Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, september 10, 2004 :::
 
Hæ,
Clinton was in town. Það eru að vísu ýmsir frægir búnir að koma hingað til lands og borgar síðan, en mér finnst enginn hafa borið af Clinton. Ekki einu sinni sænsku konungshjónin og ríkisarfinn öll samanlagt. Sylvia og Victoria eru frekar sætar og býsna prinsessulegar, en konungurinn lítur hreint ekki út fyrir að vera konungborinn, hann hengslast um með sauðarsvip og á næstum erfitt með að gera sér upp áhuga á umhverfinu. Í þessari sænsku heimsókn er það Dorrit, forsetafrúin íslenska, sem virðist halda uppi stuðinu, hún er skælbrosandi, iðandi af ánægju og geislandi af hamingju. Kannske hún sé svona ánægð síðan Clinton was in town.
Ég missti auðvitað af Clinton, sá hann bara í sjónvarpi, þar sem hann spókaði sig í miðborg Reykjavíkur í blárri peysu og gallabuxum, heilsaði upp á vegfarendur og faðmaði konur og smábörn. Hann sem hefur verið valdamesti maður heims. Je minn, hvað hann var glæsilegur! Sólin ljómaði og borgarbúar ljómuðu þegar Clinton was in town.
Svo ranglaði forsetinn fyrrverandi af tilviljun inn í smáverslun, sem hefur hangið á horriminni um árabil með veltustrikið á hraðri leið niður á við. Koma hans þarna inn sneri fjárhagsstöðu verslunarinnar umsvifalaust upp á við, þannig að veltustrikið tók stefnu í átt til himins. Þar keypti Clinton einhverjar radísu- og grænmetisskálar eftir íslenskan hönnuð, sem síðan hefur ekki getað litið upp fyrir annríki við að framleiða upp í pantanir úr öllum áttum. Búðin fylltist samstundis af fólki út úr dyrum. Mér skilst að hafi varla verið hægt að loka nema rétt yfir blánóttina fyrir aðsókn og áhuga innlendra og erlendra síðan Clinton was in town.
Mér þótti verst að vera ekki á ferli í miðbænum þennan dag, að ég skyldi ekki vera fastur viðskiptavinur í Clinton-búð eða að ég skyldi ekki bara álpast niður í bæ bara til að fá mér ís á Hallærisplaninu eða pylsu á Bæjarins bestu. Þá hefði ég kannske fengið koss, þegar Clinton was in town.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 4:59 e.h.


fimmtudagur, september 09, 2004 :::
 
