Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, júlí 02, 2004 :::
 
Hæ,
Gæti ekki verið smart og frumlegt að bera fram fíflakrónur með blóðbergi, villtu dilli eða lúpínublómum og bjóða upp á náttúrulega mjólk með, t.d. fíflamjólk? Þannig mætti fara létt út úr morgunverðarboði.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 2:54 e.h.


 
Hæ,
Ég er búin að finna upp afar hagkvæma og fyrirhafnarlitla leið til að lækka matarreikninginn verulega á vorin og fram eftir sumri.
Fyrir nokkrum dögum var eiginmaður minn að hlusta á útvarpið – tek fram að það var gamla, góða Gufan – kannske óþarfi að taka það fram a.m.k. hvað kunnuga varðar. En förum ekki nánar út í þá sálma. Hann sagði mér svo frá því að hann hefði í þessari útsendingu hlustað á mann nokkurn segja frá matarvenjum fjölskyldu sinnar, sem er kunn trjá- og matjurtaræktarfjölskylda með meiru. Skýrt var frá hvernig fjölskyldan nagaði hvannarætur og njóla í næstum öll mál og státaði af matjurta- og aldingarði, sem teygði sig yfir ótal hektara. Eitt af því sem þau lögðu sér til munns voru fíflakrónur – af fífill ekki fífl, svo það valdi engum misskilningi- sem höfðu verið settar í deig, sem var síðan bakað eða steikt eða eitthvað.
Líða svo nokkrir klukkutímar og við hjónin drífum okkur í göngutúr og fyrir valinu verður Heiðmörk. Þar sem við erum stödd úti í hinni villtu náttúru og gífurlegri gróðursæld Heiðmerkur berst talið aftur að fjölskyldunni, sem át af náttúrunni og að fíflakrónunum. Ekki óeðlilegt, þar sem þeir skörtuðu sínu fegursta þennan dag. Ég lét ljós mitt skína og sagði frá grísku fíflasalati,sem er víst algengt og vinsælt þar um slóðir og gæti átt sinn þátt í góðu gengi Grikkja á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu, og minntist í leiðinni á ljúffengt fíflavín, sem ég smakkaði einu sinni og var glettilega gott. Ekki hef ég aftur komist í slíkan mjöð, enda mikil fyrirhöfn að brugga slíkt vín og aðeins á færi hinna þolinmóðu.
Það er ekki að orðlengja það, nema hvað Eyjólfur slítur upp einn fagurgulan fífil, bítur umsvifalaust af honum krónuna, áður en ég get svo mikið sem öskrað, tyggur hann um hundrað sinnum áður en hann kyngir og gefur honum hina bestu einkunn. Ég var fegin að hann tók ekki fífil með flugu, en þó nokkrir voru með slíku skrauti. Þótt mér fyndist þetta hálfógeðslegt og hefði ekki lyst á að smakka á fíflakrónunni, fékk ég þessa líka prýðishugmynd á staðnum: Bara út að tína fífla í matinn, ódýrt og fljótlegt. Klippa krónunar af, setja í fallega skál, sem fer vel við gula litinn, skreyta með steinselju og bera á borð með ísköldu kranavatni.
Verði ykkur að góðu!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:49 f.h.


 
Hæ,
Tívolíið er komið upp við Smáralindina. Ég er búin að fara tvisvar. Fyrst áður en ég fór á útsöluna í Debenham og svo aftur þegar ég kom út af útsölunni. Þvílíkur unaður, þvílík skemmtun. Svo er þetta svo ódýrt og gefur manni svo gasalega mikið. Að öðru leyti vísa ég til minna fyrri skrifa og reynslusögu af Tívolíinu fyrir um einu ári. Leitið og þér munuð finna.
Allir í Tívolí, tívolí, tívolí, lí, lí!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:46 f.h.


miðvikudagur, júní 30, 2004 :::
 
Hæ,
Í gær hitti ég mann. Þegar ég var kynnt fyrir honum sagði hann við manninn minn: “Er þessi fallega kona konan þín? Hvernig fórstu að því að ná í svona fallega konu?”
Eiginmanni mínum vafðist tunga um tönn og segja má að hann hafi komið completely from the mountains. Sagðist bara hreint ekki vita það. En ég hef ekki náð mér síðan fyrir gleði. Jafnvel þótt gullhamarinn sé að verða nokkuð gamall, ákaflega drjúgur með sig, þykist vera voða fyndinn, sé með skakkar tennur og bölvi í öðru hvoru orði, vöktu þessir gullhamrar hjá mér ótrúlega gleði. Maðurinn sagði þetta – að því er virtist eðlilega og hreinskilnislega - þrátt fyrir að ég væri næstum ómáluð og hefði ekki hirt um að flikka neitt upp á mig þegar út var haldið.
Ég stillti mér upp fyrir framan spegilinn þegar ég kom heim, en var ekki ýkja hrifin af myndinni sem við mér blasti. Samt gat úfna hryggðarmyndin í speglinum ekki eyðilagt fyrir mér ánægjuna af þessum óvæntu gullhömrum. Þó gat ég ekki varist þeirri hugsun að hann hefði sennilegast gefið mér einkunnina “undurfögur” hefði ég verið almennilega uppstrýluð og verulega smart í tauinu.
Kannske er gullhamarinn góður leikari, kannske er hann enginn smekkmaður eða gæti bara hafa verið að ljúga.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:02 e.h.


