Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, janúar 23, 2009 :::
 
Hæ,
Það rifjaðist upp fyrir mér gamall brandari frá Sovét-tímanum, sem mikið var hlegið að þar í landi. Ég gat ekki stillt mig um að staðfæra hann og læt hann flakka, þótt hann sé e.t.v. dálítið ósmekklegur.

Kennslukona í neðri bekkjum grunnskóla var að kenna nemendum hvað hugtökin harmur og sorg fælu í sér, en börnin áttu það öll sammerkt að hafa alist upp í miklu og gengdarlausu góðæri og kunnu engin skil á harmi og sorg.
“Krakkar, ég ætla að taka dæmi um harm eða sorg. Hugsum okkur að geit fari með kiðlingana sína yfir hrörlega brú, sem liggur yfir afar djúpt gljúfur. Þegar þau eru komin miðja leið brestur brúin allt í einu og þau hrapa öll niður í gljúfrið og... Nei, krakkar, þetta er nú alls ekki ekki heppilegt dæmi hjá mér af því að þarna er ekki um harm eða sorg að ræða, þetta er bara skaði eða ólán. Ég kem með betra dæmi. Við skulum hugsa okkur að ríkisstjórnin, alþingismennirnir, bankastjóri og bankastjórn Seðlabankans og forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins fari saman í flugvél sem hrapar á leiðinni og að allir farist - þá væri um þungan harm og djúpa sorg að ræða.
Ég vona að allir hafi tekið vel eftir og gert sér góða grein fyrir þessu.
Gutti, hvað er þungur harmur? Taktu dæmi.”
Gutti var ekki seinn á sér að koma með svarið: “Jú, ef ríkisstjórnin, allir alþingismennirnir, bankastjóri og bankastjórn Seðlabankans og forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins færu saman í flugvél og vélin hrapaði og allir færust þá væri það þungur harmur og djúp sorg. En það væri aftur á móti ekki neinn skaði eða ólán. Það er skaði eða ólán þegar geit fer yfir djúpt gljúfur..."

Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:25 e.h.


miðvikudagur, janúar 21, 2009 :::
 
Hæ,
Þá eru hlutirnir að komast á suðupunkt í þjóðfélaginu. Þegar kjósendur fjölmenntu á Austurvöll um hádegi í gær og börðu potta og pönnur til að leggja áherslu á þá kröfu sína að ríkisstjórnin færi frá var fjölmennt lögreglulið mætt á staðinn til að verja alþingismennina fyrir kjósendunum, sem gáfu þeim umboð í síðustu alþingiskosningum til að fara með völdin. Alþingismönnum var ráðlagt að fara ekki út í glugga til að æsa ekki trylltan skrílinn meir en komið var. Eins var talið ráðlegt að þeir færu ekki út úr þinghúsinu til að þeir yrðu ekki fyrir árásum af hálfu kjósendanna. Að vísu sagði í kvöldfréttum að búið væri að koma Geir Hugabe og Þorgerði varaformanni út úr þinghúsinu, en ekki skýrt frá hvaða undankomuleið hefði verið notuð. Þeim hefur kannske verið pakkað niður í körfur undan óhreinu taui, sem hefði verið vel viðeigandi. BjBj gat ekki stillt sig um að gægjast út um glugga á efri hæð og það gæti hafa orðið til þess að æsa múginn svo upp að hann hélt kyrru fyrir fram á nótt, kynti enn betur undir eldinum með því að rífa norska jólatréð upp úr frosinni fósturjörðinni og varpa því í heilu lagi á bálið, barði bumbur og mótmælti því að ríkisstjórnin skyldi sitja sem fastast. Þegar flest var mátti segja að innsetningarathöfnin í Washington væri afar fámenn í samanburði við mannfjöldann á Austurvelli – miðað við hina margfrægu höfðatölu.
Ríkisstjórnin og alþingismenn, sem voru að koma til vinnu eftir huggulegt jólafrí í svo sem rúman mánuð, höfðu ætlað sér að ræða ýmis þjóðþrifamál, eins og sölu áfengis í matvöruverslunum, andstöðu við eldflaugavarnarkerfi í Austur-Evrópu, prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða og skipafriðunarsjóð, svo nefnd sé nokkur þeirra brýnu málefna sem fyrir lágu. Þessi dagskrá var alveg upplögð til að ganga gersamlega fram af hinum þolinmóðu kjósendum allra flokka og jafnvel nokkrum alþingismönnun, því ekki náðist samstaða innan dyra og var ýmsum þingmönnum heitt í hamsi. Ég minni á í þessu sambandi að á þeirri sömu stundu voru 12.134 á atvinnuleysisskrá og Sýslumaðurinn á Selfossi búinn að fyrirskipa að fólk skyldi fært í lögreglufylgd til embættisins, svo hægt væri að gera fjárnám hjá því. Að vísu sparkaði BjBj í rassgatið á sýsla þegar málið varð hávært í fjölmiðlum til að missa ekki sin tryggu atkvæði á Suðurlandi.
Enginn alþingismaður vogaði sér lengi vel út fyrir hússins dyr heldur héldu þeir sig innan dyra og földu sig fyrir kjósendum, fólkinu, sem kaus þá – fólkinu, sem greiðir þeim launin og stendur undir kjörum þeirra - kjörum sem eru betri en kjör almennings. Það voru þingmenn vinstri grænna sem fóru loks út til kjósenda og töluðu við þá þegar liðið var á kvöld.
Af hverju var ekki haldinn stuttur þingfundur þar sem öllum málum var frestað vegna ástandsins í þjóðfélaginu? Síðan hefði forsætisráðherra átt að koma í pontu og biðja þingmenn að ganga út á Austurvöll, fara á meðal fólksins og tala við það eins og viti borið fólk og hlusta á það. Það hefði sjálfsagt verið skvett úr nokkrum jógúrt-dollum yfir liðið og það fengið yfir sig eggjabakka og klósettpappír – að vísu ónotaðan. En hvað með það – er þetta fólk ekki með sturtu og á það ekki þvottavél? Það er ljóst að ráðherrar og flestir alþingismenn eru skíthræddir við kjósendur sína og í stað þess að fara út til þeirra híma þeir í öruggu skjóli innan dyra eða hverfa eftir krókaleiðum. Ekki upplitsdirfskan þar á ferð!
Ríkisstjórnin var kölluð valdstjórnin hvað eftir annað í morgunfréttum RUV – líklega bara rétt til að gefa kjósendum í skyn hvers má vænta - og í kjölfarið var viðtal við BjBj, sem virtist kominn heim og sloppinn úr prísundinni, og þar kom fram að hann vill endilega stofna þjóðvarðlið til að geta sigað því á svona leiðindapakk eins og mótmælendur. Það skein í gegnum viðtalið að hann langar verulega til að stækka gasbrúsana og styrkja piparúðann hressilega.
Ég er ekki fylgismaður ofbeldis og skrílsláta. Mér fannst framkoma og framganga ýmissa mótmælenda ganga of langt og er þess fullviss að yfirgnæfandi meiri hluti mótmælenda hefur mótmælt friðsamlega og af heilum hug. En mér fannst framkoma og framganga ríkisstjórnar og flestra alþingismanna í gær lýsa fullkomnu hugleysi, gunguhætti og algerum aumingjaskap.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:23 e.h.




Powered by Blogger