Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, maí 18, 2004 :::
 
Hæ,
Danska brúðkaupið er afstaðið. Ég var boðin í fjarbrúðkaup til Raxellu. Mætti þar uppstríluð með kórónu með bleikum gimsteinum og bleikri dúnrönd, með bleika silkislæðu um hálsinn, þannig að ég gaf konungsættum og aðli Evrópu ekkert eftir. Á borðum voru pipraðir páfuglar og saltaðir sjófuglar og við sátum andaktugar og störðum með tárin í augunum á dýrðina.

FYRSTA VERS
Fyrst komu minni háttar spámenn, eins og sendiherrar, embættismenn og ráðherrar, flestir með mökum sínum. Við spáðum í klæðnaðinn og titlana og hver væri hver. Ekki voru þulirnir mikið til aðstoðar, virtust frekar fáfróðir og gekk illa að koma frá sér því sem dönsku þulirnir voru að segja. Bogi hafði að vísu kynnt sér ýmislegt um kirkjuna og nærliggjandi byggingar, en Elísabet var frekar úti á þekju í flestum málum.
Svo fór kóngafólkið að drífa að og þá fór að aldeilis að færast líf í tuskurnar í bókstaflegri merkingu. Þvílíkt glæsifólk, þvílíkir kjólar og dress. Að vísu báru þessir borgaralegu einstaklingar, sem hafa náð að krækja sér í konungborinn maka, oft af eins og ljón af hundum. Sylvia af Svíþjóð og Sonja af Noregi bera af eiginmönnunum. Alexandra krónprinsessa af Danmörku, unnusta Felipe Spánarprins og Mette Marit – allt stórglæsilegar og fagrar konur.

ÆÐRI SPÁMENN OG SPÁKONUR
Dorrit var með margra milljóna festi um hálsinn, ein á ferðinni af ókunnum ástæðum, Anna María, fyrrverandi Grikklandsdrottning, sat brosandi við hliðina á Konstantín, sem hún féll fyrir þegar hún var 14 eða 15 ára og virtist varla hafa elst um einn dag síðan þá. Beatrice Hollandsdrottning og Sofia Spánardrottning sátu á hljóðskrafi – Beatrice sagði frá alvarleg á svip og Sofia hristi höfuðið öðru hvoru með samúðarsvip og skaut örfáum orðum inn í frásögnina. Þetta hefðu getað verið tvær skólasystur mínar eða samstarfskonur, tvær konur, sem rabba saman í trúnaði, önnur segir frá erfiðleikum í fjölskyldunni og hin hlustar með athygli, sýnir samúð og gefur góð ráð.
Svo kom Margrét drottning til kirkjunnar, tignin og glæsileikinn uppmáluð. Það var eins og tíminn hyrfi. Þessi kona gat verið á ferðinni hvenær sem var, hvar sem var, engun gat dulist að hér var drottning á ferðinni. Svo sterk var nálægð hennar og svo magnaður var persónuleiki hennar.

HINAR KONUNGBORNU
Síðust kom til kirkjunnar Mary Donaldson ættuð frá Skotlandi og búsett í Tasmaníu. Þar var aftur komin drottning, hún gekk tígulega og virðulega inn kirkjugólfið, þráðbein í baki og bar axlir og höfuð einstaklega fallega. Öll hennar framkoma var óaðfinnanleg og eðlileg. Það er kannske auðvelt þegar búið er að ná í prinsinn og allt konungsríkið. En samt - Danir eru heppnir með drottningar.
Mér datt ekki í hug að ég mundi hafa svona gaman af því að horfa á brúðkaupið eða réttara sagt upptökuna. Ég er mjög hrifin af dönsku konungsfjölskyldunni eftir þetta. Mér finnst þau afslöppuð og látlaus. Mér finnst prinsarnir fallegir og ljúfir, tengdadæturnar glæsilegar, konungshjónin tíguleg og mér finnst þau öll líta út fyrir að vera skapgott fólk, sem kann að meta það sem er fagurt og heilbrigt.
Þau höfðu líka öll gaman af tilstandinu, nutu stundarinnar og leyndu því ekki. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hef líklega bara einu sinni áður horft á konunglegt brúðkaup – brúðkaup Díönu og Karls. Þá voru konungsfjölskyldan og Díana sjálf öll á svipinn eins og þau hefðu hvert um sig hellt í sig fullri flösku af ediki rétt fyrir athöfnina og væru þar fyrir utan haldin slæmu tilfelli af harðlífi. Svei mér þá, ef konungsfjölskyldan var ekki ívið glaðlegri á svipinn við útför Díönu heldur en við brúðkaup hennar og Karls.

