Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, september 26, 2003 :::
 
Þórir Sigurðsson.
Í dag er Þórir Sigurðsson til moldar borinn. Undanfarna daga hafa minningarnar endalaust streymt fram í hugann. Ég man allar skemmtilegu stundirnar á Vesturbrún 6, brandarana og skrýtlurnar, húsbóndann skellihlæjandi, þar til tárin renna niður kinnarnar. Allt í einu býður hann öllum í sjö-bíó og pantar leigubíl af því við erum að verða of sein. Kvöldmaturinn borðaður þegar við komum til baka með Vogahraðferðinni. Þetta gerði enginn nema Þórir.
Ég sé hann standa í útidyrunum á Vesturbrún. Herborg kemur til hans og hann leggur handlegginn yfir herðarnar á henni. Þau veifa brosandi að skilnaði.
Kæri Þórir! Þakka þér fyrir allt.
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:05 e.h.


 
Hæ,
Guð, hvað lífið getur verið flókið! Það kom hópur Kínverja í heimsókn hingað í vinnuna í vikunni. Okkur var tilkynnt að þeir væru 22 talsins daginn áður en þeir komu. Rétt áður en þeir birtust var hringt og látið vita um nýja tölu. Þeir væru orðnir 27. Það er ekki ofsögum sagt af fólksfjölguninni í Kína. Jay Leno sagði frá því í þætti sínum um daginn að Kínverjar hefðu blandað saman mannsfóstri og kanínufóstri. Þeim hefur líklega ekki fundist viðkoman nógu ör og eru að bæta úr því með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
En sem sagt – Kínverjarnir birtust með sendiherra Íslands í Kína í fararbroddi. Að vísu kom hann síðastur. Kínverjarnir voru allir komnir inn í gestastofuna og byrjað að halda tölu yfir þeim þegar hann kom móður og másandi. Hann var í flottum skóm, en hefði mátt pressa buxurnar sínar betur.
Ég var ábyrg fyrir móttöku gestanna ásamt öðrum markaðsstjóranum hjá okkur. Hann stóð sig eins og hetja, enda þaulvanur að taka á móti fólki, en það er ég líka. Hann er nokkuð hávaxinn, svo að ég horfi alltaf beint í brjóstvasann á honum, ef ég horfi ekki upp á við þegar við tölum saman. Þess vegna var verulega góð tilbreyting að hitta alla Kínverjana og geta horft nokkuð beint í augun á þeim eða í versta falli á flibbahnappinn. Þurfa ekki alltaf að halla höfðinu langt aftur á bak til að sjá framan í fólk, eða halla hausnum langt aftur á hnakka, eins og einhver stórvitringur sagði. Útlendingur, sem kenndi mér jóga sagði í hverjum tíma: “Nú skal vi bretta höfuðkúpan aftur í hnakka.” Þetta reyndist mér svo erfitt að ég hætti í tímum hjá honum.
Jæja, Kínverjarnir hópuðust inn og ég var á nálum að þeim færi að fjölga fyrirvaralaust þennan klukkutíma sem þeir voru hjá okkur og þyrfti jafnvel að panta eina til tvær rútur í viðbót til að koma þeim í burtu.
Þegar við vorum búin að heilsa þeim niðri í anddyri og bukka okkur og beygja, samt ekki í japönskum níutíu gráðu stíl, skeiðaði markaðsstjórinn upp stigann. Ég var ekki viss hvað ég ætti að gera, vera honum samferða eða reka lestina inn í gestastofuna. Ákvað á sekúndubroti að engin hornreka vildi ég vera og hentist af stað með markaðsstjóranum á undan öllum gestunum. Meðan ég liðaðist upp stigann datt mér í hug að ég hefði e.t.v. framið hrikalegt axarskaft með því að ganga á undan þeim. Kannske væri helber dónaskapur í Kína að kona gengi upp stiga á undan gestum. Að kona sem væri gestgjafi mætti ekki ganga á undan gestunum. Huggaði mig með því að gestirnir myndu ekki vita hvert þeir ættu að fara ef hún gerði það ekki, svo það hlaut að vera í lagi. Þeir gætu farið til hægri að fara til vinstri og lent í þvottakompunni í stað gestastofunnar. Svo væri ekki búið að taka til í þvottakompunni og þá sæju Kínverjarnir að ekki væri alls staðar eins fínt og í gestastofunni – að vísu er voða fínt í þvottakompunni hjá okkur og hægt að taka á móti tignum gestum þar. Ég ætla að leggja það til næst þegar vantar herbergi til að taka á móti gestum.
Ég hélt áfram að hugsa. Kannske mætti kona í síðbuxum fara á undan upp stiga, en ekki ef hún væri í pilsi. Var svo heppin að vera í síðbuxum. Ef til vill slyppi þetta allt saman. Svo fór ég að horfa á Kínverjana, bæði konur og karla, sem komu upp stigann á eftir okkur í einni bendu. Ég fann enga kurteisis-lógikk í þeirra framkonu. Síðastar í hópum voru tvær íslenskar konur frá stjórnarráðinu, niðursokknar í samtal um eigin málefni. Það fór ekki fram hjá mér. Ég varpaði frá mér öllum hugsunum um að ég hefði gert mistök og verið dónaleg. Hafði komið fram eftir bestu getu, verið í fjórðu fínustu dragtinni minni, brosað á báða bóga og lagt mig í líma við að gera heimsóknina sem eftirminnilegasta. Gat ekki hafa móðgað neinn viljandi. Hafði ekki verið í neinu með gulum lit og ekki sest í hugleiðslustellingar. Heppilegt að einkennislitir fyrirtækisins eru blár, rauður og silfurlitaður/stálgrár, (Ath. um er að ræða ryðfrítt stál). Enda geta gestirnir þá bara látið vita fyrir fram ef þeir eru svo viðkvæmir að ekki megi særa þá á nokkurn hátt. Eru kínverskir gestir hér á landi ekki vanir því?
Gestirnir okkar fengu veitingar, ég hafði pantað marga lítra af te handa þeim, en kaffi til vonar og vara. Þeir drukku bara kaffi og úðuðu í sig Bing Daó konfekti, sem útleggst íslenskt konfekt eða Nóa konfekt. Skoðuðu fyrirtækið, áttu ekki orð til að lýsa hversu stórkostlegt það væri. Kvöddu með virktum og fóru út jafnmargir og þeir voru í upphafi.
Guð, hvað lífið getur verið einfalt!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:15 e.h.




Powered by Blogger