Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, febrúar 16, 2007 :::
 
Hæ,
Einhvern tíma í einu af mínum mörgu bjartsýnisköstum um ævina ákvað ég að halda upp á 64 ára afmælið mitt með herlegum og eftirminnilegum hætti. Nú er allt í einu farið að líða að því afmæli, þó ekki sé það næst í röðinni og kominn tími til að skipuleggja veisluna, svo hún verði í þeim stíl, sem búið er að móta hér á landi með nýlegum minni háttar afmælum framsóknarmanna.
Ég ætla að halda veisluna í IKEA, get fengið alla byggingun og bílastæðin. Mætti kannske líka halda hana á Kárahnjúkum, þannig að allt verði lagt í rúst, ef vel tekst til í partýinu.
Siggi Hall (aðeins mildur), Völli Snæ (ofvirkur) og Nigella Lawson (sleikiputti og bakteríudreifari) sjá um veitingarnar. Bogi og Örvar sjá um barinn – vanir menn. Tónlistin verður í höndum hljómsveitarinnar Queen og Freddy Mercury með aðstoð Þórhalls miðils og Hermundar Rósenkranz. Sigurður Tómas og Jón Ásgeir sjá um spurningaþátt, Arngrímur Ísberg verður tímavörður og dómgæsla í höndum Drottins almáttugs. Fyrstu verðlaun verða ristilhreinsun hjá Jónínu Ben sem jafnframt verður til aðstoðar og sérfræðiráðgjafar á klósettunum. Handrukkarafélagið sér um dyravörsluna. Sætaferðir frá BSÍ.
Kveðja,
Bekka
P.S. Eða á ég bara að baka afmæliskringlu og “round up the ususal suspects”?

::: posted by Bergthora at 4:52 e.h.


miðvikudagur, febrúar 14, 2007 :::
 
Hæ,
Það fer líklega að líða að því að sérlegur saksóknari hringi og kalli mig til yfirheyrslu til að athuga hvort stemmi hjá mér greiðslur fyrir plastpoka samkvæmt Bónus-kassakvittunum frá upphafi og Bónus-plastpokaeign á heimilinu. Þá lendir maður í djúpri drullu. Öllum Bónuskvittunum er fleygt jafnóðum, allir Bónus-plastpokar eru jafnóðum notaðir undir rusl, öllum Bónus-auglýsingapésum hent um leið og þeir eru sóttir í póstkassann og öllum tölvupóstum frá Bónus lika eytt markvisst úr tölvunni. Þar fyrir utan stal ég einum plastpoka í Bónus fyrir jólin. Varan tók meira pláss en ég gerði ráð fyrir og ég greip einn poka í viðbót traustataki til að koma dótinu út í bíl. Annað hvort tók enginn í kringum mig eftir því eða þá að öllum var skítsama. Þetta var í mestu ösinni á Þorláksmessu, svo að vitnalistinn gæti lengst verulega og þar með yfirheyrslur að sama skapi. Svo versla ég í Bónus svo það eitt út af fyrir sig er full ástæða fyrir sérlegan saksóknara til að hafa mig sterklega grunaða.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:59 e.h.




Powered by Blogger