mánudagur, júní 28, 2004 :::
 
Hæ,
Forsetakosningar – Baldur birtist ekki með búkett af baldursbrám, bísperrtur og berrassaður á Bessastöðum. Ef hann hefði náð kjöri hefði þjóðin getað sungið: Þá birtist Baldur – eins og í Litlu Hryllingsbúðinni. Rétt fyrir kjördag sendi hann mér mynd af sér og frúnni í forsetastellingum, alveg eins og núverandi forseti sendi mér af sér og frúnni rétt fyrir kosningar fyrir átta árum. Ég veit ekkert hvar sú mynd er nú. En ég setti myndina af Baldri og frú á ísskápinn hjá mér. Þegar ég opna ísskápinn sé ég hvernig getur farið fyrir fólki, sem er alltaf í grennd við þetta háskalega heimilistæki. Annars er ég er mjög hissa á og skil ekkert í að þessi einstaklega sexí frambjóðandi skyldi ekki fá fleiri atkvæði. Hann var líka alveg steinhissa.
En það er svo margt sem ég ekki skil. Mér er t.d. hulin ráðgáta hvernig heilt knattspyrnulið í fremstu röð getur leikið í Evrópumeistaramótinu án þess að taka nokkru sinni á sprett, bara beðið eftir að boltinn birtist við lappirnar á þeim. Sennilega var það þess vegna sem franska liðið varð að láta í minni pokann fyrir Grikkjum, sem töldu ekki eftir sér að skokka og hlaupa á eftir tuðrunni.
Ég skil heldur ekkert í sálarlífi Ástþórs Magnússonar Wium. Hann getur ekki svarað einföldum spurningum, getur ekki hlustað á það sem aðrir segja og getur ekki haldið sig við umræðuefnið. Þrátt fyrir þennan smágalla er hann eindregið á þeirri skoðun, að hann geti stillt fyllilega til friðar í heiminum á klukkutíma?
Þótt Ástþór hafi beðið afhroð í kosningunum, sem hann er svo smekklegur að kalla krossfestingu, ætlar hann að bjóða sig fram til forseta eftir fjögur ár. Líkir sér hiklaust við frelsarann og leiðist ekki að láta krossfesta sig.
Hvernig væri að þjóðin gerði Ástþóri reikning fyrir þeim kostnaði, sem við verðum að punga út með vegna kosninganna? Það hefði mátt gefa mörgum svöngum börnum að borða fyrir það fé, sem forsetaframboð hans hefur kostað þjóðina. Kannske er bara óþarfi að gefa þeim að borða, þau gætu beðið um meiri mat, heilinn í þeim gæti örvast við næringuna og þau farið að hugsa og biðja um enn meiri mat, lært að lesa og orðið klárari, menntaðri og herskárri en við á Vesturlöndum. Jú, líklegra er þægilegra að gefa þeim sem minnst að borða, en senda Ástþór friðarpostula í þotu á stórhátíðum með pakka vafða inn í skrautlegan og litríkan jólapappír sem innihalda barbídúkkur og batman-kalla handa hungruðum börnum í hinum fjarlæga, stríðshrjáða heimi. Einmitt það sem þau vantar til að lifa hamingjuríku lífi.
En við höldum ótrauð áfram í boltanum með bjór og lostæti á borðum, þótt segja megi að Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hafi breyst í nokkurs konar smáþjóðaleika. Það ætti að gleðja okkur smáþjóðina á norðurhjara, sem að vísu telur sig mikla stórþjóð, einhverra hluta vegna.
Ég hélt bæði með Dönum og Tékkum í leiknum í gær, svo að mitt lið var alltaf í góðum málum allan leikinn. Enginn æsingur hjá mér í þessum leik, eintóm afslöppun og gleði.
Nú getur þjóðin enn á ný skipst í tvær öndverðar fylkingar, því sem næst gráar fyrir járnum, sem rífast og rökræða endalaust um hvernig ber að túlka niðurstöður forsetakosninganna, sigur eða ósigur fyrir Ólaf Ragnar, hvort hann sé forseti allrar þjóðarinnar eða bara vinstri sinnaðs hluta hennar. Allir innan þessara tveggja öndverðu fylkinga geta út í eitt verið argir og pirraðir út af skoðun andstæðinganna og yfir því að þeir skuli ekki sjá hið eina rétta sjónarmið.
Drottinn minn á himnum, ertu ekki orðinn leiður á svona þjarki? Eða er þetta bara smámál miðað við ástand í öðrum heimshlutum?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:45 e.h.


 
Elsku Sigrún Sól,
Til hamingju með afmælið eða til hammarra me ammarra!
Það er ótrúlegt að þú skulir vera orðin tólf ára gömul.
Ég vona að afmælisdagurinn verði ánægjulegur og viðburðaríkur og að þú fáir fullt af pökkum.
Góða skemmtun í partýinu í kvöld.
Amma

::: posted by Bergthora at 12:50 e.h.




Powered by Blogger