Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, mars 19, 2004 :::
 
Hæ,
Ég sit með tárin í augunum og þau renna meira að segja niður kinnarnar á mér öðru hvoru. Í morgun var kallað á mig upp í matsal klukkan 10:00. Ég lét bíða eftir mér vegna þess að ég þurfti að svara fyrirspurn um hlutabréf og það tók tímann sinn. Þegar ég kom upp voru allar konurnar í fyrirtækinu saman komnar auk fjármálastjórans – sem sagt Kristján og hinar stelpurnar. Búið var að dekka upp stórt borð, marsipanterta og konfekt á borðum og mér voru afhentar gjafir að undangenginni fallegri ræðu. Ég fékk demantshring frá fyrirtækinu og armband úr rauða- og hvítagulli frá samstarfskonum mínum. Skartið er sindrandi fagurt. Ég horfi reglulega á höndina á mér, þar sem nýju skartgripirnir mínir tindra og glitra. Yndislegt og ótrúlegt. Það sem mér þótti samt vænst um var að eiga að þessar góðu og yndislegu konur. Þær hafa glaðst með mér og grátið með mér, stutt mig og aðstoðað. Þær eru til staðar fyrir mig þegar mér liggur á og slíkur bakhjarl er enn dýrmætari en gull og gimsteinar.
Kveðja,
Bekka.


::: posted by Bergthora at 2:13 e.h.


 
Hæ,
Ég er ekki hætt að blogga. Ég er hvað eftir annað búin að semja stórkostlega blogg-pistla – í huganum – þannig að þeir hafa aldrei komið fyrir sjónir aðdáenda minna. Nú eru þessi snilldarverk fallin í gleymsku og dá og enginn fær að njóta þessara hugverka minna. En þegar upp er staðið hefur sennilega enginn misst af neinu.
Ég hitti stóran hluta af samstúdentum mínum frá MA nýlega. Er ekki skrýtið að þetta virðulega fólk, sem gegnir stöðum lækna, lögfræðinga, kennara og einkaritara, svo eitthvað sé nefnt, sem alla daga berst við að halda virðingu sinni og skapa sér nafn, skuli í einni svipan breytast í káta menntaskólakrakka, skellihlæja að hvaða vitleysisbrandara sem sagður er og skemmta sér yfir allri þeirri vitleysu sem vellur upp úr hinum, gráta af hlátri yfir skemmtilegum eða neyðarlegum atvikum, sem búið er að rifja upp ótal sinnum? Það er kannske ekkert skrýtið. Eru það svona stundir sem koma í veg fyrir að einstaklingurinn tapi algerlega áttum í hinu daglega moldviðri og haldi skynsemi sinni nokkurn veginn? Stundir, þegar horfið er á vit æskuáranna og amstri dægranna varpað á brott um stundarsakir.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 11:56 f.h.




Powered by Blogger