Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, maí 24, 2008 :::
 
Hæ,
Ekki reyndist ég spámannlega vaxin hvað Evrusjón varðar, því að lagið komst áfram og átti það skilið, því að Regína og Friðrik Ómar stóðu sig ljómandi vel og reyndust verðugir fulltrúar klakans. Ég stóð mig þó best í spámennsku hér heima fyrir, en við spáðum um hvaða lög af þeim sem sýnd voru á fimmtudagskvöldið kæmust áfram í aðalkeppnina. Ég var með sjö lög rétt af tíu og sigraði á heimavelli. Ég spáði íslenska lagið myndi komast áfram aðallega til að gleðja yngri kynslóðina, því að ég átti alls ekki von á að það kæmist áfram. Svona getur lífið komið manni á óvart. Annars fannst mér furðulegt að lög allra Norðurlandanna skyldu komast í úrslit og eins fannst mér mörg lög Austur-Evrópuþjóðanna detta út, sem ég hafði átt von á að myndu tolla inni þrátt fyrir að vera léleg og ömurleg vegna þess að þar að baki eru stjórþjóðir. Ég hafði orð á því, hvort einhver meiri háttar bilun hefði orðið á símakerfum fyrir austan eða hvort viss símafélög hefðu beint öllum greiddum atkvæðum til norrænu þjóðanna. En hvað sem veldur þá er víst að við norrænu þjóðirnar getum stutt hver aðra dyggilega í kvöld og gefið hver annarri öll hæstu stigin. Nú er um að gera að þétta klíkuna og það svo um munar. Engin svik og engin atkvæði til gömlu kommanna.
En við í Evrusýn-partýinu hér heima á fimmtudagskvöldið skemmtum okkur undir drep, kepptum í spámennsku og snakkáti meðan keppnin stóð yfir á skjánum, fengum sérfræðifyrirlestur um búninga og átfit allra á sviðinu, hvaðan hugmyndunum væri stolið og hvernig til hefði tekist og skemmtum okkur undir drep við að horfa á það þar sem illa tókst til - bæði hvað varðaði búninga, uppstillingu, söng og aukanúmar á sviði. Ekki skemmtum við okkur síður við að horfa á það sem vel tókst til og skari fram úr.
Sem sagt - dúndurpartý og nú er bara að halda áfram á sömu braut. Ekki skemmdi danskt brúðkaup daginn hjá mannai. Alltaf gaman að horfa á kóngafólk gifta sig þótt það sé að mestu leyti endurtekið efni.
This is my life!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 7:15 e.h.


fimmtudagur, maí 22, 2008 :::
 
Hæ,
Hátíð í dag í bæ og borg. Evróvisjón í kvöld. Það verður Evróvisjón-party heima hjá mér. Búið að bjóða í mat á undan keppninni – kam-borgarar á matseðinum. Svo er hægt að fara í bað á staðnum áður en hátíðahöldin hefjast. Tveir gestanna – fæddir eftir síðustu aldamót - staðfestu baðferð strax. Þriðji gesturinn, fæddur á fyrri hluta áttunda áratugs síðustu aldar, tilkynnti í gærkvöldi að hann hyggðist líka þiggja baðboðið, myndi mæta með hrein nærföt, náttkjólinn sinn, body scrub, kremsett, varasalva, hárblásara, Carmen-rúllur, tánaglaklippur og líkþornaplástur.
Síðan mun kvöldið líða í hefðbundnum Evróvisjón-stíl. Við verðum m.a. í fjarfundasambandi við kött norður í landi, sem jafnframt er nafnskiptingur.
Við höldum auðvitað með Íslandi þótt lagið sé frekar klént og sumir í fjölskyldunni hrifnari af því en aðrir, þ.e.a.s. 2/3 hlutar baðgestanna. Við höldum með Íslandi þótt okkur vanti kjósendur til að koma okkur áfram – því eins og Johnny Logan sagði réttilega í sjónvarpinu í gærkvöldi – til þess að komast áfram í Evróvisjón-keppninni þurfa margar þjóðir að kjósa viðkomandi lag. Einhvern veginn hef ég ekki trú á því að atkvæðin streyni til okkar og sérstaklega ekki í símakosningunni. Þar held ég að aðallega ein þjóð kjósi okkur, þ.e. við sjálf. Nú er að sjá hversu góður spámaður ég er.
En hvernig sem fer verður bara gaman að eyða kvöldinu í að horfa á keppnina, úða í sig kam-borgurum og kók og fá sér bland í poka á eftir. Þar á ég ekki við kók og bland í poka eins var til sölu á hliðarbási á skólaballinu, sem unglingurinn í fjölskyldunni fór á í gær, þar sem lokaatriðið var lögregluheimsókn. Þar skilst mér að Doddi dóp og Gunni gas – nöfnum er aðeins lítillega breytt, svo erfiðara sé að rekja upprunann, og viðurnefnin eru heimatilbúin – hafi haft sig mjög í frammi í sölumennsku og neyslu. En unglingurinn á hjólunum var afar spenntur yfir þessari æsispennandi atburðarás og naut þess að hafa verið í hringiðu undirheimanna, margsagði frá öllum smáatriðum og þótti verst að ferðaþjónustubíllinn kom að sækja hana áður en ballinu, yfirheyrslum og handtökum lauk.
Hún rúllaði sér svo í skólabílinn í morgun með æpandann í eyrunum til að fá nánari upplýsingar um atburði gærkvöldsins og lofaði að gefa endanlega skýrslu um málið á milli atriða í Evróvisjón þannig að búið er að fylla í öll skörð kvöldsins fyrir fram og engum þarf að leiðast eitt augnablik.
Áfram Ísland!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:45 e.h.




Powered by Blogger