar sem heimatilbúin kreppa lætur heimskreppuna líta út eins og viðbrunninn hafragraut ber í fréttum hæst sorgarfregnina af talsverðu magni af jólapökkum sem fara áttu til Íslands, en pakkahrúgan tafðist í Ameríku, að sögn vegna slóðaskapar starfsmanna SAS-flugfélagsins, og mun ekki ná til landsins í tæka tíð. Þessi frétt var endurtekin í mörgum fjölmiðlum sem því næst væri um þjóðarsorg að ræða. Samkvæmt mínum útreikningum samsvara þessir pakkar jólagjöfum hjá 10 – 20 íslenskum meðalfjölskyldum, fyrir utan að þeir eru ekki týndir, heldur munu þeir - ef marka má fréttaflutning - berast hinum ólánsömu viðtakendum eftir jólin en þessi þungbæra lífsreynsla hefur þá líklega eyðilagt fyrir þeim hátíðina og jólaskapið. Gott á sú þjóð sem setur þennan vanda ofarlega á blað yfir þær fréttir sem þuldar eru yfir landslýði og víst er að margar þjóðir myndu vilja skipta á kjörum við okkur stæði þeim það til boða.
Með ósk um gleðiríka jólahátíð, hófværð og hófsemi á nýju ári Íslendingum til handa.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:31 e.h.


þriðjudagur, desember 22, 2009 :::
 
Hæ,
Undanfarið ár hefur um margt verið furðulegt enda hefur það liðið í skugga kreppunnar, sem ljóst verður æ skýrar og skýrar að er fullkomlega heimatilbúin og einskær innanhússvandi. Það er ofarlega í huga mér að ótal margir hafa tjáð sig um kreppuna og sett fram ólík sjónarmið, skoðanir og handhægar aðferðir til að þjóðin geti unnið sig út úr henni. Vissulega hafa margar þessara aðferða virst afar skynsamlegar og gagnlegar og ekki úr vegi að koma þeim i gagnið sem fyrst, en það hefur líka komið fram margt miður skynsamlegt og jafnvel fávíslegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar minnist ég ungrar þjóðþekktrar konu, sem hefur oftar en einu sinni verið forsíðuefni Séð og heyrt og var hún í haust fengin til að koma fram í einhverju „kastljósinu í dag“. Hún ræddi fjálglega um hversu hræðileg fjárlagastefna ríkistjórnarinnar væri og hversu illa væri þar haldið á málum og hversu margt mætti þar betur fara. Þegar hún var spurð hvar mætti helst skera niður benti hún á þróunaraðstoðina, sem þegar hefur verið ráðist harkalega á og var að því mig minnir jólagjöf íslenskra ráðamanna um síðustu jól til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Unga konan tilkynnti að við hefðum ekki efni á því að leggja fram fé til slíkra mála. Ekki hafði stjórnandi þáttarins vit á að spyrja hana um hvort hún vissi í hverju þróunaraðstoð væri fólgin, en mér fannst á þessari stundu sennilegast, að hún héldi að sú aðstoð væri áframhaldandi þróun á mikilvirkum gereyðingar- og sýklavopnum til manndrápa eða frekari fullkomnun langdrægra eldflauga til að miða á heilar þjóðir í þeim tilgangi að útrýma þeim á einu bretti vegna ímyndaðs fjandskapar við leiðtoganna. Þessi kona virtist ekki vita að 95% mannkyns lifa við bágari kjör en íbúar Kreppuklakans og stærsti hlutinn býr við kröpp og þröng kjör, hræðilegan kost, örbirgð, sult og seyru. Hún heldur sennilega að allir búi við íslensk eða vestræn kjör og ef til vill er hart í ári hjá henni og hennar fjölskyldu þar sem hún hefur nú í kreppunni fest ásamt eiginmanni sínum kaup á tveim glæsivillum, þannig að með þeirri sem fyrir var eiga þau nú þrjár slíkar, sem væri hægt að nota sem félagsheimili í smáþorpi ef í harðbakkann skyldi slá fyrir alvöru.
Nískuleg þróunaraðstoð, skorin við nögl, skilur enn á ný eftir sig myndina af vannærða barninu með augun barmafull af tárum þar sem það situr skilningsvana og dauðskelft í forinni yfir líki móður sinnar - óttaslegið vegna örlaga sinna og framtíðar. Ef til vill er það óttaslegið vegna þess að vestrænn ljósmyndari í fötum í felulitum otar að því rándýrri Nikon-myndavél eins og skotvopni í leit að mynd af eymdinni í sinni sorglegustu mynd i þeim tilgangi að vinna til frægðar og peningaverðlauna - óttaslegið vegna þess að í honum sér barnið tákn þess hluta mannkyns sem mergsýgur hinn örsnauða þegna sem á að njóta þróunarhjálparinnar frá þeim sem betur mega sín, sem svo miklu betur mega sín.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:58 e.h.


