Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, desember 12, 2003 :::
 
Hæ,
Jólaundirbúningur á fullu alls staðar. Forskeytinu jóla- er skeytt framan við hvaða orð sem er. Allir verða að baka jólasmákökur, búa til jólaís og jólasælgæti, gera jólahreingerningu, halda jólaboð, senda jólakort, fara á jólatónleika, komast í jólaskap, koma upp jólaskreytingu úti sem inni, því fyrr því betra. Allir verða að fá sér jólaföt, jólasíld, jólasteik, jólaeini, jólastell, jólablóm og jólaskötu til að komast í jólaskapið. Þegar jólaáhyggjurnar leggjast á af fullum þunga er tilvalið að fá sér jólakoníak, jólalíkjör, jólabrennivín, jólakók og jólavalium. Þegar þar er komið hverfur allur jólakvíði eins og dögg fyrir sólu. Þá er búið að gleyma jólaboðskapnum, Jesú-barninu og náungakærleikanum, enda hefur þessi þrenning oft viljað gleymast í jólastressinu.
Alltaf bætist við á orðalistann með jóla-forskeytinu. Þó hvarf eitt orð af honum í ár, en varla hefur listinn styst við það, því sífellt fleiri orð fá jóla-forskeytið, sem ætti að lýsa eftirvæntingu, tilhlökkun og hefðum, en eitthvað er sú merking farin að láta á sjá. Jólarjúpan hvarf af listanum – eitt af því fáa sem mér fannst að ekki mætti missa sig. Í staðinn verður að notast við jólahamborgarhrygg, jólahangikjöt, jólahreindýr eða jólaskinku til að bjarga jólamatarlystinni.
Ég hef ekki áhyggjur af jólunum. Hjá mér er löngu búið að búa undir jólin. Allt tilbúið. Ég á bara eftir að kveikja á bakaraofninum og eldavélinni til að hefja jólaeldamennskuna. Jólasteik og jólameðlæti tilbúið til eldunar. Búið að skreyta, pakka inn jólagjöfum og setja undir jólatréð, sem hefur staðið í stofunni í sex vikur, búið að leggja á jólaborðið. Jólasmákökur bíða í kökudunkum og jólaísinn í frystinum. Kaldir jólaréttir bíða í ísskápnum og jólakonfektið komið í konfektskálar. Jólakertin komin í kertastjakana. Jólatiltektinni er lokið. Jólaseríur í öllum gluggum. Jólafötin okkar hanga tilbúin á herðatré – bara eftir að smeygja sér í þau. Það er að vísu dálítið erfitt að koma daglegu lífi inn í þetta fyrirkomulag. Ég ætti líklega að fá mér jólaeldavél og jólaofn. En kannske væri bara betra að fara sér aðeins hægar í jólaundirbúningnum og huga betur að jólaboðskapnum. Prófa það um næsta jól.
Jólaveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:42 e.h.


fimmtudagur, desember 11, 2003 :::
 
Hæ,
Ég sá að hér á síðunum er aðeins verið að rabba um Ólaf Jóhann Ólafsson, rithöfund og auðkýfing, sem hefur unnið það mest afreka að fá 10 í stíl hjá Jóni Gúmm í MR, sem enginn hefur leikið eftir. Ekki eru allir sáttir við hann.
Ólafur Jóhann er alinn upp á miklu menningarheimili, hjá feikna vel gefnum foreldrum, gamaldags ömmu og eldri bróður, sem er alls ekki illa gefinn. Til gamans má geta þess að bróðursonur Ólafs Jóhanns er víst alveg framúrskarandi námsmaður, þannig að hér er ekki um neina hálfvita að ræða.
Drengurinn ólst upp á heimili þar sem heimilisfaðirinn sat við skriftir daginn út og daginn inn og sinnti engu öðru, en mamma hans og amma snerust um rithöfundinn, svo að hann gæti framleitt sem mest. Mamman settist að vísu við prjónavélina öðru hvoru og framleiddi prjónles til sölu.
Drengurinn ólst upp við gullaldaríslensku, lestur helstu verka heimsbókmenntanna og umræður um menn og málefni í grandvörum stíl. Enda skrifar hann fallegt mál, hefur mjög gott vald á íslenskri tungu, en því miður finnast mér bækurnar hans ekkert sérstaklega skemmtilegar. Mér finnst vanta í þær góða hrygglengju og samúð með sögupersónunum. Það er eitthvert tómahljóð í verkum hans.
Mér varð hugsað til þess menningarheimilis sem við systkinin ólumst upp á, þar sem lestur góðra bóka, ljóða- og vísnagerð, umræður um dægurmál, hreint tungutak og tónlist voru í hávegum höfð. Ekki ólíkt því sem Ólafur Jóhann átti að venjast. Hann fékk að vísu í kaupbæti góðar stærðfræðigáfur og afskaplega gott peningavit, en skyldi hafa verið sungið á hans bernskuheimili? Bækurnar hans hefðu e.t.v. öðlast meiri töfraljóma, ef fjölskylda hans hefði sest saman á kvöldin og sungið raddað upp úr Fjárlögunum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:57 e.h.




Powered by Blogger