Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, apríl 23, 2004 :::
 
Gleðilegt sumar, kæru lesendur!
Sumarið kom í gær með 14° hita sól og sumarblíðu eftir efiða nótt hjá. Sigrún Sól þjáðist af endajaxlsverkjum og Eyjó af háum hita. Vonandi samt ekki slæm byrjun á sumrinu.
Fór í skírn í Víðistaðakirkju og veislu hjá Þuru, Hannesi og fjórstrákastirninu á eftir. Ég veit ekki hvernig hefði farið með messusókn, ef skírnargestir hefðu ekki verið í kirkjunni. Sennilega orðið messufall.
Veislan hjá Þuru brást ekki vonum - veitingarnar voru alltof góðar, ég fór náttúrulega aðra ferð á hlaðborðið og hrúgaði hömlulaust á diskinn minn. Alltof södd á eftir. Það er þessi önnur ferð að hlaðborðinu í veislum, sem ætlar mann lifandi að drepa.
Agneta fór með mér í kirkjuna, sat eins og lítill engill og klappaði á eftir hverjum sálmi og sönglagi. Hún sagði "a bú" í miðri messu og klappaði ákaft þegar presturinn lauk prédikuninni.
Nú er sumarrigningin byrjuð að lemja gluggana. Hún byrjaði fremur sakleysislega, eins og léttur úði, en hefur heldur bætt í eftir því sem liðið hefur á daginn. Er þetta fyrirboði um það sem koma skal í sumar eða bara hið síbreytilega veður á Íslandi?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 5:13 e.h.


mánudagur, apríl 19, 2004 :::
 
Hæ,
Ég heyrði fyrir helgina nýjustu rökin fyrir því að Hjördís Hákonardóttir fékk ekki stöðu í Hæstarétti. Hún er of gömul. Meðalaldurinn í Hæstarétti er 58 ár. Ekki á það bætandi. Samt lægri en meðalaldur Mr. DO, Mr. BB og Mr. Blöndal, sem leita með logandi ljósi að öllum rökum í baráttunni við hina leiðinlegu jafnréttissinna landsins og kvenréttindakellingar, sem allar eru búnar að berjast fyrir jafnrétti í a.m.k. fimmtíu ár. Af hverju segja þeir ekki bara hreint út að hún sé ekki nógu falleg og fjörug, ekki nógu sæt?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 6:42 e.h.


 
Hæ,
Vegna margítrekaðra fyrirspurna birti ég á ný uppskriftina vinsælu, ostastengurnar sem allir eru brjálaðir í.
Og nú allir upp með svuntuna og byrja að baka! Það er ekki úr vegi að tvöfalda skammtinn! Hverfur eins og dögg fyrir sólu!

OSTASTENGUR
375 gr hveiti
225 gr smjörlíki
300 gr Óðalsostur
1 1/2 dl rjómabland eða rjómi
1 tsk salt - ég hef minna salt
hjartarsalt á hnífsoddi.

Hveiti og smjörlíki blandað saman.
Osturinn rifinn og blandað saman við.
Rjóminn, saltið og hjartarsaltið sett saman við.
Hnoðað.
Gott að kæla áður en deigið er flatt út.
Fletja úr, 0,25 sm þykkt, skorið í lengjur.
Bakað við 200° í 5 - 8 mínútur eða 175° í 8 - 10 mínútur.

Kælt og geymt í lokuðu íláti. Geymist á köldum stað eða í frysti ef á að geyma stengurnar lengi.
Það hefur ekki reynt sérstaklega á það hjá mér.
VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 10:55 f.h.




Powered by Blogger