Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, febrúar 14, 2005 :::
 
Hæ,
Einhver töfralæknir á Akureyri er farinn að lengja fólk. Ég frétti af þessum kraftaverkum af algerri tilviljun fyrir nokkrum dögum, þegar ég heyrði utan að mér að umfjöllun um þetta efni væri á síðum DV þess dags. Þetta er samt ekki upprunnið á Akureyri. Rússar hafa lengt fólk í marga áratugi, stunduðu þessar lækingar í Kurgan í Síberíu og nú hefur aðferðin borist til Akureyrar. Að vísu er einhver smámunur á aðferðum, sem beitt er og akureyrski lækninrinn vildi meina að sín aðferð væri öllu betri og enginn hrossalækningabragur á henni. Ég er samt ekki svo viss um að það sé rétt hjá honum. Er ekki svolítið hrossalegt að saga sundur lappirnar á manni og festa þá aftur saman með því að skeyta málmstykki á milli?
Þegar ég heyrði um að hægt væri að fara til Akureyrar til að láta bæta nokkrum sentimetrum í leggi og læri ákvað ég samstundis að fara norður og koma öllu hávaxnari til baka, s.s. verða í heildina eins og 175 sm og geta þar með horft beint í augu viðmælenda minna, nema auðvitað þeirra sem væru miklu minni en ég. Ég sá mig í anda gnæfa upp úr mannmergð hvar sem er, geta náð í leirtauið úr efstu hillunum án þess að standa upp á stól, þurfa ekki að stytta öll föt sem ég kaupi og margt fleira hagræði sá ég í þessari aðgerð. Ég gat ekki beðið eftir því að komast í DV og fékk það lánað hjá vinnufélaga mínum, sem sér um útbreiðslu blaðsins árla morgun hvern ásamt dóttur sinni.
Ég þurfti ekki nema að lesa hluta greinarinnar til að taka þá ákvörðun að fara ekki norður í lengingu heldur bara í kurteisisheimsóknir, sumarfrí og dýrðlegan fagnað sem hingað til. Þar kom fram að þetta væri ákaflega sársaukafull aðgerð og þar með hætti ég við, svo hrædd er ég við sársauka. Ég er að vísu með háan sársaukastuðul, en er skíthrædd við allt svona krukk. Svo var annað sem kom í veg fyrir þessi áform mín. Ef ég lengist og verð 175 – 180 sm, sem sagt ákaflega hávaxin og glæsileg, hvernig koma þá handleggirnar á mér út í þessari lengd. Verða þeir ekki of stuttir miðað við líkamann? Þarf þá ekki líka að saga þá af mér og skeyta málmi á milli? Mér datt í hug að hægt væri að nota gullstykki með fagurlegu mynstri til að halda saman á mér handleggjunum og þar með væri búið að slá tvær flugur í einu höggi. Há og tíguleg með breið gullarmbönd á hvorum upphandlegg. Ekki amalegt.
En tilhugsunin um sársaukann, sem hlýst af því að saga beinin í mér í sundur er óbærileg og kemur algerlega í veg fyrir að ég láti verða af því að láta drauminn um að verða hávaxnari rætast. Ég held bara áfram að horfa á bindisnæluna á þeim karlmönnum, sem bjóða mér upp í dans – bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
Kveðja,
Bekka.

::: posted by Bergthora at 4:52 e.h.




Powered by Blogger