Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, nóvember 05, 2004 :::
 
Hæ,
Það var meiri ágjöfin á Þórólf vin minn í þættinum Ísland í dag í gærkvöldi. Bylgjuföll og gusugangur þeirra Jóhönnu og Þórhalls skullu stanslaust á honum og hann var kaffærður í spurningunum aftur og aftur. Það var varla að hann fengi að klára að svara einni einustu spurningu, því að ný spurningaalda reis upp undir rjáfur, um leið og hann opnaði munninn. Jóhanna var með u.þ.b. þrjár spurningar á takteinum og þrítók hverja þeirra í hvert skiptið á fætur öðru og vitnaði stöðugt til þess að fjöldi fólks væri á þeirri skoðun, að hann væri glæpamaður og ætti að hætta sem borgarstjóri. Hún vildi fá hann til að samþykkja, að þetta væri hárrétt og ætlaði helst að knýja hann til að segja upp störfum í beinni útsendingu hjá henni.
Hvorugt þeirra Jóhönnu og Þórhalls, og það á ekki bara við um þau heldur fréttamenn yfirleitt, virðist hafa hugmyndaflug til eða áhuga á að kalla forstjóra, stjórnarmenn og aðra starfsmenn olíufélaganna, sem viðriðnir voru svindlið, í viðlíka yfirheyrslu og hella yfir þá ísköldu spurningaflóði. Nei, það er ekki hróflað við þessu liði, enda allt saman með sitt á þurru, hefur forðað sér í öruggt var, komið í felulitina og lætur lítið sem ekkert fyrir sér fara. Það er líka öldungis víst að fæst af því styður R-listann. Er það hluti af skýringunni?
Ég spyr enn og aftur: Hvar er þetta fólk? Af hverju er ekki gerð tilraun til að tala við það? Er það ábyrgðarlaust með öllu?
Ég las um daginn að Jóhanna Vilhjálmsdóttir væri vaxandi sjónvarpskona og hefði farið ákaflega mikið fram og þar fram eftir götunum. Þetta hlýtur að hafa verið í Séðu og heyrðu eða Bleiku og bláu eða einhverju álíka menningarriti. Meira að segja Mogginn léti sér ekki detta í hug að setja slíka slíkt á þrykk.
Ég hef ekki séð Jóhönnu neitt að ráði í sjónvarpi síðan hún og Þórhallur voru með Ísland í bítið á morgnana. Þar sátu þau berskjölduð hlið við hlið í léttum hægindastólum. Þá hafði hún þann háttinn á að spyrja gesti þáttarins að einhverju ekkert sérstaklega gáfulegu, síðan hló hún kjánalega um leið og hún leit í áttina til Þórhalls og lagði höndina létt á lærið á honum. Hann lét sér nokkuð vel líka.
Framförin sýnist mér vera fólgin í því, að hún er farin að þrítaka hverja spurningu, hætt að hlæja vandræðalega eftir hverja spurningu, hætt að horfa til Þórhalls og leggur ekki lengur hönd á læri. Að vísu sitja þau núna við borð, svo að hún gæti haft hendurnar á lærunum á honum og þar um kring meðan útsending stendur yfir, en það virðist ekki vera “inni” hjá henni um þessar mundir. Það má kannske með góðum vilja kalla þetta einhverja framför.
Ég finnst að nýir eigendur stöðvarinnar ættu bara að reka Jóhönnu sem fyrst og fá sér færan þáttastjórnanda, t.d. einhverjar af þeim framúrskarandi fréttakonum, sem voru látnar fara þegar niðurskurðurinn mikli átti sér stað á Stöð-2 og fréttakonurnar voru reknar, en karlmennirnir sátu eftir.
Eftir að þau fréttahjúin höfðu pusað og spúð eldi og brennisteini á Þórólf dágóða stund rann upp hans sigurstund. Símakönnun var lokið – 66% af 2000 þátttakendum voru fylgjandi því að hann sæti áfram í stóli borgarstjóra. Vonbrigða- og aulasvipurinn á Jóhönnu var óborganlegur. Fjöldi fólks, sem hún var búin að vitna til allan tímann, var sem sagt á hans bandi. Þetta var SMS-könnun, sem t.d. eldri konur geta ekki tekið þátt í af tæknilegum ástæðum, en þær liggja unnvörpum marflatar af hrifningu á borgarstjóranum, þannig að ég held að hann hefði jafnvel getað fengið meira fylgi.
Ég gat ekki stillt mig – með glotti benti ég á Jóhönnu á skjánum og hvæsti storkandi: “Gott á þig! Gott á þig!”
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:19 e.h.


fimmtudagur, nóvember 04, 2004 :::
 
