Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, janúar 23, 2004 :::
 
Hæ,
Hver skyldi hafa verið í því að semja stefnuskrána í menningarmálum fyrir meiri hlutann í Kópavogi? Hver er bestur í að afrita og líma? Er hægt að fá prófessors-gráðu í svoleiðis dútli? Kannske í stjórnmálafræðinni?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:44 e.h.


 
Hæ,
Bara rétt til að láta blogg-hringinn vita. Ég ætla að halda upp á afmælið mitt. Veislan verður 20. mars nk. Að vísu á ég afmæli næsta dag, en það er best að byrja snemma. Gerið svo vel að taka kvöldið frá, ef þið viljið ekki missa af góðri skemmtun.
Allar nauðsynlegar upplýsingar verða birtar síðar.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 4:38 e.h.


þriðjudagur, janúar 20, 2004 :::
 
Hæ,
Óttar bróðir lét sig loksins hafa það að blogga langa færslu meðan hann var í Danmörku og naut öruggrar handleiðslu þeirra hjóna, Þuru og Hannesar, sem kunna öll blogg-trikkin. Óttar sagði m.a. að börn nú á dögum væru miklu óþægari en börn sem ólust upp svona upp úr miðri síðustu öld!
Hann minnti að við, sem þá vorum að vaxa úr grasi, hefum verið “prúð og frjálsleg í fasi” og sýnt fullorðnu fólki tilhlýðilega virðingu. Þetta síðasta er dagsatt – við sýndum fullorðnu fólki tilhlýðilega virðingu og yfirleitt langt umfram það. Það var alveg sama hvað sagt var við mann, aldrei datt mér eða nokkrum af mínum vinkonum í hug að svara einu orði, hvað þá fullum hálsi. Í mesta lagi ulluðum við í laumi þegar algerlega gekk fram af okkur og þá fyrst þegar við vorum komnar langt úr sjónmáli.
Ég er líka sammála því að okkar kynslóð var í það heila tekið prúð og ég man ekki eftir öðru en ég og vinkonur mínar, sem voru eins og ég, gersamlega gallalausar og algerlega óaðfinnanlegar – miðað við börn nú til dags, - höfum verið undurprúðar og afar kurteisar.
En ég er hreint ekki viss um að við höfum verið frjálsleg í fasi, kynslóðin sem ólst upp á um miðbik síðustu aldar. Guð, hvað mér finnst ég gömul, þegar ég tala um miðbik síðustu aldar – mér finnst eins og aðeins séu liðin örfá ár frá því ég var krakki – kurteis krakki norður á Akureyri.
Frjálsleg í fasi – það var ég ekki. Ég bar óttablandna virðingu fyrir kennurunum og hökti um ganga Barnaskóla Íslands, skólalóðina og nærliggjandi götur vegna þess að ég var sífellt að hneigja mig fyrir kennarastaffinu í skóla og utan skóla árið um kring, en sú regla var þá í gildi að nemendur áttu að hneigja sig fyrir skólastjóra og kennurum og þessa reglu braut ég aldrei. Ég hneigði mig meira að segja fyrir Soffíu hjúkrunarkonu, sem kom í kaffi til mömmu á hverjum virkum degi. Samt hélt Soffía einn daginn fyrirlestur um hversu fáránlegar þessar hneigingar væru, þegar hún hafði skotist til mömmu í kaffisopa í frímínútum og sat við eldavélina í hvíta sloppnum með hvítu, síðu skupluna, sem engin hjúkrunarfræðingur myndi láta sjá sig með nú til dags. Ég hélt áfram að hneigja mig. Bælingin var alger.
Þegar ég skrifa þessi orð rennur upp fyrir mér að það var aðeins einn starfsmaður við skólann sem ég hneigði mig ekki fyrir – það var húsvörðurinn! Aldrei datt mér í hug að hneigja mig fyrir honum, enda hefði það tekið á hnjáliðina.
Skyldi hneigingarreglan enn vera í gildi fyrir norðan?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:00 e.h.




Powered by Blogger