Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, nóvember 14, 2003 :::
 
Hæ,
Ég las í Fréttablaðinu nýlega viðtal við atvinnurekanda í Kópavogi, sem sagði frá því að hann hefði lagt af um 30 kg á nokkrum mánuðum með lítilli fyrirhöfn. Mig minnir að hann hafi verið 130 kg ef ekki meira. Þetta var mikið gleðiefni hjá honum og fjölskyldu hans. Hann hafði að vísu þurft að endurnýja allar fatabirgðir sínar, en ekki kom fram í viðtalinu að það væri neitt vandamál. Ég þekki konu, sem hefur lagt heilmikið af á nokkrum mánuðum og nú er svo komið að öll fötin hennar eru tveim númerum of stór. Þessi megrun hennar kostar hana sem sagt veruleg fjárútlát og hún er í nokkrum vanda stödd. Endurnýjum allra fatabirgða var ekki á fjárhagsáætlun hjá henni.
Nú eru eflaust einhverjir forvitnir og vilja fá að vita hvernig atvinnurekandinn í Kópavogi fór að því að missa öll þessi kíló. Jú, hann er með nokkrar stúlkur í vinnu, sem öllum tekst að halda sér tágrönnum og þær gáfu honum gott ráð. Þær sögðu honum að þær borðuðu aldrei eftir kl. 17:00 á daginn. Hann tók upp þeirra aðferð með þessum framúrskarandi árangri. Að vísu var nokkuð að honum sorfið fyrsta mánuðinn. Atvinnurekandinn grét sig glorhungraður í svefn og gnísti tönnum í koddann á hverju kvöldi fyrstu vikurnar, en núna er hann fullkomlega búinn að venja sig á nýja siði. Konan hans gefur honum kvöldmat kl. 17:00 dag hvern, hann tekst á við kvöldið fullur vellíðunar, sáttur og sæll og setur ekki upp í sig matarkorn fyrr en upp rennur nýr dagur.
Það sem mér finnst svo skemmtilegt við þessa frásögn er að fyrirtækið, sem hann rekur, kemur mér eftir þetta fyrir sjónir sem ákaflega hugglegt smáfyrirtæki, þar sem eigandi og starfsfólk starfa saman í sátt og samlyndi og allir taka ríkan þátt í vandamálum félaga sinna. Eins og vera ber á vinnustað virðist samstarfsfólkið skiptast á reynslusögum, húsráðum og uppskriftum, gefa hvort öðru góð ráð í þrengingum og velgengni, sýna trúnað og einlæga samúð í sorg og samfagna í gleði. Enda skein út úr viðtalinu það stelpurnar í vinnunni voru yfir sig hamingjusamar með árangur vinnuveitanda síns. Hann átti það vissulega skilið, enda búinn að lenda í miklum þrengingum með fyrirtækið sitt. Ekki það að þar gengi reksturinn illa og stæði ekki undir sér, heldur varð fyrirtækið fyrir ofsóknum ráðamanna í Reykjavík. Ingibjörg Sólrún hrakti fyrirtækið út fyrir borgarmörkin á sínum tíma. Hún og hennar pótintátar ömuðust við blómlegum atvinnurekstri þessa athafnamanns, sem greiddi allar sínar skyldur og skatta til samfélagsins.
Stelpurnar á þessum litla og huggulega vinnustað starfa aðeins tímabundið hjá vinnuveitanda sínum, svo þar eru mannabreytingar tíðar. Þær stefna nefnilega allar hærra. Allar segja þær aðspurðar að þær séu að safna sér peningum til að mennta sig – annað hvort ætla þær að læra lögfræði, læknisfræði eða viðskiptafræði. Engin önnur fög virðast koma til greina. Það gæti verið sniðugt hjá einhverri þeirra að læra matvælafræði eða næringarfræði til að geta gefið góð ráð sem duga í baráttunni við offituna. Þessar metnaðarfullu stúlkur koma frá öðrum löndum, jafnvel fjarlægum löndum til að leggja til að vinna á litla sæta staðnum í Kópavogi, þar sem eigandi og starfsfólk er sem ein samheldin og ástrík fjölskylda. Ekki veit ég hver kjör stúlknanna eru, en gæti trúað að þær væru á byrjunartaxta VR. Eitt er víst að viðskiptavinir þeirra eru þakklátir og ánægðir að viðskiptum loknum og fátt gefur meiri gleði en fullnægður viðskiptavinur.
Heppnar - stelpurnar á Maxims í Kópavogi.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:34 e.h.


 
Hæ,
Aftur tónlist í gærkvöldi. Fór á tónleika í Seltjarnarneskirkju, þar sem Vox Academica, Rússíbanar, Diddú og Sigrún Eðvaldsdóttir komu fram. Þar var m.a.flutt verkið Hjörturinn eftir Hróðmar Sigurbjörnsson, tileinkað Einari. Ákaflega fallegt verk, heillandi kaflar, vel flutt. Verkið Hjörturinn er tónskáldinu svo sannarlega til sóma. Ég hreifst sérstaklega af lítillæti Hróðmars þegar hann stóð upp að loknum flutningi verksins, stilltur og yfirvegaður með örlítið bros á vör, þakkaði flytjendum, hneigði sig kurteislega fyrir áhorfendum og settist aftur. Margfalt áhrifaríkara en þau prívat fagnaðarlæti, sem sjást alltof oft hjá ýmsu listafólki. Framkoma Hróðmars var framkoma hins sanna, lítilláta listamanns.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:19 e.h.


fimmtudagur, nóvember 13, 2003 :::
 
Hæ,
Gærkvöldið var listaveisla. Hver snillingurinn af öðrum tróð upp í Iðnó þar sem minning Einars var heiðruð. Engin orð geta lýst þeim fagra tónaflaumi og gamansögum tengdum Einari. Fullt hús, fólk agndofa af hrifningu, rökkur í salnum, kertaljós á borðum. Ég var um tíma hrædd um að gæsahúðin væri orðin föst á mér. Dans í lokin. Endalaus gleði. Ógleymanlegt, óviðjafnanlegt. Hugsa sér að geta glaðst svo mjög við minningu, sem alltaf kallar fram tárin og kreistir hjartað.
Gærkvöldið var eins og fertugsafmælið hans Einars árið 1996, þegar listamenn, skáld og venjulegt fólk lét móðan mása við ótal kertaljós og fluttu Einari ljóð og drápur í söng og töluðu máli. Sveinn Rúnar veislustjóri. Margir sem tróðu þá upp komu fram í gærkvöldi. Dans að loknum skemmtiatriðum við undirleik Guðna, Arnar, Einars og fleiri snillinga. Eintóm gleði og kátína. Að veislunni lokinni gengum við út í vetrarmyrkrið í þeirri vissu, að lífið myndi aldrei nokkurn tíma gera okkur skráveifu. Eftirminnilegt fertugsafmæli, síðasta merkisafmæli Einars bróður.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:31 e.h.




Powered by Blogger