Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, janúar 02, 2006 :::
 
Hæ,
Gegnum tíðina hef ég verið mjög iðin við eyðslu og hef yfirleitt verið tilbúin að kaupa á staðnum hvers kyns glingur og vitleysu sem höfðar til mín og ég tala ekki um ef ég álít að ég geti alls ekki lifað án þessara kostagripa eða tilboða. Þessari eyðslugleði minni hafa að vísu verið nokkuð þröngar skorður settar gegnum tíðina, þar sem laun og tekjur hafa ekki verið í nokkru samræmi við löngun mína í freistingarnar. Nauðþurftir hafa setið fyrir og almenn blankheit komið í veg fyrir að ég gæti notið mín að fullu í eyðslu og sóun. Þegar ég lít til baka man ég aðeins eftir einni vörutegund, sem ég hef ekki hent peningum í umsvifa- og umhugsunarlaust. Það er til einn hlutur, sem ég hef aldrei viljað borga fyrir.
Til allrar hamingju virðast fáir hér á landi á sömu skoðun vegna þess að fólk eys peningum í stórum stíl í þessa vöru og nýtur síðan um skamma hríð einu sinni á ári. Þetta eru flugeldar. Mér finnst ljómandi að einhverjir skuli standa undir þessum skemmtilegu og skrautlegu flugeldasýningum árlega. Ég nýt ljósadýrðarinnar fram í fingurgóma og þykir gott að þurfa ekki að standa undir þessu öllu saman, hvorki fjárhagslega né að öðru leyti.
Húsbóndanum á heimilinu finnst dálítið gaman að skjóta upp flugeldum og vill gjarnan kveikja á blysi í tilefni áramótanna, en er afskaplega hógvær og hófstilltur í flugeldakaupunum. Hann renndi við í flugeldasöluskúr á gamlársdag þegar við skutumst í verslun og styrkti hjálparsveit með því að fjárfesta í fjölskyldupakka nr. 2, sem bar heitið Tralli, kostaði 3.000 krónur og samanstóð aðallega af stjörnuljósum, blysum, knallettum og nokkrum flugeldum, mest af kínverskum uppruna. Ég beið í bílnum með vandlætingarsvip vegna þessa bruðls og óhófs.
Að loknu skaupinu, sem horft var á fyrir algera skyldurækni og vanafestu, héldum við hjónin og gestkomandi út fyrir húsið til að skemmta okkur og öðrum með Tralla-pakkanum. Það má segja sem svo að við höfum verið léttvopnuð í áramótaveislunni þar sem Tralli bliknaði gersamlega og leit út eins og barnaleikfang við hliðina á skotfærabirgðum þungvopnaðra nágranna, sem virtust ekki hafa verslað við lókal flugbjörgunar- og hjálparsveitir, heldur var því líkast sem þeir hefðu pantað kjarnaodda, sprengjuvörpur og gagnvirkar eldflaugar beint frá birgðastöðvum kjarnorkuveldanna í magni sem nægði í nokkrar heimsstyrjaldir, enda var ljósadýrðin, hávaðinn og atgangurinn eftir því. Aftur á móti fóru. Tralla-raketturnar um 20 metra upp á við, sprungu með lágværu hvissi og sendu frá sér nokkrar mislitar stjörnur. Óhagstæður samanburður svo ekki sé meira sagt.
Þrátt fyrir þetta fannst mér ein Tralla-rakettan langsætust og hún verður mér minnisstæðust, þar sem hún skaust hljóðlega og feimnislega upp á við innan um drynjandi snúningsrakettur og blístrandi þeytiblys í öllum litum og setteringum og sendi frá sér gullin smástirni, sem sindraði fagurlega á eitt augnablik og hurfu síðan.
Það tók ekki langan tíma að klára megnið af Tralla-birgðunum. Við fórum aftur inn og nutum hinnar stórfenglegu flugeldasýningar, sem samborgararnir buðu okkur upp á að venju.
Gleðilegt ár!
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:48 e.h.




Powered by Blogger