ÁTTU BÖRN OG BURU, GRÓFU RÆTUR OG MURU
Nú bíð ég bara eftir upptöku úr brúðkaupsveislunni sjálfri, þ.e. dönsku veislunni. Mig langar að sjá gestina sitja til borðs, hlusta á skálaræður, sjá brúðarparið svífa um gólfið í brúðarvalsi, hverfa á braut úr veislunni og lifa hamingjusöm saman til æviloka.

NÆSTA PARTÝ
Að fjarbrúðkaupinu loknu fór ég í partý með samstarfskonum mínum, núverandi og fyrrverandi. Gunna Jóna hafði boðið okkur heim og ég gat ekki stillt mig um að hrekkja hana með velheppnuðum árangri. Ég var búin að segja henni að ég yrði hálftíma til þrem kortérum of sein vegna brúpkaupsins danska. Ég lagði bílnum aðeins frá húsinu hjá henni og hringdi í hana úr farsímanum.

VELHEPPNAÐUR HREKKUR - DRAMA Í EINUM ÞÆTTI MEÐ EFTIRLEIK
Ring, ring,
Gunna Jóna: Halló!
Ég: (Þykist vera dauðadrukkin): Gunníona. Ðetter B.......
Gunna Jóna: (Afar undrandi og hissa) Sæl og blessuð.
Ég: Gunníóna! Þeistu nokkuð kar ðú átt heima?
Gunna Jóna: (Frekar hikandi): Já, Öskubakka sex.
Ég: Jér bara alltað leita o leita. Jé ðeit ekkett kar jér.
Gunna Jóna: Þetta er gult hús.
Ég: Jér alve agoma, kannski ettr klukkutíma eða eikkað.
Gunna Jóna: Allt í lag, elskan. Engar áhyggjur. (Þarna kom hún upp um sig, vildi ekki fá mig í heimsókn blindfulla).
Ég: Jé var í brúþgaupnu, þaar alve verulea huggultt.
Gunna Jóna: (vandræðaleg) Já, var það ekki?
Ég: Gunníóna. Jér alvea goma. Jé bi so ossalea vel a helsa stelponum, þa eso rosalea lánt síðané hef séðær. (Ég vinn með þeim – var með þeim allan fyrrihluta dagsins.).
Gunna Jóna: Ég skal skila því. (Gerir ekki tilraun til að leiðrétta þessa ranghugmynd).
Ég: Bless.
Gunna Jóna: Bless.
Ég: (Æpi) Gunníóna!
Gunna Jóna: (Orðin þreytt á mér): Já.
Ég: Gunníóna. Jéllsska þig!
Ég skelli á.
Síðan fer ég út úr bílnum, læsi honum, geng virðulega eins og drottning heim að húsinu, líð með sýningarstúlkubrag upp tröppurnar og hendi mér á dyrabjölluna rétt eins og dauðadrukkinn aumingi til að hrella hana einnþá meira.
Gunna Jóna leggur frá sér símann, fer inn í stofu og segir við stelpurnar: "B....... var að hringja. Getur verið að hún sé svona drukkin?" Þær verða steinhissa í takt, þögn fellur á hópinn, sem er rofin þegar sú umburðarlyndasta segir : "Það getur nú komið fyrir alla að fá sér aðeins of mikið."
Dyrabjallan hringir ákaft. Gunna Jóna hleypur fram og opnar hikandi, stendur í gættinni með skelfingarsvip, sem hverfur fyrir breiðu brosi og síðan skellihlátri, þegar hún sér "drukknu konuna" standa bláedrú og óaðfinnanlega með öllu á tröppunum.
ENDIR

Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 12:29 e.h.




Powered by Blogger