fimmtudagur, september 17, 2009 :::
 
Hæ,
Öll fangelsi landsins eru yfirfull og hvergi hægt að troða neinum inn - hvorki glæpamanni né grunuðum. Allir helstu glæpamenn landsins ganga lausir. Hverjir eru þá í fangelsunum? Líklega þeir sem hafa stolið pylsupakka í Bónus, svikið út úr tryggingunum eða verið svo vitlausir að reyna að brjótast inn í bankana utan frá.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:53 e.h.


fimmtudagur, september 10, 2009 :::
 
Hæ,
Ég heyrði glefsur úr útvarpsviðtali við Hannes Hólmstein Gissurarson nýlega, þar sem hann fjallaði um Svartbók kommúnismans, ritverk sem HHG er nýbúinn að þýða. Þýðandanum var virkilega mikið niðri fyrir og naut sín verulega vel eins og venjulega þegar hann fær kærkomið og – að því mér finnst - síendurtekið tækifæri til að níða niður Sovétríkin, ráðamenn þar, kerfið í heild og alla sem hafa vogað sér að hafa snefil af samúð í þann garð eða jafnvel svo mikið sem vogað sér að gjóta hornauga þangað austur. Honum tókst ágætlega upp eða það hlýtur að vera því að mér fannst drullan hreinlega slettast út úr útvarpinu meðan frjálshyggjusnillingurinn og frelsisboðberinn fór mikinn í orðagjálfri og áróðri.
HHG er líka búinn að vera i þætti hjá BjBj á ÍNN, en þáttastjórnandinn sjálfur hafði aðstoðað HHG við þýðingu og prófarkarlestur af alkunnum dugnaði og áhuga á viðfangsefninu. Ég missti af þeim þætti, hef enda aldrei séð neitt á ÍNN og er ekki með þá stöð í gamla sjónvarpstetrinu mínu. Ég get bara rétt ímyndað mér hvað þeir tveir hafa verið sammála í öllum skoðunum og samtaka við að sverta og ata auri allt sem laut að og tengdist Sovétríkjunum. Þar hefur þáttastjórnandinn ábyggilega ekki verið eins og gammur við viðmælandann með framígripum og skipunum um að svara flóknum spurningum umsvifalaust með einföldu jái eða neii og engu öðru.
Þarna er enn einu sinni verið að beita gamla, góða ráðinu, sem er að beina sjónum almennings frá vandamálunum heima fyrir, sem þessir tveir kumpánar og samherjar þeirra bera ekki svo litla ábyrgð á. Þeir hafa ekki sparað sig við að dásama og lofsyngja stefnuna sem leiddi þjóðina í glötun. En nú þegar rjúkandi rústir stefnu þeirra blasa við hvert sem litið er, benda þeir bara á hversu hræðilegur, hættulegur og ógnvænlegur kommúnisminn var, er og verður og veifa svartbókinni eins og orrustufána því til sönnunar. Úr orðum þeirra og fasi má lesa hversu heppin og óendanlega lánsöm þjóðin er að fá að dúsa í svartholi kapítalismans og nýfrjálshyggjunnar um ókomna tíð í stað þess að lenda í svartbók kommúnismans.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:51 e.h.


þriðjudagur, september 08, 2009 :::
 