Hæ,
Nýlega fór ég norður í Þistilfjörð til að fylgja Öbbu, móðursystur minni, til grafar. Hún lést södd lífdaga eftir langa og verkadrjúga ævi. Undanfarin ár hafa verið tíð kaflaskipti í ættarbók minni í Þistilfirði og nú allt í einu finnst mér bókinni lokið og að hún hafi verið lögð aftur í hinsta sinn. Holt verður ekki hið sama hér eftir. Þar taka ekki lengur á móti okkur ættingjar, sem virðast utan alls tíma, yfirvegaðir og hafnir yfir áhyggjur, sem beina allri sinni athygli að gestum, er fá þá tilfinningu að einmitt þeir séu kærkomnustu gestirnir og hafi gert frændfólkinu sérstakan greiða með því að koma í heimsókn og leggjast upp á heimilið um lengri eða skemmri tíma.
Samt fengu ábúendur í Holti sinn skammt af áhyggjum, átökum og erfiðleikum, ekki síður en aðrir. En þau kunnu þá list frá frumbernsku að bera harm sinn í hljóði, flíkuðu ekki hryggð sinni, varð ekki tíðrætt um áhyggjuefni sín, kunnu að marka hring um sitt innsta einkalíf og hlífðu þar með gestum og gangandi við að hlusta á og vera þátttakendur í þeirra hvunndagsþrautum. Þess vegna stóðu þau gagnvart öðrum sem hógværir sigurvegarar hins daglega lífs.
Sól skein í heiði yfir Þistilfjörð þegar við, þ. e. ég, mamma og móðursystur mínar, Halla og Fríða, komum af Axarfjarðarheiði, allri í drullupollum og frekar seinfarinni. Þær systur þrjár voru nokkurn veginn á einu máli um að hvergi á jarðríki væri fegurri blettur en Þistilfjörður, nema ef vera skyldi Laxárdalurinn sjálfur að austanverðu. Hvergi væri að finna fegurri litasamsetningu, hvergi tærara loft, hvergi fegurri fjallasýn, hvergi hvítara sauðfé. Himinninn í Þistilfirði fannst þeim einstaklega heiðblár, grasið einstaklega flauelsgrænt, fjöllin einstaklega dimmfjólublá, sjórinn einstaklega fagurblár, sauðféð einstaklega hvítt og vænt og skýin einstaklega glitrandi og falleg í laginu. Augnablik! Ég er bara að ljúga þessu með skýin. Allt hitt er haft nokkurn veginn orðrétt eftir þeim systrum.
En við nánari athugun komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki fjarri lagi. Ég horfði út á sjóinn meðan systur voru að romsa upp úr sér þessari lofrullu um Þistilfjörð eina ferðina enn og þá sá ég að sjórinn var einstaklega fagurblár. Ég mundi ekki eftir því að hafa séð sjóinn slíkan, ekki einu sinni Miðjarðarhafið, sem á að heita frekar blátt. Það bliknaði við hlið Þistilfjarðar.
Við Halla frænka elduðum kjötsúpu, sem dugði í ríflega 40 skammta og undirbjuggum léttan málsverð fyrir frændfólkið og fjölskyldur þess að morgni jarðarfarardagsins. Mamma fékk fyrir náð og miskunn að brytja smávegis af grænmetinu í súpuna. Halla var yfirkokkur og hvert fimm stjörnu hótel væri vel sett með slíkan yfirkokk. Það er lærdómsríkt fyrir þann, sem lifir og hrærist í eilífu stressi og hraða að fá að kynnast því asaleysi og nostri, sem einkennir öll hennar vinnubrögð. Aldrei hrapað að neinu, allt athugað nákvæmlega, ekki reynt að spara tíma eða fyrirhöfn, heldur lagði hún fremur meira en minna á sig svo að allt gæti verið sem best úr garði gert. Heimabökuðu bollurnar hennar Fríðu frænku runnu ljúflega niður með súpunni og ávaxtakakan hennar gerði kaffitímana að hátíð.
Við keyrðum á brott daginn eftir jarðarförina hennar Öbbu frænku, sem hafði um ævina hengt á snúrur og gengið frá þeim hvítasta þvotti sem nokkurt okkar hafði séð. Enginn vissi hvaða leyndarmál lá þar að baki. Í Þistilfirði skein sól á fölbláum himni á fagurblátt hafið. Haustlitir voru farnir að blika í lynginu.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 6:27 e.h.


miðvikudagur, september 08, 2004 :::
 
