Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, febrúar 12, 2009 :::
 
Hæ,
Í kvöld sat sex ára hnáta hjá ömmu.
"Þú átt eftir að læra fyrir morgundaginn," sagði amma.
"Ég veit ekki hvar skólataskan mín er," svaraði sú stutta.
Amma náði í skólatöskuma og tók upp úr henni þær skólabækur sem nota átti við flókin heimaverkefni.
Eftir klukkustund spyr amma: "Ertu alveg búin að læra?"
"Já," er einbeitt svar.
"Gakktu þá frá skólabókunum þínum og settu þær niður í töskuna," segir amma.
"En þú tókst þær upp úr töskunni," svarar skólastúlkan.
Amma hljóp fram í eldhús til að hlæja óséð.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:04 e.h.


 
Hæ,
Nú eru forsetahjónin búin að fá sér hundskrípi. Það er ljómandi. Nú getur hann bæst í Bessastaðakórinn og tekið undir gjammið í húsráðendum bæði raddað og í takt, svo ekki heyrist heyrist hjáróma rödd á setrinu.

Ég vil minna á að Geir H. Haarde var í öðru ráðherraembætti áður en hann tók við stjórnartaumunum í forsætisráðuneytinu. Haldið ykkur nú fast. Hann var fjármálaráðherra frá 16. apríl 1998 til 27. september 2005 - í rúm sjö ár. Náttúrulega var hann öll þau ár sífellt og stöðugt að vara við skelfilegum afleiðingum þeirrar peningastefnu sem hann sjálfur mótaði og rak í anda peninga-, auðvalds- og nýfrjálshyggju. Auðvitað hækkaði hann skattana verulega hjá þeim sem höfðu tugi milljóna í mánaðarlaun og lagði til hliðar til mögru áranna. Var það ekki svoleiðis? Muna það ekki allir. Eða svoleiðis!
Eða hvað! Var það ekki hann sem fékk peningana við sölu bankanna og Símans í ríkiskassann? Hvað var gert við þessa peninga? Var ekki alltaf verið að tala um að fara vel með þá? Reisa hátæknisjúkrahús svo eitthvað sé nefnt? Hvað er búið að eyða miklu í hönnun og undirbúning fyrir hátæknihospital, sem kom sjúklingum og veikum ekki að nokkru gagni? Er nokkur búinn að gleyma því?
Og var það ekki hann sem komi í pontu á Alþingi um daginn og hafði áhyggjur af því að nýja ríkisstjórnin væri að leggja bankaráðsmenn og pótíntáta íhaldsins í einelti og bola þeim burt úr bankaráðum og bitlingum? Hann bar þá fyrir brjósti þar sem þeir gætu misst spón úr aski sínum ef þeir yrðu af sporslunum. Hann minntist ekki einu orði á 14.000 atvinnulausa hér á landi sem eiga varla eða ekki til hnífs og skeiðar og sjá ekki fram á neitt betra í náinni framtíð. Hann hafði ekki áhyggjur af því fólki sem sér fram á að margborga það húsnæði, sem það hefur fest sér og lagt að sér til að kaupa, húsnæði sem á hvíla lán, sem eru miklu hærri sú upphæð, sem fæst fyrir húsnæðið. Han hafði engar áhyggjur af þjóðinni sem á að borga brúsann. Skítt með peðin, bara að konungurinn og hirð hans haldi sínum völdum og áhrifum og geti viðhaldið hinni einu, sönnu, pólitísku samtryggingu, sem hann á allt sitt undir.

Nú líður að þvi að kominn sé tími til að fletta upp í þeim Lenín, Marx og Engels, sem maður las á sínum tíma og fékk dágóða kennslu í undir væng kommúnismans.

Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 9:41 e.h.




Powered by Blogger