Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, ágúst 22, 2008 :::
 
Hæ,
Dagbækur Matthíasar. Hvað sýna þær? Þær sýna að það er engum að treysta. Allra síst ritstjórum Morgunblaðsins.
Svo sýna þær líka hið rétta andlit ritstjórans og skáldsins.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:44 f.h.


fimmtudagur, ágúst 21, 2008 :::
 
Hæ,
Þegar ég opnaði GGG (gömlu góðu gufuna) í morgun lauk fréttayfirliti með þessum orðum: Í dag tekur Hanna Birna Kristjánsdótti við embætti borgarstjóra. Svo mörg voru þau orð. Er ég hlýddi á þessa örstuttu frétt um stólaskipti Hönnu Birnu og Ólafs Fr. fannst mér spretta fram úr henni í einni heild samfellt og velheppnað áramótaskaup og Spaugstofan í algleymingi – svo hlálegar og fáránlegar hafa fréttirnar verið.
Í þessum skrifuðum orðum er verið að skipta um borgarstjórn í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn gafst upp á Ólafi Fr. og furðar engan. Mig undrar mest að menn þar á bæ skyldu yfirleitt láta sér detta í hug að ganga í eina sæng með honum, enda var ekki áberandi gleðisvipur á andliti Hönnu Birnu, Gísla Marteins, Jórunnar og Þorbjargar Helgu þegar tilkynnt var um hrosskaupin í janúar. Á þeirri mynd voru aðeins þrír sem brostu út að eyrum: Ólafur Borgartunga, Villi kolla og Kjartan borgarstjórnarsmiður.
Tímabil fráfarandi borgarstjórnar einkenndist af náinni samstöðu, t. d. stóðu allir fulltrúar meiri hlutans lengst af þétt saman í að veita engin viðtöl. Sem einn maður forðuðust þeir fjölmiðla eins og heitan eldinn, gáfu engin svör, engar upplýsingar, veittu engin viðtöl og hurfu á brott út um bakdyr og leynigöng að afloknum fundum. Þá sjaldan að náðist í þá lýstu þeir yfir ánægju og taumlausri lukku með samstarfið, sem þeir sögðu engan skugga bera á að nokkru leyti – alveg sama hvað Ólafur Fr. sagði, gerði eða lýsti yfir. Allt væri traust og öruggt í þeirra ranni, samstarf óaðfinnanlegt, heilindi í fyrirrúm, engin brotalöm og unnið væri markvisst í þágu borgarbúa og þeim til heilla.
Allt í einu “buldi við brestur og brotnaði þekjan” eða réttara sagt undirstaðan. Gísli Marteinn tók þann kostinn að flýja úr landi og losa sig úr viðjum borgarstjórnarsamstarfsins – hann ætlar að nema borgarfræði og skáka þar með flokksfélögum sínum - kannske í þeirri von að hann komist upp fyrir þau á lista í næstu kosningum í krafti menntunar og þekkingar. Bláeygður strákurinn! Eða ofbauð honum bara?
Hanna Birna fékk alveg nóg að bröltinu í Ólafi Fr. og gekk fram fyrir skjöldu til að koma honum frá völdum eftir að hann var búinn að prýða Ráðhúsið með Jakobi Frímann og Gunnari Smára, gefa ýmsar skemmtilegar yfirlýsingar um skipulagsmál og skemmta sér undir drep á öldurhúsum. Þá hófst mikil fundasería og í ljós kom að samstaðan og heilindin í borgarstjórnarmeirihlutanum voru frekar skörðótt, sem minnti helst á bolla í eldhúsi Gísla á Uppsölum. Sjálfstæðismenn héldu áfram uppteknum hætti og hurfu sporlaust af fundum og blaðamenn gátu ekki náð tali af Hönnu Birnu eða Villa kollu þrátt fyrir öflugt umsátur. Villi hringdi að vísu nokkrum sinnum í fjölmiðla til að láta vita af því að hann hefði ekki farið út um bakdyr eða hliðardyr að afloknum fundum og frekari upplýsingar var ekki að hafa hjá honum. Hann sást samt aldrei yfirgefa Ráðhúsið í fundatörninni, þannig að hann hlýtur að hafa hent sér af þaki þess út í Tjörnina til að komast hjá því að tala við fulltrúa fjölmiðla og menn álitið að þarna væri bara kolla að setjast á Tjörnina þegar skvampið barst þeim til eyrna.
Aftur á móti varð Ólafur Fr. mjög málglaður og tungulipur við fjölmiðla og allt í einu þurfti ekki að ganga á eftir honum með grasið í skónum til að fá viðtal, heldur voru þau veitt á báða bóga og þar var ekki verið að spara sendingarnar í garð samstarfsmanna, sem nú eru orðnir fyrrverandi samstarfsmenn og eru skyndilega voðalega vondir og hafa komið aftan að honum. Að hans sögn var það Villi sem keypti húshjallana við Laugaveg á nokkur hundruð milljónir, en Ólafur Fr. vildi fara varlegar í sakirnar, ekki flana að neinu – þetta eru ekki mín vinnubrögð, sagði borgarstjórinn fyrrverandi. Hann heldur sífellt áfram að upplýsa um orð og gerðir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þeir láta hann ekki heldur eiga neitt hjá sér og koma nú fúslega fram í fjölmiðlum með staðlað svar, þegar ummæli Ólafs Fr. um samstarfið og einstök mál eru borin undir þá - sem sagt að um sé að ræða lygi/ósannindi /rangfærslur og síðan skilja þeir ekkert í því að hann skuli láta sér detta í hug að vera að koma með einhver vinnuplögg í fjölmiðla, sem þeir hafa hvorki heyrt né séð, ef þetta er ekki bara tilbúningur úr borgarstjóranum fyrrverandi. Allt snyrtilega afgreitt.
Síðan Óskar Bergsson skreið upp í til Hönnu Birnu hefur verið nokkuð vandræðaleg atburðarás hjá Framsóknarflokknum. Varamaður hans styður ekki nýja meirihlutann og annar varamaður, sem var búinn að segja sig úr flokknum vill komast aftur í flokkinn til að standa vakt við nýju hjónasængina. Svo er þar að auki einn varamaður, sem líka er búinn að segja sig frá borgarstjórnarstarfinu og vill ekki koma aftur, fyrir utan aðalmanninn,sem hætti og ætlar ekki að hætta við að hætta. Óskar er þó ekki í neinum vandræðum og ætlar að reiða sig á fólk utan listans til að skipa í nefndir og ráð enda ábyggilega affarasælast. Líklega standa þó nokkrir flokksmenn með lafandi tungu til að komast að kjötkötlunum. Á lista eða ekki? Hvaða máli skiptir það?
Þegar maður heldur að skemmtunin geti ekki komist á hærra stig og er kominn með látlausan verk í kinnar og kjálkaliði af hlátri, lýsir Ólafur Borgartunga yfir að hann ætli að ganga aftur í Frjálslynda flokkinn og nota hann sem bakland þegar hann býður sig fram til borgarstjórnar og borgarstjóraembættis í næstu kosningum. Þar með hefst nýr sirkus á þeim bæ.
Mér fannst Ólafur Fr. ekki eftirsóknarverður kostur þegar hann lét narra sig í samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn og mér finnst hann í dag alveg nákvæmlega jafn klikkaður og daginn þann er samstarfið hófst. Sáu sjálfstæðismenn það ekki? Eða var þetta blind og botnlaus valdagræðgi?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:54 e.h.


