Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, október 31, 2007 :::
 
Hæ,
Á forsíðu dagblaðsins "Tuttugu og fjórar stundir" í dag segir, að smygl á salami-pylsum verði á næstu árum úr sögunni, þar sem þeir sem komi hingað til lands frá landi innan Evrópska efnahagssvæðisins, muni eftir átján mánuði eða svo geta flutt með sér þrjú kíló af kjöti, kjötvörum, mjólk og eggjum og afurðum, sem unnar eru úr þeim, án þess að tollverðir reki nefið ofan í pokann hjá manni og rífi af manni dönsku salami-pylsuna og noti hana ofan á eigið brauð.
Ég gleymi því aldrei þegar ég kom heim úr ferðalagi fyrir mörgum árum og hafði fjárfest í tveim pökkum af freistandi salami í fríhöfninni á Kastrupflugvelli, sem ég stakk í danskan fríhafnarpoka með rauðum hjörtum. Er ég gekk í gegnum tollinn í heimalandi mínu var ég full tilhlökkunar yfir að geta gætt mér og fjölskyldinni á nýju og gómsætu ofanáleggi næstu morgna, ef þetta myndi þá endast nema einn morgunverð. Þar sem ég í sakleysi mínu hugleiddi hversu lengi lostætið myndi endast, þreif tollvörður af mér pokann með I love Copenhagen, skoðaði í hann, reif pylsuna upp úr honum og tilkynnti mér að ég væri með þessu framferði komin í tölu smyglara.
Ég varð alveg bálvond yfir þessari meinsemi íslenskra tollyfirvalda að geta ekki unnt síblönku fólki þess að kaupa nokkrar sneiðar af gómsætu áleggi til að gleðja sig og sína og enn sé ég ofsjónum yfir salami-pylsunni sem fór í kjaft tollvarðanna fyrir einhverjum áratugum.
En það er sagt að fólk skuli læra af reynslunni og það gerði ég. Líklega hefur lærdómurinn af þessu verið sá að eigi skyldi smygla forboðnum varningi til landsins, en ég dró allt annan lærdóm af þessari bitru reynslu.
Minn lærdómur fólst í því að láta tollara ekki komast aftur í dönsku pylsurnar mínar. Næst þegar ég átti leið um fríhöfnina á Kastrup keypti ég mér góðan skerf af salami, sem var settur í pokann með rauðu hjörtunum. Þegar komið var í íslensku fríhöfnina tók ég salami-pylsuna upp úr hinum auðþekkta, danska fríhafnarpoka og setti neðst í íslenska fríhafnarpokann, undir ársbrigðir af M&N pillum. Þegar ég gekk fram hjá tollurunum veifaði ég rauðu hjörtunum kæruleysislega.. Það var eins og við manninn mælt; þar á bæ hófst mikið urr og gelt, pokinn þrifinn hvatskeytlega úr höndum mér og gramsað í dönskum ostum, sem ég hafði fulla heimild til að flytja inn. Engin salami handa tollurunum ofan á nestið þann daginn. Þeir litu ekki við íslenska fríhafnarpokanum, þar sem pylsunni hafði verið komið fyrir. Síðan þá hef ég margsinnis falið danska salami-pylsu fyrir tollurunum, í íslenska fríhafnarpokanum, handtöskunni og jafnvel í vasanum ef ekki vildi betur til og síðast þegar ég kom frá útlöndum var ég með fjóra pakka af niðurskorinni salami pylsu í farteskinu auk einnar salami-pylsu í fullri lengd.
Guð, hvað smyglvarningurinn bragðaðist vel og hvergi örlar á samviskubiti hjá mér. Þvert á móti finnst mér ég bara rosalega sniðug að standa mig svona vel í smyglinu og leika á tollarana með svo einföldu bragði.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:19 e.h.




Powered by Blogger