Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, desember 02, 2005 :::
 
Hæ,
Ég hef lent í nokkrum fræðingum undanfarið og verð að deila þeirri lífsreynslu með öðrum, t.d. dyggum lesendum, sem eru örfáar hræður og einhverjum blásaklausum netvöfrurum, sem villast grunlausir inn á síðuna mína:
Fræðingur 1
Ég lenti nýlega á bekk hjá sérfræðingi í austrænni lækningalist, sem spurði mig ýmissa nærgöngulla spurninga um heilsufar mitt og lífsvenjur. Þegar hann spurði mig um hvernig ég svæfi fékk hann ítarlegan fyrirlestur um svefninn hjá mér eða kannske réttara sagt svefntruflanir eða svefnleysi. Þeir sem vilja fræðast betur um svefnvenjur mínar geta lesið pistil minn frá 21. október sl. Honum fannst ég bara nokkuð fyndin, þegar ég sagði honum að svefnleysið hefði gegnum árin aldrei haldið fyrir mér vöku.
Fræðingur 2
Það kom kerfisfræðingur til að uppfæra forrit í tölvunni minni. Hann hófst handa við uppfærsluna og ég settist niður við vinnu í næsta herbergi. Þegar ég kom til að gá hvernig honum gengi, lá tóbaksponta á skrifborðinu mínu í seilingarfjarlægð frá fræðingnum. Ég hélt að ég væri farin að sjá ofsjónir, en tókst að láta sem ekkert væri, rétt eins og það væri fullkomlega eðlilegt að menn tækju í nefið. Þegar hann kláraði uppfærsluna, stakk hann pontunni í vasann og kvaddi mig með handabandi. Þegar hann var farinn þurrkaði ég vandlega af skrifborðinu og fann þar tvö tóbakskorn. Síðan fór ég að leitaði hann uppi í þjóðskránni og þessi þjóðlegi kerfisfræðingur er rétt rúmlega fertugur.
Fræðingur 3
Heimilislæknir, sem hafði meiri áhuga á andlegri líðan minn en líkamlegri og virtist telja að þar væri hutum verulega ábótavant, spurði mig hvort ég heyrði raddir,sem ég vissi ekki hvaðan kæmu. Ég hélt það nú og fræðingurinn sperrtist verulega upp og spurði hvenær slíkt gerðist helst. Svar mitt var: “Þegar ég svara í símann.”
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:20 e.h.


þriðjudagur, nóvember 29, 2005 :::
 
Hæ,
Fyrir nokkru var viðtal í lesbók MBL við konu, sem skrifaði meistaraprófsritgerð um áhrif fjölmiðla á sjálfsmynd útlendinga hér á landi. Hún hafði rætt við tólf unglinga, sem eru af erlendu bergi brotnir og búsettir hér á landi. Þeir unglingar, sem eiga ættir að rekja til Asíu, segjast ekki líta á sig sem Íslendinga og upplifa mikla fordóma í daglegu lífi. Henni fannst frekar sláandi að enginn af unglingunum, sem hún talaði við, skyldi telja sig íslenskan, en nokkrir þeirra voru fæddir hér og höfðu alist hér upp.
Ég persónulega er ekkert hissa á því að þau skuli ekki telja sig íslensk, vegna þess að Íslendingar líta alls ekki á þau sem Íslendinga, heldur sem útlendinga og e. t. v. er höfundur greinarinnar þar í hópi án þess að gera sér grein fyrir því. Það þarf ekki heila meistaraprófsritgerð til að segja mér þetta, heldur nægir mér að horfa á samfélagið.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:09 e.h.


mánudagur, nóvember 28, 2005 :::
 
Hæ,
HHG var bara einn og sjálfur með Kastljósið á föstudaginn. Fréttamaðurinn reyndi að vera hörkulegur og fá viðmælandann til að svara, en það gekk ekki alveg nógu vel, enda held ég að Hannes geti talað allt í kaf. Fréttamaðurinn hafði ekki vit eða ráðrúm til að gera athugasemd við það, þegar HHG sagði á þá leið, að hann hefði á sínum tíma barist fyrir frjálsu útvarpi, en nú væri svo komið að JónÓl með vinnukonuútsvarið réði lögum og lofum í íslenskri fjölmiðlun og það vildi hann ekki. Var HHG bara að berjast fyrir frelsi útvalinna í fjölmiðlamálum? Sennilega hefur hann verið að berjast fyrir sig og sína og hreinlega skort innsæi til að sjá framtíðarþróunina fyrir - hann hefur örugglega ekki verið að berjast fyrir frelsi Jóns Ólafssonar til að eiga fjölmiðla.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:10 e.h.




Powered by Blogger