Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, maí 16, 2003 :::
 
Hæ,
Mér fannst gaman að frétta að Dorrit og Ólafur Ragnar skyldu hafa gengið í hnapphelduna á afmælinu hans í fyrradag. Smekklega gert! Ég óska þeim til hamingju! Ég hélt að þau myndu aldrei láta verða af þessu, að þau myndu sitja í festum fram á ævikvöld. Þórdís frænka glögg að sjá í gegnum hamingjusvipinn á forsetanum í sjónvarpsviðtalinu! Fyrst hún er svona næm á innri hugleiðingar verður hún að fá sér vinnu í utanríkisþjónustunni eða hjá kjaftaskjóðunum í Sameinuðu þjóðunum eða sem einkaritari hjá Davíð/Bush/Blair. Heimurinn myndi breytast.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:40 e.h.


 
Hæ,
Renndi lauslega gegnum bloggsíður nánustu fjölskyldu og ættmenna. Ég varð alveg hissa að sjá hvað margir minnast á mig. Þakka ykkur fyrir öll hlýju orðin í minn garð! Sum ummælin minna næstum á minningargrein - nefni engin nöfn. Fékk einstaka sinum tár í augun og augnháraliturinn lak af stað niður vangana. (Augnháralitur er það sama og maskari).
Mér finnst allir vera að gera svo skemmtilega hluti, vera á ferðinni hingað og þangað, hitta hina og þessa, læra svo merkilega hluti, hafa magnaðar hugmyndir. Nema ég. Mér finnst mitt líf óneitanlega tilkomulítið í samanburði við hið viðburðaríka líf ættmenna minna. Ég fer í vinnuna, fer heim að lokinni vinnu, versla í Bónus, stöku sinnum í Nóatúni, þegar ég býð fólki í afmæli eða jólaboð.
Ég verð í framtíðinni að reyna að færa öll smáatriði í stílinn, þynna frásagnir út og bæta inn í þær einhverju krassandi, t.d. nota það sem samstarfskonur mínar lenda í til að flikka upp á mína síðu. Svo get ég þóst versla í Gallerí Kjöt, Gallerí Fiskur, Gallerí Grænmeti, Gallerí Ávextir, Gallerí Mjólk, Gallerí Ostur, Gallerí Brauð, Gallerí Kökur, Gallerí Gott, Gallerí Föt (tertuföt eða ígangsleppar).
Sem sagt - burt með minnimáttarkenndina. Ég mun í framtíðinni reyna að glæða líf mitt litríkum viðburðum og ævintýraljóma.
Þið getið strax farið að hlakka til.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:28 e.h.


fimmtudagur, maí 15, 2003 :::
 
Hæ,
Ég tók kvikmyndastjörnuprófið. Ég er auðvitað Audrey Hepburn, gamla uppáhaldsleikkonan mín, sem lék í Nunnunni, Gátunni, Breakfast at Tiffanys og mörgum fleiri hugljúfum stórmyndum. Gleymi henni aldrei á hvíta tjaldinu þegar farið var í Borgarbíó eða Nýja bíó með 25-kall í vasanum, sem dugði fyrir bíómiða og einum pakka af bláum ópal. Það var alveg sama hvað hún gerði, hún var alltaf jafn falleg og glæsileg.
Það skal viðurkennt að ég sá algerlega í gegnum prófið. Eru þetta gáfur eða gegnsætt próf? Er hægt að vera sú stjarna sem maður vill í það og það skiptið. Audrey Hepburn er mín stjarna!
Kveðja,
Bekka




::: posted by Bergthora at 12:32 e.h.


 
Hæ,
Áfram skal haldið í blogginu. Það er verst að það gerist ekki svo margt markvert í mínu lífi. Nennir einhver að lesa þetta? Má einhver vera að því?
Ég fór í fyrradag í power-jóga eftir að hafa sleppt líkamsrækt og leikfimi í svo marga mánuði að þeir mynda samtals meira en ár og rúmlega það... Getur það verið? Í vinnunni hjá mér eru þrír íþróttasalir og það er bara hægt að vera í leikfimi allan daginn - að vísu stendur í reglunum að fyrirtækið megi sækja ofstækisfulla íþróttaunnendur inn í sal ef eitthvað kemur upp sem ekki má bíða! Með mér vinnur liðamótalaus kona, sem hóf power jóga kennslu í fyrradag, ég dreif mig í tíma og sé ekki eftir því. Í hádeginu í dag verður aftur tími hjá henni - einhverra hluta vegna hafa færri skráð sig í tímann í dag en í fyrradag. Skyldu einhverjir vera með strengi? Ég finn aðeins fyrir því að hafa hreyft aðra vöðva en venjulega, en læt það ekki á mig fá. Nú skulu nokkur af aukakílóunum burt! Háleitt markmið, en ég geng ekki svo langt að komast í þannig form að ég komist aftur í brúðarkjólinn minn.
SSól kom til okkar í gær og lét okkur ömmu sína og afa og langömmu snúast um sig. Hún er brött eftir Danmerkurferðina og leggur sig fram við að vera sem unglingslegust.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 10:29 f.h.


mánudagur, maí 12, 2003 :::
 
Hæ,
ég er farin að blogga! Ótrúlegt en satt. Ég tók þessa ákvörðun í síðustu viku og tilkynnti nokkrum af mínum nánustu. Ég læt ekki standa við orðin tóm. Bloggið er hafið og umheimurinn fær að njóta visku minnar og gáfna. Verst að ég er hálf lost í þessu blog-umhverfi, þ.e.a.s. bloglost!
Ég ætla að skoða hvernig þetta kemur úr á síðunni minni, ef mér tekst að komast aftur inn á hana. Ég hljóma eins og Bridget Jones - og ekki bara ég - allar blogsíður ungra kvenna sem ég hef lesið undir mjög sterkum áhrifum frá þessu sérstæða og bráðskemmtilega bókmenntaverki.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:09 e.h.




Powered by Blogger