Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, desember 26, 2008 :::
 
Hæ,
Enn eru komin jól hér á Kreppuklakanum og aðalatriði fréttanna er ánægja kaupmanna með kaupgleði landans, sem nú velur bara íslenskt til að styðja sitt, sjálfa sig og sína. Minnir mig á Danskinn, sem reykti bara Prince-sígaréttur, sem voru hið mesta tað að sögn þeirra sem vit höfðu á, en Danirnir voru svo þjóðhollir að þeir svældu Prince-taðið af einskærri þjóðrækni og ættjarðarást og létu sér ekki detta í hug að setja upp í sig útlent tóbak.
Jólagjöfin til landsmanna frá ráðamönnum var niðurskurður, niðurskurður og aftur niðurskurður hvert sem litið er, enda hefur ríki og borg verið á haus í framkvæmdum sem fjármagnaðar hafa verið fyrir erlend lán meðan á góðærinu stóð. Það eina sem hækkar eru álögur á almenning, því nú er góðærið horfið og ríkið á hausnum. Um þetta gæti ég haft mörg orð.
Það var skorið niður í utanríkisþjónustunni, sendiráðum fækkað, en engum sagt upp. Sendiherrarnir komu bara heim og setjast nú í utanríkisráðuneytið á launum, sem við borgum og hvað skyldu þeir hafa fyrir stafni? Það veit enginn, en ég veit að þeir munu ekki liggja á liði sínu við að baknaga utanríkisráðherra. Aftur á móti fann ráðuneytið feitan bita til að kroppa í - kannske til að redda launum sendiherranna, sem nú sitja hér heima við að glefsa í hælana á ráðherranum: Framlög til þróunarhjálpar voru skorin niður og voru ekki há fyrir - voru satt að segja skammarlega lág fyrir land og þjóð. Það var minnkaður matar- og lyfjaskammturinn til litlu grindhoruðu barnanna með útbelgda kviðinn og flugur skríðandi um andlit og kropp. Þvílík niðurlæging og smán fyrir eina þjóð að taka slíkan bagga á sig. Satt að segja er þetta það versta sem ég hef heyrt í fréttum undanfarna mánuði.
Megi andlit þessara barna svífa fyrir hugskotssjónum utanríkisráðherra og forsætisráðherra yfir jólasteikinni á aðfangadagskvöld.
Gleðileg jól, kæru lesendur og bloggvinir.
Með hátíðarkveðju,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:38 f.h.




Powered by Blogger