Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, október 21, 2004 :::
 
Hæ,
Ég setti um daginn athugasemd hjá Silju, þegar hún var í örlætiskasti að bjóða þurfandi líffærin úr sjálfri sér án nokkurs endurgjalds. Henni datt auðvitað ekki í hug að það væri gamla móðursystir hennar, sem væri svo forhert að tíma ekki að gefa svo mikið sem nábítinn úr hálsinum á sér og svaraði tilskrifinu, sem það væri frá dóttur minni. Þessi misskilningur er leiðréttur hér með. Það er undirrituð sem ekki vill gefa úr sér líffærin. Ég er handviss um að dóttir mín, hin upprennandi Florence Nighingale, er tilbúin að rífa úr sér hjarta, lifur og lungu fyrir einhvern hjartasjúkling, sem hefur með spilltu og óguðlegu líferni fyrirkomið eigin líffærum eða Guð hefur skammtað skemmri tíma hér á jörðu en mannskepnan og sjúklingurinn sjálfur telur eðlilegt.
Ég hef hins vegar ekki hugsað mér að gefa neitt af mínum líffærum, þótt þau séu mörg hver ákaflega vel með farin - betur farin en hjá mörgum yngri manninum - og ábyggilega vel boðleg og brúkleg. Ég er t. d. viss um að lifrin í mér er sambærileg við hinar bestu lambalifrar í sláturtíðinni, glansandi og gallalaus, lungun skínandi hrein og sem nýburstuð utan sem innan og sjálf aðaldælan virðist bara vera í góðum gangi og lítið um feilpúst. Þá er meltingarvegurinn áreiðanlega eins og nýhreinsaður og líkastur spánýju skólpkerfi frá Byggingavöruverslun Ísleifs og segja mætti mér að hann gæfi meltingarfærum Rutar Reginalds ekkert eftir, en mig minnir að þau hafi verið hreinsuð, skafin og þvegin í beinni útsendingu á Stöð 2 í vetur.
Húðin á mér er, ykkur að segja, alveg fyrirmyndarlíffæri og alveg ótrúlegt að hún skuli vera komin á sjötugsaldur. Eini gallinn á henni er kannske að hún er í minna lagi, en í staðinn kemur að teygjan i henni er veruleg, ekki hafa reykingar um ævina dregið úr teygjanleikanum. Þar mótar hvergi fyrir appelsínuhúð nokkurs staðar, svo að hver kvikmyndastjarna væri fullsæmd af því að fá neðri kinnarnar af mér í stað sinna skorpnu kinna eftir áralanga dvöl með andlitið í sterkum ljósum kvikmyndavera Hollywood. Þær eru bara svo óheppnar að þeim stendur þessi húð, sem er sem ungbarnsrass hvar sem á er litið, alls ekki til boða. Þær verða að halda áfram að notast við strekkingu á eigin húð, þar til hún er orðin eins og spýtt selskinn.
Öll mín bein, 208 að tölu, eru heil og óbrotin, full af kalki og fjörefnum, slímhúðin heil og misfellulaus og þannig mætti lengi telja.
Auðvitað eru örfáar undantekningar á öllu og eitthvað farið að þreytast í líkama, sem er fyrir þó nokkru farinn að lifa síðari helming ævinnar. Ég er ekki viss um hvort hornhimna, hljóðhimna og heili eru boðleg hverjum sem er, en mér tekst þó ágætlega að komast af með þessi líffæri, kannske af gömlum vana, vegna þess að ég er farin að kunna á ýmsa galla, eins og gerist og gengur í hinu daglega lífi, t.d. með gamla bíla, sem eigandinn einn getur tjónkað við, en aðrir hökta á eins og allt sé sundur að ganga.
Þá eru ýmsir hér í heimi til búnir til að græða á líffærasölu og hafa notað sér févana fólk frá löndum Austur-Evrópu, skorið úr því ýmis líffæri eða hreinlega aflífað fólk, einkum ung börn og ungbörn til að ná úr þeim líffærum handa ríkum einstaklingum, sem geta keypt sér allt, líka líffæri í staðinn fyrir það sem búið er að eyðileggja með óhóflegum munaði og lastalífi.
Samtöl gætu verið í þessum dúr:
“Fékkst þú brisið úr kallinum, sem hrapaði fyrir björg um daginn?” “Já, en það hefur eitthvað skaddast í fallinu, ég er að reyna að ná mér í betra bris.”
“Ertu kominn með nýja lifur?” Já, ég fékk lifur gegnum klíku úr einhverjum krakka, sem átti heima í Moldavíu. Hún var eiginlega ekkert notuð og nú get ég byrjað að drekka og dópa aftur af fullum krafti eins og nýsleginn túskildingur. Þegar þessi verður orðin léleg, fæ ég mér bara enn eina, nýja og ónotaða. Nóg framboð fyrir austan gamla járntjald og ágætis verð.”
Ég er ekki tilbúin að innbyrða líffæri frá hverjum sem er. Það er ekki beint í mínum anda að vera að dandalast með annarra manna líffæri. Mig langar ekkert til að láta setja í mig líffæri úr einhverjum ókunnugum, sem ég veit hvorki haus né sporð á.
Það væri þokkalegt að vakna einn góðan veðurdag og sitja uppi með heilann úr Georg W. Bush, hjartað úr Saddam Hussein, skorpulifur úr Boris Jeltsín, húðina á Brigitte Bardot og magann úr Vaidasi Jucevicius.
Væri það sama persónan og sú sem lagðist undir hnífinn?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 6:14 e.h.




Powered by Blogger