Hæ,
Obama forseti Bandaríkjanna tilkynnti um daginn að hann myndi flytja ávarp í framhaldsskóla í Virginíu til að hvetja nemendur til dáða á nýju skólaári og ræða um gildi og nauðsyn menntunar. Þá brá svo við að sumir foreldrar fengu skyndilega hland fyrir hjartað og kváðust óttast að forsetinn myndi flytja pólitískan áróður og innræta börnunum rangar skoðanir. Íhaldið í Bandaríkjunum fór nokkra kollhnísa af æsingi og í leiðinni hamförum út af væntanlegri ræðu forsetans, sem var allt í einu grunaður um óæskilegar pólitískar skoðanir alltof langt til vinstri, bara í námunda við Karl Marx, Engels og þá félaga. Það er greinilegt að þessum öflum finnst að forseti Bandaríkjanna megi eingöngu láta út úr láta út úr sér sótsvartan afturhaldsáróður og svartagallsraus eins og tíðkast hefur að megninu til fram til þessa dags. Þar eigi jafnrétti, frjálslyndi og raunsæi ekki heima. Þessi sameinuðu öfl foreldra bandarískra skólabarna og svartasta íhaldsins heimtuðu ritskoðun á ræðu forsetans, sem var birt fyrir fram til að koma í veg fyrir misskilning.
Ég verð að segja að ég hef Obama segja ýmislegt, sem ég hefði aldrei trúað að ég ætti eftir að heyra úr munni Bandaríkjaforseta. Mér finnst Bandaríkin hafa fengið á sig annað yfirbragð við tilkomu hans á forsetastól.
Það er sem sagt kominn kommi í Hvíta húsið - gáfaður og vel gefinn kommi - og er það vel.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:19 f.h.


föstudagur, september 04, 2009 :::
 
Hæ,
Ég er hef í áratugi horft á fréttamann, fréttaþul og þáttagerðarmann lesa fréttir, taka viðtöl, stjórna þáttum alltaf óaðfinnanlegur á skjánum allt í öllu með allt á hreinu. Nýlega skipti þessi maður um vinnu og hóf störf á nýjum vinnustað. Eftir örfárra mánaða setu á nýja staðnum mætti hann vel slompaður eða kannske bara blindfullur í vinnuna og hafði ekki þá dómgreind til að bera að sitja þegjandi og láta lítið fara fyrir sér svo ekki kæmist upp um hann, heldur stóð hann drafandi og þvoglumæltur frammi fyrir alþjóð, frammi fyrir þeim sem borga launin hans. Það er alltaf gott að vita í hvað peningarnir mann fara.
En sýnir þessi framkoma starfsmannsins ekki bara viðhorf hans til hins nýja vinnustaðar og þeirra sem reka þann stað?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:23 e.h.


fimmtudagur, september 03, 2009 :::
 
Hæ,
Engrar lágmarksmenntunar er krafist af alþingismönnum, þeir eru ekki einu sinni teknir í lestrar- og skriftarpróf, þannig að þeir geta svifið ólæsir og óskrifandi inn á þing, bara ef þeir hafa munninn fyrir neðan nefið og geta beitt talandanum til að blekkja kjósendur og náð það með í atkvæði þeirra.
Mér finnst að gera eigi kröfu um að þeir sem setjast inn á þing séu færir um að nota svar-takkann í tölvupóstkerfum af fullu öryggi, svo þjóðin þurfi ekki að vera vitni að þeim ótrúlega subbuskap sem vellur út úr tölvupósti þeirra þingmanna, sem ekki eru takkafærir. Ég tala ekki um þann tíma sem eytt er í skilgreiningu, rannsóknir, umræður og viðtöl eftir að hin slysalega opinberun á áliti þeirra á samstarfsfólkinu og öðrum aðilum hefur átt sér stað. Þann tíma mætti t.d. nota til að bjarga þjóðinni frá kreppunni, svo maður láti sér detta eitthvað þarfara í hug.
Gera má ráð fyrir að flestir þingmenn kunni á þennan takka, svo það er auðvelt að ímynda sér hversu mörg skeyti af þessu tagi hafa ekki komið fyrir augu almennings. Það má sem sagt leiða getum að því að þarna sé um að ræða vinnustað, þar sem allir eru tilbúnir að níða skóinn hver af öðrum, reka rýtinginn í bakið á næsta manni og vega að hróðri samstarfsfólksins því sem næst samviskulaust. Svo er bara hægt að segja "Úps! Alveg óvart!"
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:13 e.h.


miðvikudagur, september 02, 2009 :::
 
