Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, mars 18, 2005 :::
 
Hæ,
Það þykir ekki lengur í frásögur færandi þótt konur og karlar liti á sér hárið. Þegar ég bar í mig hárlit nr. 80 í morgun varð mér hugsað til æskuára minna, þegar aðeins konur lituðu á sér hárið og þær aðgerðir fór fram með slíkri leynd, að stórveldin hefðu mátt vera hreykin af, ef njósnarar þeirra hefðu viðhaft hluta af þeirri varkárni sem þá tíðkaðist. Ég man eftir tveim konum á Akureyri, sem voru með litað hár á mínum ungdómsárum og það vissi auðvitað allur bærinn. Önnur var gift háttsettum manni í bænum og var sú með platínuljóst hár og sögðu gárungar, að hún hefði keypt sér húsgögn í stíl við ljósa hárið, Polycolor nr. 2. Aðrar konur, sem lituðu hárið foru með það sem hernaðarleyndarmál og mannsmorð og enginn rannsóknarréttur hefði getað dregið upp úr þeim játningu. Þær einu, sem höfðu öðlast viðurkenningu og leyfi til að lita á sér hárið án þess að um hneyksli væri að ræða, voru stelpur, sem fóru sem au pair til Bretlands – lengra náði landafræðiþekkingin og hugarflugið ekki – þær máttu koma til baka með litað hár, þ.e.a.s. ljóst hár.
Ég laumaðist einu sinni til að setja í mig lit til að lýsa og fríska á mér hárið fyrir árshátíð í skólanum, fór í apótekið og valdi mér afgreiðslukonu, sem ég var viss um að þekkti mig ekki og færi ekki að segja frá því heima hjá sér og út um allan bæ, að eldri dóttir hans Einars í barnaskólanum hefði verið að kaupa sér lit í hárið. Litinn bar ég í hárið mér með algerri leynd, hékk í sturtu í hálftíma meðan hann var að virka og sá svo varla nokkurn mun á hárinu á mér. Enginn gerði ekki athugasemd við gerninginn í það skiptið, svo sennilega hefur fyrirhöfn ekki verið í samræmi við árangur.
Þegar ég var í Sovét tók ég mig til og litaði hárið á mér rautt og var þannig í tvö eða þrjú ár. Þetta gerði ég eingöngu til þess að félagi Bresnjev efaðist ekki um hollustu mína og ást í garð lands þess og þjóðar sem hýsti mig um nokkurra ára skeið, ef svo færi að ég mætti honum á förnum vegi. Ég kom heim á sumrin eldrauðhærð og gaf algert frat i hárlögguna á Akureyri.
Nú lita allir á sér hárið, konur og karlar, stelpur og strákar. Sumir muna ekki lengur hvernig upprunalegur hárlitur þeirra er og aðrir vita ekki hvernig hárið á þeim hefur breytt um lit í áranna rás.
Breyttir tímar!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:10 e.h.




Powered by Blogger