Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, maí 11, 2007 :::
 
Hæ,
Ég verð að deila með ykkur minningu um vinkonu mína, sem ég vann með vel yfir áratug. Hún var ákaflega pólitísk og vel þekkt í þjóðfélaginu fyrir róttækar skoðanir og tengsl við roðann í austri.
Eitt sinn er kosningar stóðu fyrir dyrum bauðst ég til að koma við hjá henni svo við gætum farið saman á kjörstað. Hún afþakkaði pent og sagðist alltaf láta keyra sig á kjörstað. Hún hefði það fyrir sið að hringja í Sjálfstæðisflokkinn og láta þá sjá um að koma sér til að kjósa. Ég missti algerlega málið, en gat loks eftir langa andarteppu spurt hvers vegna í ósköpunum hún hringdi í andstæðingana og sína mestu fjandmenn, en ekki í sina samherja. "Sjáðu til," sagði sú gamla, "ég hringi alltaf á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins af því að ég veit að þeir hafa nóga bíla og bílstjóra og munar ekkert um þetta. Mér dettur ekki í hug að hringja í mína menn þvi ég veit að þeir eiga miklu erfiðara uppdráttar. Ég er ekkert að láta þá eyða bensíni til að keyra mig á kjörstað."
Hún var ekkert að tvínóna við hlutina, hún María vinkona mín.
Blessuð sé minning hennar.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:39 e.h.


 
Hæ,
Nú líður að kosningum - aðeins rúmur hálfur sólarhringur þar til kjörstaðir verða opnaðir. Ég er búin að ákveða að fara á kjörstað og líka búin að ákveða hvað ég ætla að kjósa, þannig að ættingjar, vinir og dyggir lesendur geta varpað öndinni léttar. Ég veit samt ekki hvort allir eru sáttir við flokkinn, sem ég set kross við í kjörklefanum. Ég þegar viss um úrslitin á morgun – að stjórnin haldi velli, að Sjáfstæðisflokkurinn og Framsókn verði við völd enn eitt kjörtímabilið, sem er ekki hollt, hvorki þeim né þjóðinni.
Hún er skrýtin tík þessi pólitík. Ég segi fyrir mig að ég á vini, kunningja og ættingja í öllum flokkum með ólíkar skoðanir og viðhorf. Mér finnst ekki skipta neinu máli hvað fólk kýs og hvaða skoðanir það aðhyllist – bara ef þetta er skemmtilegt fólk, sem gaman er að umgangast. Ég er líka á þeirri skoðun að það fólk, sem starfar á vettvangi stjórnmálanna vinnur flest hvert af mikilli samviskusemi og leggur mikið á sig. Eitt finnst mér mikilvægt, en það er að skipt sé um í brúnni með reglulegu millibili. Ég tel eðlilegt að skipt sé um í valdastöðum, að þar skiptist fólk í ólíkum flokkum með mismunandi stjórnmálaskoðanir á sætum, komi þar að sínum sjónarmiðum og komi sínu fólki inn í kerfið. Þegar R-listinn komst að í Reykjavík gerði það borginni og íbúum hennar ekkert nema gott. Það er ekki æskilegt að sömu öflin sitji endalaust að völdum eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafði þá gert í borginni um margra áratuga skeið. Ég varð ekkert mjög miður mín þegar borgarstjórnar-meirihlutinn féll í síðustu sveitastjórnarkosningum, vegna þess að ég styð 8 – 12 ára stjórnarsetu sömu afla, en þá vil ég að skipt sé um og önnur öfl fái að reyna sig og koma að sínum málefnum og mönnum. Ég fer samt ekki út í svo drastískar aðgerðir að ég kjósi á móti mínum stjórnmálaskoðunum til þess að koma andstæðingunum að eftir langa fjarvist frá kjötkötlunum. Það verða aðrir að sjá um það.
En því miður er lítil kosningaspenna hjá mér í þetta skipti. Ég vildi að úrslitin virtust ekki svona augljós. Ég var mun spenntari fyrir því að Eiríkur Hauksson kæmist áfram í Júróvisjón, heldur en fyrir kosningum þetta árið.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:39 e.h.


