Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, ágúst 27, 2004 :::
 
Hæ,
Hefur einhver tekið eftir hvað er ótrúlega erfitt að reyna að halda uppi samræðum við fólk af einhverju viti og í samhengi? Hvað getur verið erfitt að koma boðskapnum í orðunum til viðkomandi. Viðmælandinn grípur eitt stikkorð á lofti og umræðuefnið allt í einu látið snúast um eitthvað allt annað en lagt var upp með. Mér finnst ég býsna oft lenda í þessu. Sennilega er best að hlusta sem minnst á viðmælanda sinn í flestum tilfellum, búast helst ekki við neinu vitlegu frá honum og halda áfram eigin djúpvitru samræðum við loftið og leyfa viðmælanda að halda áfram sinni einræðu í einstefnuátt í fullkomnum friði án utanaðkomandi truflana.
Hér á eftir fylgja nokkur dæmi fyrir vantrúaða.
Dæmi eitt:
Ég: Við hjónin höfum undanfarinn áratug unnið að rannsóknum á áhrifum perestroiku á daglegt líf rússnesku þjóðarinnar og nágrannaþjóðir hennar fyrstu árin eftir fall Sovétríkjanna. Þetta var mjög umfangsmikil rannsókn og tímafrek. Við kynntum samstarfsmönnum okkar niðurstöðurnar og lögðum grunn að áframhaldandi rannsóknum á sviði þjóðfélagslegra áhrifa perestroiku í nokkuð víðtækum skilningi í ferð til Moskvu í vor, þar sem við vorum í hálfan mánuð.
Viðmælandi: Já, frænka vinkonu minnar hefur líka komið til Moskvu.
Ég: Einmitt. Var hún þar í tengslum við starf eða eitthvað annað? Talar hún rússnesku?
Viðmælandi: Nei, hún bara millilenti þar einhvern tíma. Stoppaði eiginlega ekkert.
Dæmi tvö:
Ég: Það eru til menn, sem eru á þeirri skoðun, að í öllum þeim mikla hraða og asa, sem einkenndi fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar í vor, hafi nokkur atriði orðið út undan. Þeir vilja meina, að of mikil áhersla hafi verið lögð á eignarhaldið, en aftur á móti hafi dagskrárgerð og samsetningu dagskrár verið lítill sem enginn gaumur gefinn, sem er ákaflega mikilvægt atriði í þessu máli. Í því sambandi kom fram hjá Kolbrúnu Halldórsdóttir, þingmanns vinstri...
Viðmælandi: Mér finnst hún nú alltaf svo leiðinleg.
Ég: Þekkir þú hana?
Viðmælandi. Nei, ég hef bara séð hana einu sinni í Kastljósi og fannst hún alveg ferleg.
Ég: Var hún að fjalla um fjölmiðlafrumvarpið?
Viðmælandi: Nei,. Það held ég ekki.
Ég: Um hvað fjallaði þátturinn?
Viðmælandi: Ég man það ekki.
Getur verið að ég hafi valið mér rangan viðmælanda?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:31 e.h.


miðvikudagur, ágúst 25, 2004 :::
 
Arnbjörg í Holti er dáin, hún leið hægt og átakalaust úr þessum heimi. Abba var búin að lifa í næstum 96 ár og mundi allt sem gerst hafði á langri ævi. Líkaminn var löngu farinn að láta sig, en sinnan alltaf sú sama. Fyrir stuttu förlaðist henni í fyrsta sinn og skömmu síðar lést hún. Góð, vönduð og lítillát fram í fingurgóma.
Holtungar syrgja mæta konu.
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:20 e.h.




Powered by Blogger