Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, september 10, 2009 :::
 
Hæ,
Ég heyrði glefsur úr útvarpsviðtali við Hannes Hólmstein Gissurarson nýlega, þar sem hann fjallaði um Svartbók kommúnismans, ritverk sem HHG er nýbúinn að þýða. Þýðandanum var virkilega mikið niðri fyrir og naut sín verulega vel eins og venjulega þegar hann fær kærkomið og – að því mér finnst - síendurtekið tækifæri til að níða niður Sovétríkin, ráðamenn þar, kerfið í heild og alla sem hafa vogað sér að hafa snefil af samúð í þann garð eða jafnvel svo mikið sem vogað sér að gjóta hornauga þangað austur. Honum tókst ágætlega upp eða það hlýtur að vera því að mér fannst drullan hreinlega slettast út úr útvarpinu meðan frjálshyggjusnillingurinn og frelsisboðberinn fór mikinn í orðagjálfri og áróðri.
HHG er líka búinn að vera i þætti hjá BjBj á ÍNN, en þáttastjórnandinn sjálfur hafði aðstoðað HHG við þýðingu og prófarkarlestur af alkunnum dugnaði og áhuga á viðfangsefninu. Ég missti af þeim þætti, hef enda aldrei séð neitt á ÍNN og er ekki með þá stöð í gamla sjónvarpstetrinu mínu. Ég get bara rétt ímyndað mér hvað þeir tveir hafa verið sammála í öllum skoðunum og samtaka við að sverta og ata auri allt sem laut að og tengdist Sovétríkjunum. Þar hefur þáttastjórnandinn ábyggilega ekki verið eins og gammur við viðmælandann með framígripum og skipunum um að svara flóknum spurningum umsvifalaust með einföldu jái eða neii og engu öðru.
Þarna er enn einu sinni verið að beita gamla, góða ráðinu, sem er að beina sjónum almennings frá vandamálunum heima fyrir, sem þessir tveir kumpánar og samherjar þeirra bera ekki svo litla ábyrgð á. Þeir hafa ekki sparað sig við að dásama og lofsyngja stefnuna sem leiddi þjóðina í glötun. En nú þegar rjúkandi rústir stefnu þeirra blasa við hvert sem litið er, benda þeir bara á hversu hræðilegur, hættulegur og ógnvænlegur kommúnisminn var, er og verður og veifa svartbókinni eins og orrustufána því til sönnunar. Úr orðum þeirra og fasi má lesa hversu heppin og óendanlega lánsöm þjóðin er að fá að dúsa í svartholi kapítalismans og nýfrjálshyggjunnar um ókomna tíð í stað þess að lenda í svartbók kommúnismans.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:51 e.h.


þriðjudagur, september 08, 2009 :::
 
Hæ,
Obama forseti Bandaríkjanna tilkynnti um daginn að hann myndi flytja ávarp í framhaldsskóla í Virginíu til að hvetja nemendur til dáða á nýju skólaári og ræða um gildi og nauðsyn menntunar. Þá brá svo við að sumir foreldrar fengu skyndilega hland fyrir hjartað og kváðust óttast að forsetinn myndi flytja pólitískan áróður og innræta börnunum rangar skoðanir. Íhaldið í Bandaríkjunum fór nokkra kollhnísa af æsingi og í leiðinni hamförum út af væntanlegri ræðu forsetans, sem var allt í einu grunaður um óæskilegar pólitískar skoðanir alltof langt til vinstri, bara í námunda við Karl Marx, Engels og þá félaga. Það er greinilegt að þessum öflum finnst að forseti Bandaríkjanna megi eingöngu láta út úr láta út úr sér sótsvartan afturhaldsáróður og svartagallsraus eins og tíðkast hefur að megninu til fram til þessa dags. Þar eigi jafnrétti, frjálslyndi og raunsæi ekki heima. Þessi sameinuðu öfl foreldra bandarískra skólabarna og svartasta íhaldsins heimtuðu ritskoðun á ræðu forsetans, sem var birt fyrir fram til að koma í veg fyrir misskilning.
Ég verð að segja að ég hef Obama segja ýmislegt, sem ég hefði aldrei trúað að ég ætti eftir að heyra úr munni Bandaríkjaforseta. Mér finnst Bandaríkin hafa fengið á sig annað yfirbragð við tilkomu hans á forsetastól.
Það er sem sagt kominn kommi í Hvíta húsið - gáfaður og vel gefinn kommi - og er það vel.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:19 f.h.




Powered by Blogger