Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, desember 23, 2005 :::
 
Hæ,
Þá er Þorláksmessa runnin upp enn einu sinni og megnið af þjóðinni á eftir að gera fullt af hlutum fyrir jólin. Litlir skór blasa við í öllum gluggum, tómir að kvöldi, en þegar morgnar hefur jólasveinninn eða sjálfviljugir staðgenglar hans laumað glaðningi í litla skó. Mér rann til rifja þegar tveir þriggja ára englar sögðu mér að ekkert hefði verið sett í skóinn hjá þeim einn morgun í desember vegna óhlýðni. Augnabliki síðar mundi ég mín börn, sem í æsku voru að hugleiða möguleika á að setja skóna sína út í glugga, en fengu þá afgreiðslu að ekkert yrði sett í skóinn á þessu heimili. Þetta væri ekki íslenskur jólasiður. Dætur mínar gáfu hvor annarri í skóinn til að gleðja sig í desember, þar sem ekkert var að hafa hjá foreldrunum, sem voru mannvonskan og harkan uppmáluð og löngu hætt að trúa á jólasveina, bæði íslenska og erlenda.
Allt árið geng ég um og sé eitthvað eða man eftir einhverju sem mig aldeilis bráðvantar eða langar óumræðilega í og í hvert skipti hugsa ég: “Þetta gæti nú enhver gefið mér í jólagjöf.” Þegar desember hefst berst talið óhjákvæmilega að jólagjöfum og ég er spurð hvað mig langi í eða hvað mig vanti í jólagjöf, þá man ég aldrei eftir neinu af öllu því dóti, sem mig hefur vantað og langað í allt árið og haldið að ekki væri hægt að vera án um jólin eða í annan tíma.
Ég verð að játa fyrir lesendum mínum að ég er gersamlega forfallin í sudoku. Ég rakst á eina af fyrstu sudoku -talnagátunum í Blaðinu í haust og datt í hug að ráða hana, þrátt fyrir að talnagátur hafi aldrei höfðað til mín. Aftur á móti hef ég verið krossgátu-manneskja og elska krossgátuna í sunnudagstímariti Moggans. En mér til mikillar furðu féll ég kolflöt fyrir sudoku og nú klippi ég allar slíkar gátur út úr blöðunum og á að auki sudoku-bækur, svo ekki vantar mig sudoku í jólagjöf. Ég er hætt að lesa á kvöldin þegar ég er komin upp í rúm, heldur gríp ég í nokkrar gátur undir svefninn og það af þyngri endanum. Léttustu gáturnar, sem ég var svo lengi að glíma við í byrjun, eru orðnar handavinna fyrir mig.
Kæru lesendur, með þessum samtíningi sem verður síðasti pistillinn fyrir jól, sendi ég ykkur innilegar óskir um gleðiríka jólahátíð og birtu og fögnuð á nýju ári. Þakka fyrir athugasemdir og hól.
Með jólakveðju,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:45 e.h.




Powered by Blogger