Hæ,
Það væri gaman að vita hvað löggan er lengi á staðinn og hversu hratt gengur fyrir sig athugun og rannsókn á málsatvikum þegar málningu er úðað í skjóli nætur á íbúðar- og bílskúrsveggi venjulegs fólks og skilið eftir eitthvert óskiljanlegt krass sem á að heita listaverk og sjálfskipaðir listfræðingar kalla tákn um innibyrgða þörf fyrir listræna tjáningu. Það er til venjulegt fólk, sem er svo óheppið að veggir á húsnæði þess liggja vel við úðun og hreinlega bjóða þessari niðurbældu listhneigð að brjótast úr viðjum og fá fulla útrás. Þetta venjulega fólk hefur þurft að leggja á sig mikið erfiði og fjárútlát til að hreinsa og halda veggjunum hreinum – og ekki bara einu sinni, heldur hvað eftir annað. Einu sinni var brotist inn í bílinn minn – löggan hafði engan áhuga á því máli, enda ég bara venjuleg kelling úti í bæ, ekkert forsíðuefni í Séð og Heyrt, og bíllinn hrikalega algeng tegund og nóg til að sams konar bílum. Mér var bara sagt að tala við tryggingarnar, mér var næstum því sagt að ég hefði hringt í skakkt númer, ég væri ekkert númer í þjóðfélaginu.
Því er spurt: Er lögreglan jafnfljót að spretta úr spori og koma málum í rannsóknarfarveg þegar um er að ræða veggjakrot - jafnvel síendurtekið - á húsveggi hjá venjulegu fólki og skemmdir á venjulegum bílum eins og þegar sprautað er málningu á hús eða bíla auðmannapakksins?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:18 f.h.


sunnudagur, mars 01, 2009 :::
 
Hæ,
Ég er búin að ákveða hvað ég ætla að kjósa í kosningunum í vor. Ég ætla að kjósa Kristin H. Gunnarsson. Þá slæ ég tvær flugur í einu höggi eða jafnvel fleiri, því að ég get með því kosið svo marga flokka í einu - eiginlega alla nema Sjálfstæðisflokkinn, sem ég hef forðast mjög að kjósa. Fari svo að Kristinn gangi í þann flokk á næsta kjörtímabili verður bara að hafa það. Hann stoppar hvort sem er ekki lengi á sama stað. Mér hefur líka stundum fundist atkvæðið mitt koma Sjálfstæðisflokknum til góða, þó það hafi ekki verið ætlun mín.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:44 e.h.


laugardagur, febrúar 21, 2009 :::
 
Hæ,
Ég sá á forsíðu Fréttablaðsins að HHG ætti skrif á síðu 18 í blaði gærdagsins þess efnis að Jóhanna Sigurðardóttir hefði verið ráðherra í hálft annað ár áður en bankarnir hrundu og hefði því borið fulla stjórnmálaábyrgð á því að bankarnir hrundu. Ekki nennti ég að fletta upp á blaðsíðu 18 til lesa ræpuna úr Hannesi, fannst þetta enda nægur skammtur frá honum í bili og það í góðu bili. Það er alveg ljómandi gott að fá að vita hvar ábyrgðin liggur og hverjir bera hana, en skyldi greinarhöfundur hafa munað eftir því að hann er sjálfur í stjórn Seðlabanka Íslands og hlýtur þar með að bera sjálfur sinn hluta af ábyrgðinni. Sami pistlahöfundur átti fyrir nokkru ekki orð yfir þá snilld að verðleggja fiskinn í sjónum, sem hefði synt og svamlað gersamlega verðlaus út um allar trissur en varð skyndilega að dýrmætum kvóta sem hægt var að veðsetja og braska með frjálst og óháð. Það sýnir sig hverju sú ráðstöfun hefur skilað okkur.
Það virðist sem sjálfstæðismenn telji sig eiga allt heila klabbið skuldlaust og enginn megi þar nálægt koma. Taugaveiklunin er alger þegar þeir hafa misst stjórnartaumana úr höndum sér og þeir virðast ekki átta sig á því að völdin eiga og mega ekki vera of lengi í höndum sama aðila. Einhverjir úr þeim flokki voru að æsa sig út af því á Alþingi að nú væri að verða til Seðlabanki Jóhönnu Sigurðardóttur í stað Seðlabanka Íslands, sem látið var í veðri vaka að hefði eign verið allra landsmanna. Ég hef að vísu lengi hallast að því að Seðlabankinn tilheyrði einum flokki fremur en landinu í heild. Ég sé því ekkert athugavert við að skipt sé um stjórn þar innandyra og að Jóhanna Sigurðardóttir taki þessa stofnun undir sína stjórn og lagi til þar innanhúss. Ég treysti henni bara þokkalega til þess um fram marga aðra.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:05 e.h.




Powered by Blogger