Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, september 09, 2005 :::
 
Hæ,
Ég er búin að skipta um vinnu. Í morgun hringdi ég í einn banka hér í borg og spurði hvort vantaði ekki reynslulausan einstakling í stjórnunarstöðu hjá bankanum, einstakling, sem hefði ekki menntað sig til starfa á þeirra sviði og aldrei unnið innan slíkrar stofnunar og varla í nágrenni við slíka. Jú, þeir héldu það nú og réðu mig á stundinni í gegnum simann og báðu mig að mæta sem fyrst. Þá spurði ég hvort væri nokkuð því til fyrirstöðu að ég bloggaði i vinnunni. Þetta væri eiginlega mín eina krafa til nýrra vinnuveitenda. Nei, síður en svo, það væri mikill kostur og ef ég vildi skrifa metsölubækur í vinnutímanum væri það guðvelkomið. Þarna væru fyrir starfsmenn, sem sætu við skriftir af ýmsu tagi og von á alvörurithöfundi í vinnu á næstunni, svo að ég yrði í góðum félagsskap andans manna.
Þegar ég var búin að þakka fyrir og var að kveðja, mundi ég eftir að ég hafði gleymt að spyrja um nokkuð mikilvægt atriði, sem eru launin. Ekki að launin skipti mig miklu máli, en ég nýt þess að borga skatta, virðisaukaskatt, bifreiðagjöld, tolla og ýmsar álögur sem renna í vasa ríkisins, þannig að mér finnst gott að vera með sæmileg laun til að geta látið minn skerf renna í hinn sameiginlega sjóð allra landsmanna.
Svarið sem ég fékk var að ég fengi 570.000 krónum hærri laun en ég væri með nú. Svo heppilega vildi til að launin hjá þeim hefðu einmitt hækkað fyrir hálfum mánuði.
Svona getur fólk dottið í lukkupottinn. Nú má búast við að bloggið mitt lengist verulega og fari að verða all fyrirferðarmikið. Ég geri ráð fyrir að blogga samfleytt allan vinnudaginn, nema rétt á milli þess sem ég naga blýanta eða skrepp í morgunverð, tíukaffi, hádegismat og síðdegiskaffi. Svo getur auðvitað komið fyrir að þurfi að skreppa í kvöldverð á fína veitingastaði með viðskiptavinum og velunnurum bankans, en það þarf ekki að greiða úr eigin vasa og það er auðvitað utan bloggtíma...ég meina vinnutíma.
Góðir lesendur, búið ykkur undir endalausa bloggræpu af minni hálfu næstu árin, eða þar til ég fer á eftirlaun.
Bankakveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 8:33 e.h.


fimmtudagur, september 08, 2005 :::
 
Hæ,
Mr. DO tilkynnti í gær með fjaðraþyt og söng að hann væri hættur störfum í stjórnmálum og lét fylgja smáfyrirlestur um eigið ágæti og hversu mörgum og viðamiklum stöðum hann hefði sinnt gegnum tíðina til heilla fyrir land og lýð. Svo sagðist hann fá betra tækifæri og meiri tíma til að sinna ritstörfum en áður. Svo kom allt í einu í ljós þar á eftir, að hann er búinn að ráða sig í vinnu hjá innlendri stofnun sem maður hélt að væri svona meiri háttar stofnum, þar sem þyrfti að brjóta heilann mikið og hugsa af alefli. A.m.k. þarf ég alltaf að hafa mig alla við til að skilja það sem kemur þaðan, þótt einhvern tíma hafi verið sagt um þá stofnun að þar gerðu menn lítið annað en að naga blýanta. Einum starfsmanni þar var vippað út þegar í stað til að rýma sætið fyrir Mr. DO þótt sá væri ekki kominn á aldur. En svoleiðis smáatriði virtust ekki vefjast fyrir neinum og síst starfsmanninum sjálfum, sem kvaðst vera hinn ánægðasti svo þetta virðist allt saman í himnalagi.
Það er greinlegt að Mr. DO telur að nýja starfið sé frekar létt og löðurmannlegt og hægt að vinna það í hjáverkum vegna þess að hann nefndi það síðast í upptalningunni. Hann telur greinilega að það verði svo lítið að gera á nýja staðnum að þar verði hægt að stunda ritstörf í gríð og erg, að hann geti þar nagað blýantinn sinn í ró og næði, meðan hann leggur drög að nýjum og ómetanlegum bókmenntaverkum, t.d.: Nokkrir góðir dagar án Ingibjargar og Össurar.
Ef mig misminnir ekki þá kom Mr. DO á eftirlaunakerfi fyrir stjórnmálamenn, sem höfðu fallið út af þingi eða hætt í stjórnmálum einhverra hluta vegna, svo að þeir þyrftu ekki að lifa á ellistyrk og eftirlaunum almennings einum saman og gætu lifað sómasamlegu lífi. Þar með sýndi hann hvaða álit hann hefur á almannatryggingakerfi þess lands, sem hann hefur stjórnað í rúman áratug.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:07 e.h.




Powered by Blogger