Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, júlí 11, 2003 :::
 
Hæ,
Það er hálfgerð bloggleti í fólki þessa stundin, nema Bergþóru dóttur minni, sem tilkynnir reglulega á fjölskyldublogginu að hún sé að fara í sumarfrí. Þegar ég skrifa þessi orð er stundarfjórðungur í sumarfrí hjá henni og fylgifiskum. Það er verst að nú fellur niður bloggið hjá henni næstu vikurnar. Mér skilst að Ragnheiður komi til starfa eftir helgi, svo að áfram verða fréttir í beinni frá þeirra server.
Ég er grasekkja í nokkrar vikur. Við Þórdís erum á sama báti síðan Einar Bjarni fór í víking til Afríku. Ég hringdi i hana og spurði hvernig gengi í grasekkjustandinu og hún sagði að það gengi bara vel. Við skreppum kannske saman eitthvert kvöldið á nokkrar ölkrár og skvettum úr klaufunum. Á ekki eftir að fara í karaókí?
Ég hitti Bergþóru og Agnetu fitufellingakellingu um daginn. Hún sagði mér, þ. e. Bergþóra, ekki Agneta, að þær hefðu farið í heimsókn til Þórdísar. Ég vissi það því að ég hafði lesið það á blogginu. Hún sagði mér líka að hún hefði fundið ljómandi skemmtilegan baunaréttabækling í vinnunni og ætlaði að hafa baunabuff í matinn það sama kvöld. Ég vissi það því að ég hafði lesið það á blogginu. Svo hitti ég Silju og Þórdísi heima hjá síðarnefndri. Þar frétti ég aftur af heimsókn þeirra mæðgna til Þórdísar. Ég vissi það því að ég hafði lesið það á blogginu. Mér fannst þetta orðið staðlað svar hjá mér.
Eyjó hringdi í morgun frá Eskifirði, þar sem stoppað var í nokkra tíma við löndun. Hann bað fyrir kveðjur. Það er langeinfaldast að koma kveðjunni til skila á þessum vettvangi. Nær til flestra fyrirhafnarlítið.
Góða helgi!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:07 e.h.




Powered by Blogger