Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, febrúar 01, 2008 :::
 
Hæ,
Ég heyrði í morgunútvarpinu í gær að verið var að tala við annan af aðalgúbbunum í Kaupþingi-KB-banka-Búnaðarbanka Íslands. Hann ræddi um 70 milljarða gróða bankans á árinu 2007 og reyndi bara að vera nokkuð brattur og bera sig vel, þótt gróðinn væri 15 milljörðum minni en í hittifyrra. Ég segi fyrir mig, að mér væri slétt sama þótt gróðinn hjá mér næmi ekki nema 15 milljörðum yfir árið. Það er ekki hægt að segja að smámunasemin þvælist fyrir manni.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:32 e.h.


fimmtudagur, janúar 31, 2008 :::
 
Kveðja til Mari
Í dag er Mari Frydendal kvödd hinstu kveðju. Þegar ég hitti hana í fyrsta skipti var eins og við hefðum alltaf þekkst. Hún var hæversk, mild og elskuleg, átti við vanheilsu að stríða, sem hún ræddi ekki mikið um. Ég minnist hennar þegar hún bauð í 17. maí mat á Akureyri, minnist hennar svo glæsilegrar í fallega norska þjóðbúningnum sínum, minnist hennar dagana áður en hún og Steinar fluttu til Noregs - langar setur við matborðið og skemmtilegar samræður, kaffi og enn meira spjall, sjónvarpskvöld og videókvöld með völdum sakamála- eða grínkvikmyndum - Mari að reykja á rúmlega hálftíma fresti við stofugluggann til að missa ekki af neinu í sjónvarpinu. Mari með krossgáturnar, Mari eins og alfræðiorðabók, Mari, sem talaði fyrst í míkrófón fyrir tveimur og hálfu ári í brúðkaupi stjúpdóttur sinnar, þar sem hún færði henni brúðkaupsspaðann að gjöf með yndislegri ræðu, Mari, sem bast Sigrúnu Sól sérstökum böndum frá fyrsta fundi og bað alltaf fyrir innilega kveðju til hennar, Mari hugrökk og róleg í síðasta samtali okkar. Mari, sem vitjaði mín i svefni rétt eftir andlátið, komin til Íslands, þar sem henni fannst svo gott að eiga heima.
Hvíldu í friði, kæra Mari.
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:22 f.h.




Powered by Blogger