Hæ,
Íslenskir karlmenn eru afskaplega lítið herralegir, það má eiginlega segja að þeir séu hræðilega miklar lummur þegar kemur að samskiptum við kvenfólkið. Þeir segja að vísu – til að bjarga sér úr vandræðunum - að það sé ekki hægt að vera herralegur og nærgætinn við íslenskar konur, þær séu svo sjálfstæðar. Ef eigi t. d. að halda á ferðatösku fyrir þær, séu þær búnar að grípa hana, áður en nokkur er farinn að skima í kringum sig eftir einhverju til að sýna kurteisi og herramennsku, og horfnar út í buskann haldandi sjálfar á sinni ferðatösku eða hvað sem það nú er, sem þær hafa í farteskinu.
Um daginn var ég við jarðarför í sveitakirkju, þar sem kirkjukórinn stóð til hliðar við altarið meðan sungið var, en gat svo sest á hornbekk með veggnum þegar hlé gafst frá söngstörfum. Þegar kórinn var búinn að syngja nokkra sálma og hlusta á bænir og boðskap án þess að setjast, var komið að líkræðunni. Söngfólkið settist og þá kom í ljós að ekki var sæti fyrir alla. Þrír fengu ekki sæti, einn karlmaður og tvær konur, sem stóðu, þar til næst var sungið. En á bekknum sátu hið fastasta nokkrir fílhraustir og stæðilegir bændur, sem datt ekki í hug að bjóða konunum sæti. Mér hefði fundist við hæfi að einhver konan í kórnum hefði staðið upp og boðið karlmanninum sem stóð sitt sæti. Ekki hefði ég undrast þótt hann hefði þegið það með þökkum.
En ég þekki einn karlmann og vinn meira að segja með honum, sem er mikill sjentilmaður og sýnir það alltaf með glæsibrag. Ekki veit ég hvort það var herramennskan sem fleytti honum í stöðu framkvæmdastjóra, hef grun um að það hafi verið aðrir kostir og gáfur á öðru sviði. En eitt er víst og það er að hann er í mínum huga undantekningin á þessu sviði hér á landi.
Um daginn lenti ég í því ásamt tveim samstarfsmönnum mínum karlkyns, fyrrnefndum samstarfsmanni, og einum óbreyttum, að taka á móti hópi erlendra gesta, sem við sýndum fyrirtækið í hólf og gólf. Að loknum öllum trakteringum hóf forsvarsmaður gestanna upp raust sína, gaf okkur sinn gjafapakkann hverju, sem innihélt nýjasta jólaóróann frá Georg Jensen og þar á eftir fylgdi flaska af lúxembúrgsku armeniac. En hann átti bara tvær flöskur handa okkur þrem. Hann afhenti framkvæmdastjóranum í hópnum aðra flöskuna og stóð svo vandræðalegur fyrir framan mig og hinn óbreytta starfsmanninn karlkyns með þessa einu sem eftir var. Í stað þess að vera herralegur og rétta konunni í hópnum flöskuna, þ.e. mér, rétti hann flöskuna í áttina að karlmanninum - sennilega í ljósi þess að mín meðfædda hæverska varð til þess að ósjálfrátt tók ég eitt skref aftur á bak - með þeim orðum að við gætum kannske deilt henni okkar á milli. Þetta kom mér nokkuð á óvart, þar sem ég hélt að útlendingar væru svo afskaplega mikið fyrir að gleðja dömur og fannst því að hann hefði átt að rétta flöskuna til fulltrúa þess kynflokks í hópnum. Samstarfsmaður minn greip flöskuna og sleppti ekki takinu. Hann hefði nú getað komið sér í mjúkinn hjá mér með því að gefa mér flöskuna og þar með tryggt sér áralanga ritaraþjónustu hjá mér þegar honum hentaði. En hann tók greinilega áfengi fram yfir inneign hjá aðalritara fyrirtækisins. Greinilega lítil herramennska, mikil drykkjulöngun og lítil framsýni, þar sem þetta voru nú ekki nema 32 sentilítrar, en að vísu í afskaplega smart flösku. En minn tími átti eftir að koma. Þegar gestirnir voru farnir rétti framkvæmdastjórinn fram flöskuna sem hann hafði þegið að gjöf og gaf mér. Flott hjá honum.
Í dag sýndi þetta eðalmenni enn á sér herramannshliðina. Við þurftum að fara á fund út í bæ. Veðrið var ekki upp á hið besta, úrhellisrigning og rok. Bílastæðin eru alls ekki upp við húsið, heldur nokkuð langt að fara í bílana. Minn framkvæmdastjóri skipaði mér að bíða í forstofunni, hljóp og náði í bílinn og kom með hann næstum inn í anddyrið. Flottur! Sama gerði hann þegar við komum til baka, svo að hárgreiðslan á mér færi ekki út í veður og vind í bókstaflegri merkingu.
Gæti verið að hann hefði ekki viljað leggja það á sig að horfa á mig úfna?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:09 e.h.




Powered by Blogger