miðvikudagur, maí 09, 2007 :::
 
Hæ,
Sumir voru bara kátir í Kastljósi í gær á meðan löggan á Akureyri var að yfirheyra Rúmena, sem komu hingað til lands til að kynna þjóðlagatónlist. Þá var nú aldeilis ekki verið að moppa í kringum nýjustu tengdadóttur Íslands og setja nýtt utan um hjá henni (sjá komment frá EB við síðasta pistli). Það verður bara að bíða fram yfir kosningar.
Ég fékk komment á skrifin þar á undan, þar sem ég er að fjargviðrast út af komandi kosningum. Einn af mínum dyggu lesendum segir þar að nú til dags þurfi að lesa 100 blogg á Mogganum til að vera viðræðuhæfur. Ekkert að vera að eyða tímanum í það. Það lesa allir bloggið hjá Ellý, Sigmari og Jónínu Ben, en bara örfáir mitt blogg. Það er best að lesa bara mitt blogg, vitna látlaust í það í sósíal kreðsum og vera frumlegri en allir hinir.
Ég nenni ekki að lesa Moggabloggin, síðan ég álpaðist inn á skrifin hjá einum fyrrnefndra og sá þá í hendi mér að sumir eru uppfullir af beiskju, biturð og gremju. Ekki veit ég hvar þessar kenndir halda til í líkamanum, kannske í ristlinum, svo það ætti að vera handhægt að hreinsa þessar tilfinningar út með pólsku aðferðinni. Ef ekki þá mætti kannske fá sér eins og eina andlega stólpípu!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:23 e.h.


þriðjudagur, maí 08, 2007 :::
 
Hæ,
Hvar var Jónina Bjartmars í gær þegar rúmlega 20 Rúmenar voru sendir úr landi? Gat hún ekki aðstoðað þá?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:30 f.h.


mánudagur, maí 07, 2007 :::
 
Hæ,
Ég æsti mig aðeins út af kosningunum í síðasta pistli og uppskar nokkrar athugasemdir og þ.á m. eina á borð við að ég gæti bara hjólað á kjörstað. Nei, ég get það ekki, því ég á ekki hjól, en gæti kannske orðið mér úti um eitt, farið í verslun og fjárfest í einum slíkum fararskjóta. Hjólauppboðið árlega hjá löggunni er nýafstaðið, en þar var víst hægt að gera kjarakaup. En ég gæti staulast á tveim jafnfljótum á kjörstað
Hvað kosningar varðar þá skil ég ekki lengur af hverju er verið að kjósa. Þetta er allt vitað fyrir fram og engin spenna lengur á kosninganótt. Í gær var tilkynnt um sigurvegara í frönsku forsetakosningunum og hann farinn að halda sigurræðu löngu áður en búið var að telja. Í dag eru allir búnir að gleyma forsetakosningum í Frakklandi og allt virðist þar harla gott, enda nýi forsetinn búinn að hengja sig í rassgatið á bandarískum ráðamönnum áður en hann hefur tekið við forsetaembættinu.
Svo var líka sagt frá því í fréttum að Jón Sigurðsson væri fallinn út af þingi og það er ekki einu sinni búið að kjósa. Ég vissi ekki að hann væri á þingi, ég hélt að hann væri bara ráðherra.
Það liggur við að ég sé ekki að grínast þegar ég segi að líklega sé best að halda sig heima á kjördag. Í fyrsta skipti á ævinni veit ég varla hvað ég á að kjósa. Það væri nú munur að vera í Sovét þar sem var bara einn flokkur á kjörskrá. Að vísu var ég ekki á kjörskrá þar í den, en það skipti ekki meginmáli. Ég er viss um að ég hefði fengið að setja atkvæði í kassann, vegna þess að það var ekki smámunasemin í kosningunum í Sovét á sínum tíma - þ.e.a.s. ef menn vildu styðja flokkinn. Aftur á móti gat farið í taugarnar á yfirvaldinu ef menn voru að þybbast við og vildu ekki kjósa þennan eina valkost sem boðið var upp á.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:58 e.h.




Powered by Blogger