Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, mars 25, 2004 :::
 
Hæ,
Kæru blogg-lesarar, sem komuð í afmælisveisluna. Þakka ykkur fyrir að koma og heiðra mig með nærveru ykkar síðast liðið laugardagskvöld. Þakka ykkur fyrir að koma, þakka ykkur fyrir skemmtunina og þakka ykkur fyrir fallegar gjafir.
Ég sá ekki betur en að gestirnir skemmtu sér vel og fékk líka miklar þakkir og hrós frá þeim. Krakkarnir mínir og frændsystkini stóðu sig eins og hetjur bæði í eldhúsinu og á barnum undir styrkri stjórn Systu. Ómetanleg aðstoð frá þeim. Marta, Örn og Rússíbanar sviku ekki frekar en fyrri daginn, vöktu mikla lukku og mér sýndist fólk hið ánægðasta.
Pakkapartý og afgangar næsta dag. Fullt hús af fólki. Aftur taumlaus gleði og lukka. Ég fékk ótal fallegar gjafir. Kærar þakkir.
Tvö partý hjá mér í gær, bæði í hádeginu og í gærkvöldi. Afgangar úr veislunni og gjafasýning.
Margir hafa hringt í mig til að þakka fyrir síðast, ég er líka búin að hringja í nokkra og senda tölvupóst til að þakka fyrir fallegu gjafirnar og hugulsemina. Ég á samt eftir að hringja í marga og þakka þeim.
Nú er afmælið mitt liðið, ég orðin sextug, komin á sjötugsaldur. Hverjum dettur í hug að svo lítil kona sé orðin svo gömul, að svo ung kona sé orðin svo gömul? Vonandi sem fæstum. Nei, þetta er bara grín, ég er hin ánægðasta og hef bara yngst við að verða svona gömul, frekar en hitt.
Sextugasta og fyrsta hringferðin um sólina er hafin. Ég fékk einn af þessum uppeldistölvupóstum í morgun, þið vitið þessa sem ala mann upp á tíu sekúndum, svo fullir eru þeir af lífsvisku og speki. Fyrsta setningin hljóðaði svona: Það er dýrt að lifa á þessari jörð, en það er innifalin ókeypis hringferð um sólina á hverju ári.
Þakka ykkur enn og aftur. Kæru vinir, ykkar skál!
Eða Skæru vinir, ykkar kál, eins og ég sagði eitt sinn í saumaklúbbspartýi.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:13 e.h.




Powered by Blogger