Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, apríl 11, 2008 :::
 
Hæ,
Fyrir nokkru bauð ég nokkrum góðum gestum til afmælisveislu í tilefni af 64 ára afmæli mínu. Þegar gestirnir voru farnir lá við að ég sendi þeim öllum SMS og bæði þá að koma aftur, þar sem hluti afmælisveislunnar hafði gleymst. Ég fann í ísskápnum tvennt sem gleymst hafði að setja á eftirréttaborðið og síðan áttaði ég mig á að ég hafði gleymt hluta ræðunnar, sem ég flutti áður en ég brast í söng og flutti ásamt bakröddum “When I´m sixty four“ fyrir viðstadda afmælisgesti. Að vísu misskildu bakraddirnar hlutverk sitt og fóru full mikið inn í aðalröddina - að mínu mati - en það er allt önnur saga.
En ég hætti við að senda nýförnum gestunum SMS því í huga mér rifjaðist upp saga af amerískri kellingu , sem sendi bréf til gestanna, sem verið höfðu við brúðkaup dóttur hennar viku áður. Þar bað hún alla að koma aftur í brúðkaupsveislu nr. 2, sem haldin yrði á sama stað og fyrri veislan. Gestirnir voru beðnir um að vera í sömu fötum og þeir höfðu íklæðst í brúðkaupinu og með sömu skartgripi og hárgreiðslu. Ástæðan var ekki sú að svo skemmtilegt hefði verið í brúðkaupinu að full ástæða væri til að endurtaka það, heldur sú að video-upptakan hafði mistekist á sjálfri hátíðastundinni. Kannske hefur bara gleymst að kveikja á kamerunni?
En hvað mitt vandamál varðar þá hurfu veitingarnar eins og dögg fyrir sólu ofan í heimilisfólk og engin ástæða til að aðhafast neitt frekar í þeim efnum, nema skreppa í nokkra leikfimitíma og gönguferðir til að eyða þeim endanlega.
Sá hluti ræðunnar sem gleymdist átti að fjalla um það að þetta yrði í síðasta skipti, sem ég sjálf stæði fyrir veislu í tilefni afmælis míns, mér fyndist kominn tími til að aðrir sæju um veislu af þessu tilefni í framtíðinni. Svo komst ég að þeirri niðurstöðu að þessi gleymska mín hefði verið ráðstöfun guðanna, sem tekið hefðu fram fyrir hendurnar á mér. Það er auðvitað hin mesta firra að taka slíka ákvörðun, að láta sér detta í hug að tilkynna að maður sé hættur að halda upp á afmælið sitt og bíða eftir að aðrir taki það að sér.
Vegna þess að þá verða ekki fleiri afmælisveislur!
Kveðja,
Bekka

PS. Þetta er blogg nr. 300. Af því tilefni legg ég skoðanakönnun fyrir milljónir tryggra lesenda, sem koma oft á dag inn á síðuna hjá mér:
1. Finnst þér að ég eigi að halda áfram að blogga?
2. Hvers vegna?
3. Finnst þér að ég eigi að hætta að blogga?
4. Hvers vegna?
5. Heldur þú að einhver lesi bloggið mitt?
6. Hvers vegna?
7. Ætlar þú að svara þessari asnalegu skoðanakönnun?
8. Hvers vegna?
Kveðja,
Bekka

PPS. Niðurstöður úr skoðanakönnun verða birtar á síðu Gallup á Íslandi - ef það þá enn til . Einnig verður skýrt frá þeim í aðalfréttatíma útvarpsstöðvarinnar Miðhálendið næsta hlaupársdag.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:04 e.h.




Powered by Blogger