Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, nóvember 08, 2004 :::
 
Hæ,
Hvað á manni að finnast um konuna, sem sagði í þættinum hjá Sirrý núna í vikunni, að heilbrigt fólk hryndi unnvörpum niður vegna hjartaáfalla. Er fólk heilbrigt ef það fær allt í einu hjartaáfall, þótt það hafi ekki gert sér grein fyrir að hverju stefnir og heldur áfram að juðast nótt og nýtan dag í fullri vinnu, böðlast í heilsurækt minnst klukkutíma á dag, leggur stund á nám með vinnu nokkrar eftirmiðdaga í viku og á laugardögum, iðkar síðan fjölbreytta tómstundaiðju þá örfáu tíma sem eftir eru sólarhringsins, allt á milli jeppaferða á jökla og kirkjukórssöngs, og lifir meðfram þessu annríki ákaflega innihaldsríku og gefandi fjölskyldulífi? Dæmigert með manninn, sem var eitthvað slappur og dreif sig í kajakferð til að ná úr sér sleninu og aumingjaskapnum, en dó svo bara úr hjartaslagi að henni aflokinni. Íslendingur fram í fingurgóma fram á hinstu stund.
Kona þessi var náttúrulega frekar mædd og súr þarna í þættinum vegna þess hún hafði misst eiginmanninn, þegar hann varð skyndilega fyrir hjartaáfalli. Fleiri kynsystur hennar voru líka sæmilega andaktugar út af þessu öllu saman og þá kom í ljós að þetta voru allt saman ekkjur og það var engin kát ekkja í þeim hópi, þótt langt væri um liðið hjá sumum og flestir þessara eiginmanna komnir yfir miðjan aldur. Flestir sennilega illa tryggðir. Ég skil mjög vel að þær skuli ekki vera kátar, enda nógu leiðinlegt að verða ekkja, bara svona rétt upp úr þurru, þó að maður verði ekki fátæk ekkja í ofanálag.
Aftur á móti voru Hemmi Gunn og Hjálmar dómkirkjuprestur verulega kátir í þættinum, enda ekki nema von, þeir höfðu litið yfir í annan heim, snúið til baka og risið upp frá dauðum með tæknilegri aðstoð. Greinilega mjög fegnir að þeir skyldu ekki hljóta þau örlög að fá eilífa sæluvist og samfellt sumarfrí hjá Guði. Ég skil vel að Hemmi hafi haft áhyggjur af þessu og trúað gæti ég að hann sé ekki viss um örlög sín þegar yfir lýkur, en ég undraðist að Hjálmari virtist stórlétt. Maður hefði haldið að vegna starfs síns og trúarköllunar ætti hann að eiga víst lögheimili hjá Guði að lokinni veru hér á jörð og biði í óþreyju eftir flytjast yfir í sælli heima. Hann gerir nú allt sem í hans valdi stendur til að forða vinum sínum og kunningjum frá vist hjá Guði og englunum í himnaríki. Hann pantar fyrir þá tíma hjá hjartalækni og skipar þeim að drífa sig í skoðun, svo að þeir megi lífi halda sem lengst og halda áfram að puða og sveitast um í hinu jarðneska lífi hérna megin grafar.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:22 e.h.




Powered by Blogger