fimmtudagur, febrúar 26, 2004 :::
Hæ,
Öskudagur i gær, endalaust sælgæti og söngur. Ég fór og keypti sælgæti í kilóavís svo að fyrirtækið gæti boðið viðskiptavinum framtíðarinnar upp á nokkrar kaloríur. Ég naut þess að velja gotteríið í krakkana og ekki leiddist manninum mínum að fá að hjálpa mér. Eina sem skyggði lítillega á gleði okkar var að við þurftum endilega að rekast á vinkonu okkar, þegar við vorum að enda við að hlaða í innkaupakörfuna við sælgætishillurnar, og sú borðar ekkert nema lífræna hollustu og blómadropa í öll mál.
Mér sýndist krökkunum hafa gengið vel að verða sér úti um gotterí annars staðar, því að þau gengu um með fulla innkaupapoka. Gengu? Nei, ekki aldeilis, flest þeirra voru með annað foreldrið eða bæði sem einkabílstjóra í sælgætissnattinu. Öskupokar virðast fyrir bí, en sælgætispokar eru orðnir þeim mun fyrirferðarmeiri í hátíðahöldum dagsins. Lítill hluti þeirra hefði fengið yfir fimm í söng hjá söngkennaranum mínum Barnaskóla Íslands í gamla daga og sá hefði nú hryllt sig yfir textameðferðinni. En krakkarnir voru ljómandi af gleði og ákafa, nutu að því er virtist hverrar mínútu og þökkuðu fallega fyrir sig þegar þeim var réttur sælgætispokinn.
Ekki leiðinlegur dagur í gær.
Í ÖSKUDAGSBÚNINGI
Sigrún Sól var í öskudagsbúningi í gær. Hún var með svartar fjaðrir um háls og bringu, með svartar fjaðrir í hárinu og tvo svarta vængi festan aftan á hjólastólinn. "Hún er greinilega fugl", hugsaði ég með mér, en spurði fyrir siðasakir: "Hvað ertu?"
"Ég er vængbrotinn fugl," svaraði Sigrún Sól.
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 1:49 e.h.
þriðjudagur, febrúar 24, 2004 :::
Hæ,
Ég ætlaði ekki að æsa mig neitt meira út af USA og ráðamönnum þar a.m.k. ekki í bili, en get ekki stillt mig um það vegna hins endalausa bandaríska tvískinnungs.
Ég var ekki fyrr búin að sleppa fingrinum af Post & Publish í síðasta reiðilestri en ég las um bandaríska kvikmynd, sem heitir Along came Polly. Í umsögn um myndina segir eitthvað á þessa leið: Lífið fer loks að verða áhugavert fyrir varkárasta mann jarðar, sem er nýgiftur glæsilegri konu. Stórhættulegt ástarævintýri gerir vart við sig í brúðkaupsferðinni. Hin yndislega Polly Prince setur hans reglubundna og áhættusnauða líf úr skorðum. Til að bæta gráu ofan á svart fer köfunarkennari að daðra við konuna hans. Talað er um að útkoman sé æði skrautleg og bráðfyndin, myndin flokkuð sem rómantísk gamanmynd og leikstjórinn er annálaður fyrir stórskemmtilegar myndir.
Ég efast ekki um að þessi mynd sé bráðskemmtileg og geti kitlað hláturtaugarnar, en í raunveruleikanum er þetta sennilega ekki skemmtileg uppákoma heldur afar dapurleg og átakanleg lífsreynsla fyrir þá sem fyrir henni verða.
Þessi mynd er framleiðsla heimsveldis, sem hefur undanfarna dag hamast á því að hjónabandið sé hornsteinn þjóðfélagsins bandaríska. Menn í Hollywood virðast ekki á sama máli vegna þess að af þessum nýjasta kvikmyndasmelli má ráða að í finu lagi sé að gefa frat í hjónabandið þegar á sjálfa brúðkaupsnóttina. En æðstu menn í Guðs eigin landi halda sig við sama heygarðshornið og hafa verið yfirlýsingaglaðir undanfarna daga hvað varðar heilagan hjónabandshornstein og hefur á þeim mátt skilja að bandaríska lýðræðinu stafi veruleg hætta af framhjáhaldi forsetaframbjóðenda og hjónaböndum samkynhneigðra, að bæði Örninn og Sámur frændi séu verulegri útrýmingarhættu þegar tveir einstaklingar af sama kyni ganga í hjónaband eða forsetaframbjóðandi misstígur sig - jafnvel fyrir löngu.
Er þetta tal áróðursbrella til að fá heiminn til að gleyma voðaverkum þeim, sem nýlega hafa dunið yfir þjóðir sem búa við sult og seyru og hafa engan möguleika á að komast nokkurn tíma nálægt okkur í lífsgæðum?
Hvort er hættulegra lýðræðinu - tvær gamlar lesbíur sem ganga í hjónaband eftir áralanga sambúð, sem hefur byggst á ást og væntumþykju, eða tveir gamlir hershöfðingjahaukar með fullt vopnabúr gereyðingarvopna og ímyndaðan óvin?
Spyr sá sem ekki veit.
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 4:45 e.h.