Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, júní 25, 2004 :::
 
Hæ,
Það fór allt gærkvöldið í fótboltaleikinn milli Englands og Portúgal. Við sátum hjónin límd við sjónvarpið, en þrátt fyrir það misstum við af fyrsta markinu, vegna þess að við skiptum yfir á aðra stöð nokkur andartök. Ég þori varla að segja að við skiptum smástund yfir á Stöð 2, ef Mr. DO skyldi lesa bloggið mitt. Þá voru fréttir þar og verið að fjalla fjálglega um eitthvert sáluhjálparatriði, sem ég man ekki hvað var. Þegar við mundum aftur eftir leiknum voru Englendingar búnir að gera mark, algert slembilukkumark, sem þeir áttu ekki skilið. Svo sátum við lengi vel og fylgdumst með Portúgölum berjast við enska markið, líklega hátt í klukkutíma þangað til boltinn small í netið með glæsibrag. Spennandi. Áfram var haldið með tuðruna. Leikslok. Jöfn staða. Svo var framlenging og aftur framlenging. Grátandi portúgölsk kona, sem beit í trefilinn sinn í örvæntingu, birtist á skjánum. Hún hlýtur að hafa fengið slæmar fréttir í GSM-símann sinn. Svo var vítaspyrnukeppni og aftur vítaspyrnukeppni.
Að mínu mati voru tveir hápunktar í leiknum. Fyrri hápunkturinn fannst mér þegar einhver Englendingur með húðflúr á hálsinum stillti sér upp til að taka víti eins og sá sem valdið hefur og skaut langt yfir markið, rétt eins og hann hefði aldrei á knattspyrnuvöll komið. Guð minn góður, er ekki hægt að láta einhverja flinka og færa knattspyrnumenn taka víti þegar svo mikið liggur við? Annars var ég ekkert voða sorrý yfir þessum mistökum enskra heiðursmanna, vegna þess að ég hélt auðvitað með Portúgal, sem tengdamóðir Pýreneaskagans.
Hinn hápunkturinn var þegar Ricardo, portúgalski markvörðurinn varði víti Vassells og skaust svo sjálfur fram á völlinn og skoraði mark hjá enskum, svona í hjáverkum. Glæsileg frammistaða, sem lengi verður í minnum höfð!
Þungu fargi létt af Portúgölum. Englendingar hurfu hnípnir af velli. Hversdagslífið tók aftur völd og þó...
Átta-fréttir og tíu-fréttir sjónvarps runnu saman í einn allsherjarfréttatíma, dagskráin felld niður að mestu, nema farið var yfir leikinn og mörkin og allt saman aftur og aftur eftir fréttir til vonar og vara í nákvæmri frétta- og söguskýringu. Fótboltinn hefur forgang.
Nú er beðið eftir næstu leikjum. Þar sem ég held bæði með Dönum og Tékkum finnst mér verst að þeir skuli keppa sín á milli. Mín dæmigerða óheppni, sem skiptir auðvitað engu máli bæði fótboltalega séð og lukkulega séð, svo maður bregði fyrir sig boltamálinu.
Kveðja,
Bekka - boltabulla
Ég sver að við horfðum bara örlitla stund á Stöð 2!


::: posted by Bergthora at 11:33 f.h.


miðvikudagur, júní 23, 2004 :::
 
Hæ,
Þá er aðalsumarleyfi ársins lokið, Moskvuferð og stúdentsafmæli að baki, ég er komin endurnærð og hamingjusöm til baka á minn gamla stað á bak við mitt skrifborð í minni vinnu og sannast þar hið fornkveðna “...heim kemst að lokum allt sem burtu fer” – svo vitnað sé í Stein Steinarr. Hversu fornkveðin þessi ljóðlína er veit ég annars ekki, hún er frá síðustu öld, svo að e.t.v. er hún bara nýkveðin eða nokkuð nýkveðin.
Ekki leiddist mér í “landi lífsgleðinnar” eins og gamall kommi á Akureyri var svo smellinn að kalla Sovétríkin á Stalínstímanum.
Allt var þar eins og áður, en samt allt öðru vísi. Margt var á sínum stað, en margt var horfið. Margt nýtt hafði skotið föstum rótum, en samt var margt af því gamla enn rótfast. Við hjónin smullum inn í gamla Moskvutaktinn, ferðuðumst langar leiðir innanborgar með almenningsfarartækjum, hlupum á eftir strætó og eftir göngunum í neðanjarðarlestinni eins og fyrir tæpum 40 árum og hegðuðum okkur eins og Rússar.
Dásamlegt að tala rússnesku tímunum saman við gamla og góða vini. Hversu mörg orð hafði ég ekki notað lengi, lengi, sem allt í einu rifjuðust upp og voru svo töm á tungu.
Á hverju kvöldi áður en ég fór að sofa, leit ég út um gluggann á níundu hæð á dvalarstað okkar við Mosfilmovskaja og horfði augnablik á gamla heimilið okkar Lomonosov-háskólann á Lenín-hæðum, sem nú heita Vorobjov-hæðir, þar sem hann stóð sem áður uppljómaður í kvöldskininu.
Við villtumst aldrei í Moskvu þessa 14 daga sem við vorum þar, en þegar við vorum búin að vera á Akureyri í tvær klukkustundir þurftum við að spyrja til vegar til að komast í stúdentapartýið í Golfskálanum. Útlendingur frá þriðja heiminum vísaði okkur veginn þangað.
Ég var ekki búin að vera í Moskvu nema nokkra daga, þegar ég var farin að planleggja næstu ferð þangað. Nú bíð ég óþreyjufull eftir Moskvu.
Kveðja,
Bekka - hin rússneska


::: posted by Bergthora at 5:51 e.h.




Powered by Blogger