Hæ,
Þá er Bush forseti áfram í Guðs eigin landi og búinn að flytja ávarp til bandarísku þjóðarinnar, bara býsna gott ávarp í frekar einföldum stíl eins og hans er von og vísa. Hann biðlaði til kjósenda Kerrys og sagði að nú væri nauðsynlegt að öll þjóðin fylkti liði og skipaði sér í þéttar raðir eftir orrahríð kosninganna. Til hvers? Jú, til að halda áfram að berja á Írak og ráðast á fúnar, ormétnar og nagaðar stoðir velferðarkerfisins í Bandaríkjunum. Alveg er ég sannfærð um að fjölmargir kjósendur Kerrys hafa Kinkað kolli af sannfæringarkrafti, gengið Bush glaðir á hönd og umsvifalaust steingleymt því að þeir kusu á móti honum vegna Írak-málsins og lakrar stöðu á fjölmörgum sviðum innanlands. Verði þeim að góðu!
Þrátt fyrir endalausan æsing minn í garð Bandaríkjanna verð ég að viðurkenna að mig langar gífurlega mikið þangað og hefur langað þangað undanfarin ár. Ekki til að skreppa þangað í borgarferð, heldur langar mig til að fara þangað, vera þar nokkra mánuði, ferðast um og kynnast þessu auðuga og furðulega landi, sem fólk frá öllum heimshornum hefur sótt til og sest að. Ég var á yngri árum viss um að þetta væri land, sem ég gæti aldrei sætt mig við að búa í og að þar gæti ekki þrifist nokkur maður með snefil að heilbrigðri skynsemi. Allt í einu hefur hin ameríska þrá gripið mig. Kannske að þetta sé ameríski draumurinn, sem hefur náð á mér heljartökum.
Þetta er ekki eina landið sem mig langar til að heimsækja og heiðra með búsetu minni. Ég hef alltaf heimþrá til Moskvu og eftir ferðina þangað í vor, dreymir mig um að fara þangað og vera þar í nokkra mánuði. Gamla sovéska borgin er mér afar kær og ég set engan stað henni ofar, nema helst dvöl og eilíft sumarfrí í Paradís.
Undarleg er löngun mín í ferðamálum. Mig langar til Mongólíu, ekkert sérstaklega til Ulan-Bator, heldur langar mig að fara og vera með hirðingjum, búa í hirðingjatjaldi á endalausri víðáttunni og jafnvel að fara á hestbak og þeysa um steppuna. Svo langar mig til Namibíu, þar sem gullinn sandurinn liggur í öldum og smýgur inn í hverja rifa og glufu. Mig langar til að fara út á sandbreiðuna og sitja í morgunsárið undir kræklóttu tré við vatnsból og virða fyrir mér dýrin, sem koma í birtingu til að sækja sér lífsbjörg vatnsins.
En lítið verður úr ferðamálum í bili og óvíst að þessar ferðaóskir rætist. Ég sit föst hér á klakanum, þar sem borgarstjóri höfuðborgarinnar er í djúpri drullu og allur málflutningur er á þá leið, að látið er líta út fyrir að hann einn beri fulla sök á því er varðar samráð olíufélaganna. Hann einn hafi lagt á öll ráð, stjórnað þessu einn og óstuddur, haft frumkvæði og hlakkað í honum yfir hverjum eyri, sem almenningur lagði í okursjóðinn. Ég spyr: Hvar eru samráðsforstjórarnir, hvar eru aðrir markaðsstjórar olíufélaganna? Þurfa þeir ekki að svara neinum spurningum fréttamanna, þurfa þeir ekki að standa skil á neinu? Það mætti ætla að þeir væru saklausir sem hvítþvegnir englar.
Málsmeðferðin er skólabókardæmi fyrir það sem Sovétmenn sögðu á sínum tíma, að væri dæmigert fyrir fréttaflutning á Vesturlöndum: Athyglinni væri beint frá kjarna málsins að einhverju einu atriði málsins, eða jafnvel að allt öðru máli, og það gert að aðalatriði, þannig að allt annað félli í skuggann. Fyrir valinu yrði eitthvert atriði eða mál, sem almenningur fengist til að kokgleypa á svipstundu. Einfalt, sniðugt og svínvirkar. Mjög oft notað þegar þarf að heyja styrjöld, sem almenningi hugnast ekki.
Ég vil alls ekki missa Þórólf sem borgarstjóra, þótt ég búi ekki í borginni hans. Ég vil hafa hann áfram. Ég vil láta draga olíuforstjórana á fréttastofurnar, í blöðin, láta draga þá á vettvang og varpa þeim fyrir ljónin.
Kennarar eru í vinnu þessa vikuna, en ég má hundur heita ef þeir fella ekki þessa smánarlegu miðlunartillögu, sem sáttasemjari rétti þeim, eftir að forsætisráðherra hafði sparkað í hann og skipað honum að gera eitthvað til að bjarga málum. Miðlunartillagan var rétt komin á borðið, þegar kastað var rennblautri og illa þefjandi tusku framan í kennara með samningi við sjómenn. Hápunktur þess samnings var skattaafslátturinn frá ríkinu, þ. e. peningar frá skattgreiðendum, frá mér og þér, styrkur frá okkur til útgerðarinnar, sem sífellt er rekin með eilífu tapi og eymd. Ég skil ekki hvernig þeir nenna að standa í þessu, enda hljóta allir útgerðarmenn að vera á horriminni og illa settir hvar sem á er litið.
Ég heyrði nýlega viðtal á öldum ljósvakans, þar sem kona nokkur svaraði þó nokkrum spurningum og tókst í máli sínu að hafa allar sagnir í nafnhætti utan eina, sem var auðvitað sögnin að vera. Hún var ekki alveg að skilja hvað aðrir voru að segja og var ekki alveg að átta sig á hvaða skoðun aðrir voru að hafa. Ég man ekki hvort hún var að tala um Þórólf, kosningar í Bandaríkjunum eða kennaraverkfallið, en meðferð hennar á sagnorðum íslenskrar tungu líður mér ekki úr minni.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:35 e.h.




Powered by Blogger