Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, september 13, 2005 :::
 
Hæ,
Ég sendi frá mér blogg-hugleiðingar 16. september á því Herrans ári 2003, sem er svo sem ekki í frásögur færandi, en þar varpaði ég fram þeirri hugmynd að einstaklingur gæti gengið í hjónaband með sjálfum sér eða nokkrir einstaklingar geti gengið saman í hjónaband. Ég hef bent á það áður hér á síðunni minni að ég setti hugmyndina um að giftast sjálfum sér fram áður en sýndur var þáttur um Beðmál í borginni, þar sem aðalpersónun tilkynnti að hún ætlaði að giftast sjálfri sér. En það er aukaatriði í umfjöllun dagsins, en ég er bara að hnykkja á því við lesendur hversu glöggskyggn og framsýn ég er.
Þegar ég leit á forsíðu Fréttablaðsins á laugardagsmorguninn blasti við mér frétt þess efnis að stærstu kvenréttindasamtök Svíþjóðar hafa á stefnuskrá sinni að breyta hjúskaparlögum þar í landi á þann veg að fleiri einstaklingar en tveir geti gengið í eitt og sama hjónabandið. Ekkert tala sænsku kvenréttindakonurnar um að giftast sjálfum sér, sem er auðvitað alveg upplagt, vegna þess ég sé ekki annað af áralöngum rannsóknum mínum og samskiptum við aðra einstaklinga en að þeim finnist flestum þeir sjálfir skemmtilegustu og gáfuðustu persónurnar, sem heiðra heiminn með tilveru sinni og hvers vegna ekki að giftast skemmtilegasta og gáfaðasta einstaklingnum sem maður þekkir? En á þessu gæti verið eðlileg skýring, sem sagt sú að sænskar kvenréttindakonur séu upp til hópa hundleiðinlegar og að enginn vilji giftast þeim - ekki einu sinni þær sjálfar.
Nú getur verið hentugt fyrir karlmann að geta gifst nokkrum konum og skipa hverja og eina sviðsstjóra á eigin heimili, t.d. yfir eldhússviði, ræstingasviði, þvottasviði, uppeldissviði, innkaupasviði, tómstundasviði, skemmtanasviði, og kynlífssviði, svo eitthvað sé nefnt. Síðan væri hægt að skipa nokkra verkstjóra undir hvern og einn sviðsstjóra og þá hlýtur heimilislífið fyrst að verða verulega fjörugt og áhugavert með tilheyrandi árekstrum og orðaskaki. Það hlýtur að þurfa mikinn snilling og diplómat til að stjórna slíku fyrirtæki, fyrir utan hversu tímafrekt og kostnaðarsamt það hlýtur að vera og eftir nokkra reynslu af slíku yrði líklega friðsælt að hverfa aftur til þess tíma þegar ein kona kunni skil á allri þessari sérþekkingu, án þess að hafa hlotið til þess áralanga skólagöngu og menntun, og annaði öllum skyldum á öllum sviðum fyrirhafnarlaust af fullkominni kunnáttu og færni eins og að drekka vatn.
Þá er spurningin með konur, sem gætu gifst fleiri en einum karlmanni. Þar varð mér hugsað til þeirra fjölmörgu kvenna, sem ég þekki og hafa gengið í gengum skilnað og það fleiri en einn og fleiri en tvo. Nær undantekningarlaust titla þær fyrrverandi eiginmenn sína hálfvita, asna, aula og fífl, þegar þá ber á góma. Er ekki dásamlegt fyrir þessar konur að þurfa ekki lengur að giftast aðeins einum hálfvita, heldur tveimur eða jafnvel nokkrum hálfvitum?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:09 f.h.




Powered by Blogger