miðvikudagur, ágúst 20, 2008 :::
 
Hæ,
Alger veisla alla daga - Olympíuleikarnir á fullu. Strákarnir okkar eru alltaf í boltanum og standa sig eins og hetjur, algerir víkingar. Nú er bara spurning hvort þeir komast á verðlaunapall. Aldrei að vita. Kannske þeir eigi eftir að hampa verðlaunapeningum - mér er alveg sama í hvaða lit - gylltum, silfruðum eða bronslitum.
Það væri gaman ef hægt væri að segja hið sama um aðra Íslendinga sem fóru til keppni á Olympíuleikunum. Þar er ekki kraftinum og snerpunni fyrir að fara - þeir keppendur hafa yfirleitt dottið út í fyrstu umferð og koma svo í fjölmiðlaviðtöl og afsaka sig með því að þeir hafi átt við meiðsli að stríða. Ein bjartasta von okkar er búin að vera með slitin krossbönd í langan tíma - vildi ekki fara í aðgerð þar sem þá hefði hún misst af leikunum! Stangarstökkvarinn búin að vera svo illa haldin að hún hefur í langan tíma verið með endalausar þrautir og sársauka í skrokknum. Hvað er svona lið að gera á Olympíuleika? Því fer það ekki á Olympíuleika fatlaðra og haltrar þar um?
Sérfræðingur í sundi kom í viðtal í sjónvarpið og ræddi fjálglega um sundfólkið, sem datt út úr keppni hvað um annað þvert - þó það væri um leið að setja glæsileg Íslandsmet - og hafði á reiðum höndum endalausar afsakanir fyrir þess hönd. Sundlaug væri ekki það sama og sundlaug og vatn ekki það sama og vatn. Það væri ekki alls ekki sama hvar maður væri að synda. Það yrði að komast í takt við umhverfið. Svo ræddi hún um einn sundmannanna og sagði hann vera svo gríðarlega mikinn reynslubolta, sem þekkti Olympíuleikana út og inn, vissi allt um þá og kynni þetta allt saman. Það var bara einn galli á frammistöðu hans - hann hafði bara ekki synt nógu hratt! Gaman að svona sérfræðingum!
Júdókappi hélt út aðeins lengur en sundfólkið. Þegar hann féll út tilkynnti hann að nú væri bara að njóta þess að vera í Peking, slappa af, hafa það huggulegt og skemmta sér. Er þetta einhver prívat skemmtun og er sjálfsagt að sé borgað undir svona lið?
Nei, nú er það handboltinn sem blífur!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 9:57 e.h.




Powered by Blogger