Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, nóvember 23, 2004 :::
 
Hæ,
Hann pabbi sálugi sagði nokkrar sögur af þeim heiðurshjónum, Marsibil og Kristmundi, sem stóðu í samfelldum stórræðum og stímabraki. Í einni sögu, sem fjallar um umfangsmikinn og tímafrekan jólaundirbúning á heimili þeirra, segir Marsibil kvöld eitt er hún tínir af sér leppana, að nú séu þeir í Kaupfélaginu búnir að hengja upp stjörnuna og bjölluna og gefur þar með til kynna að jólaundirbúningur sé að hefjast. Kristmundur svarar því til að upp á síðkastið séu þeir farnir að gera þetta í sláturtíðarlok. Marsibil finnst nú bara smekklegt af þeim í Kaupfélaginu að minnast jólahátíðarinnar og frelsarans, en Kristmundur telur að hrifning þeirra í KEA á jólabarninu sé meiri en ást þess á KEA.
Mikið var á sínum tíma hlegið að þessum velheppnaða brandara hjá pabba með Kaupfélagsstjörnuna og bjölluna í sláturtíðarlokin. En viti menn. Nú í ár tók ég slátur á laugardegi nokkru eftir miðja sláturtíð. Sömu helgi hófust jól IKEA.
Þá er Þórólfur vinur minn búin að segja af sér, eftir að hafa margbeðið þjóðina afsökunar og viðurkennt sekt sína. Þegar hann hafði staðið frammi fyrir hljóðnemunum keikur og hreinskilinn, dröttuðust nokkrir þeirra sem ábyrgðina báru út úr híði sínu, sögðu af sér feitum embættum, bara tímabundið, komu í stutt viðtal og skildu ekki alveg hvað var um að vera. Bestur fannst mér Hörður Sigurgestsson, sem kom algerlega af fjöllum (came completely from the mountains), greinilega sendur á vettvang fyrir hóp skíthræddra olíufursta til að lægja öldurnar. Herbragðið tókst hjá þeim, Þórólfur stóð vikum saman í ljónagryfjunni og skítahaugnum upp að höku og þegar hann hafði verið krossfestur, var múgurinn búinn að fá það sem hann vildi og sneri sér að undirbúningi fyrir fæðingarhátíð Jesúbarnsins.
Ég heyrði fjallað um íslenska hestinn af miklum fjálgleik í þætti á RUV nýlega. Þegar umfjölluninni var lokið var spilað lagið “Íslands hrafnistumenn”. Klárir þáttagerðarmenn. Ég hefði spilað: “Ég berst á fáki fráum” eða “Ég sé um hestinn”.
Arafat er látinn. Honum auðnaðist ekki að hvíla í Jerúsalem, eins og hann hafði óskað í lifanda lífi. Hræddir voru Ísraelsleiðtogar við Arafat lifandi, en þó eru þeir enn hræddari við hann dauðan. Ég er ein fárra Íslendinga, sem hef komið í sama sal og Arafat, þótt ég hafi ekki stýft lambsheila úr hnefa með honum eins og Steingrímur Hermannsson. Ég var í nokkurra metra frá honum á friðarþingi í Prag, þar sem hann stóð í ræðustóli með Arabaklútinn um höfuð og mig minnir að hann hafi verið í felulitabúningi með hríðskotabyssu um öxl. Það er samt frekar ólíklegt, þar sem þetta var nú friðarþing. Aftur á móti hímdi Havel, sem síðar varð forseti Tékklands, fyrir utan þinghöllina með mótmælaspjald. Svona geta hlutirnir snúist við.
Ég las viðtal um daginn við einhverja konu, sem er ein af þeim sem aðstoða Völu Matt í Innliti og útliti. Hún sagði frá því að hún hefði í þrjú og hálft ár séð algerlega um heimili Baltasars og Lilju frá a til ö. Hennar orð ekki mín. Hvernig ætli sé að vera með einhverja persónu, sem kemur heim til manns og velur og raðar húsgögnum og skrautmunum eftir sínum smekk á heimilinu? Ætli hún sé á þönum á eftir heimilisfólkinu nótt sem nýtan dag við að laga til eftir það og setja hvern hlut á vissan stað, svo hann falli fullkomlega inn í heildarmyndina? Verður þægilegi sjónvarpsstóllinn fjarlægður af því að hann er úr tísku og fólki gert að sitja á hænupriki meðan það horfir á “Leiðarljós” og “Völu Matt”, vegna þess að það gerir svo mikið fyrir stofuna? Sprettur hún út úr vegg, ef manni yrði á að leggja tannburstann á marmaraborðið í sérsmíðuðu baðherbergisinnréttingunni í stað þess að stinga honum í þar til gert krystalsglas eða fjarlægir fjarstýringuna sem liggur í seilingarfjarlægð á rauðviðarsófaborðina og setur hana ofan í þar til gerða skúffu? Burt með þetta! Hér eru engin stílbrot liðin, takk fyrir! Úr þessari peysu, hún stingur í stúf við kögrið á persneska gólfteppinu! Burt með þig, þú passar ekki við eldhúsinnréttinguna! Má ég þá frekar biðja um lummuganginn heima hjá manni.
Ég verð að klykkja út með því að mér fannst Mr. DO ýkt flottur í viðtalinu hjá Gísla Marteini um daginn þegar hann sagði frá sjúkrasögu sinni. Mér fannst engin ástæða fyrir Gísla Martein að reyna að engjast sundur og saman af hlátri, mér fannst Davíð ekkert fyndinn, heldur bara hreinskilinn og þakklátur.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:39 e.h.




Powered by Blogger