Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, desember 05, 2008 :::
 
Hæ,
Mr. DO hefur boðað endurkomu sína líkt og Lausnari mannkynsins gerði á sínum tíma. Mr. DO ætlar ekki að láta líða eins langan tíma og Lausnarinn, sem hefur ekki látið sjá sig aftur á jörðu niðri, heldur mun hann birtast innan tíðar sem frelsandi engill - líklega í prófkjöri.
Það er sem sagt von á frelsaranum nú þegar bankarnir eru hrundir, hlutabréfamarkaður hér á landi orðinn að engu, fyrirtækin ramba á heljarþröm, atvinnuleysi að skella á og almenningur hefur tapað eigum sínum og lífeyrissparnaði. Þjóðin stendur uppi með ráðalausa ríkisstjórn og seðlabankastjóra sem hefur það eina markmið að hvítskrúbba sjálfan sig, seðlabankastjóra, sem fyrirlítur íslenska fjölmiðla svo heitt og innilega, að hann birtir fagnaðarboðskapinn um mögulega endurkomu sina í dönsku blaði! Það er greinilegt að Danir eru miklir vinir hans, þó þeir séu ekki vinir íslensku þjóðarinnar.
Það eru engar vöflur á Mr. DO, sem tilkynnir í viðtali við fylgirit með Fyens Stiftstid, sem gefið er út á Fjóni í Danmörku, (héraðssnepill), að hann ætli sér að sitja í nokkur ár í viðbót sem seðlabankastjóri og þegar hann hætti störfum muni hann gera það á eigin forsendum og af fúsum og frjálsum vilja eins og hann gerði þegar hann var forsætisráðherra. Ef einhverjir verða svo ósvífnir að setja hann af, ætlar hann sér að snúa aftur í stjórnmálin af því að hann verður að hafa einhvern starfa. Seðlabankastjórinn gleymir að taka það fram, að hann er á eftirlaunum sem fyrrverandi alþingismaður, en hann lét einmitt sérsníða eftirlaunafrumvarp fyrir sig persónulega nokkrum dögum áður en hann hvarf af Alþingi og rann það frumvarp í gegnum allar þingsins hakkavélar, sem vatn væri. Auk þess er hann á seðlabankastjóralaunum, sem hækkuðu ekki fyrir löngu talsvert umfram það sem almenningi stendur til boða. Þegar Mr. DO hætti á þingi tilkynnti hann að hann myndi snúa sér að ritstörfum, sem hefðu ætíð verið honum hugleikin. Svo gat hann þess í leiðinni að hann væri að fara að vinna sem seðlabankastjóri, rétt eins og um aukadjobb væri að ræða.
Mr. DO hamrar á því í viðtalinu að hann sé blásaklaus og samviska hans hvítari en í nýfæddu ungabarni. Hann hafi varað látlaust við þróun mála, en enginn hafi hlustað varnaðarorðin. Hvern varaði hann við? Hvar og hvenær? Var hann einn á fundi með sjálfum sér?
Utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra hafa sent frá sér yfirlýsingar og fréttir þess efnis að þau hafi ekki fengið að heyra varnaðarorðin sem seðlabankastjóri lét svo oft falla þess efnis að engar líkur væru á að bankarnir myndu lifa af.
Svo kemur í ljós að viðskipta- og bankamálaráðherra landsins hefur ekki augum barið seðlabankastjórann frá því í nóvember 2007 – þegar allt lék í lyndi – til ríkisstjórnarfundar í október á þessu ári – þegar allt var í klessu - þar sem Mr. DO lagði til að mynduð yrði þjóðstjórn. Ég get rétt ímyndað mér hvern hann hafði í huga til að stýra þeirri stjórn. Þegar allt hrynur hefur bankamálaráðherrann ekkert í höndunum nema stöðugleikaskýrsluna sem Seðlabankinn gaf út í maí – þar sem allt er í himnalagi hjá bönkunum – ekkert meira um þeirra málefni.
Þegar betur er leitað kemur í ljós að varnaðarorðin og sífelldar viðvaranir virðast einskorðast við símtal sem seðlabankastjórinn hefur átt við forsætisráðherra, að sögn þess síðarnefnda þótt hann muni ekki eftir símtalinu. Hann hefur kannske verið að hraða sér út í Melabúð með Ingu Jónu að versla og láta hafa viðtal við sig í Mogganum, svo þjóðin gæti séð, að þau hjónin gætu látið eftir sér að skipta við kaupmanninn á horninu, en þyrftu ekki að versla í Bónus og Krónunni eins og blankir landsmenn. Forsætisráðherra segir í þessu sambandi meginmáli skipta að Seðlabankinn hafði allt árið miklar áhyggjur af stöðu viðskiptabankanna þótt e.t.v. hefði mátt lesa annað út úr stöðugleikaskýrslu bankans frá í maí. Það sem sagt sé í svona símtali sé náttúrulega ekki opinber afstaða bankans.
Spyr sá sem ekki veit: Hvers vegna kemur Seðlabankinn ekki áhyggjum sínum á framfæri á breiðari vettvangi en í einu símtali? Hvernig er e.t.v. hægt að lesa eitthvað annað en raunverulegt ástand út úr skýrslunni? Er það ekki af því að þar er ekki minnst á ástandið eins og það var? Geta menn þar á bæ ekki komið textanum til skila á skýran og skilmerkilegan hátt eða er bara verið að ljúga? Hvers vegna er viðskiptaráðherra ekki á reglulegum fundum með bankastjórum og stjórn Seðlabankans? Var yfirleitt um eitthvert símtal að ræða? Hvers vegna eru ekki viðhöfð fagleg vinnubrögð? Er enn verið að naga blýanta í Seðlabankanum? Eða er seðlabankastjóri að leika sér að þjóðinni?
Kannske er skýringin sú að hann er engin veginn starfi sínu vaxinn og hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera. Hann lýsti yfir í viðtali í kvennablaði fyrir nokkrum árum að hann hefði ekki hugmynd um hvað stýrivextir og bindiskylda væri.
Þegar allt fer í háaloft yfir yfirlýsingu seðlabankastjóra í dönsku blöðunum er ljóst að hann hefur ekki lesið viðtalið yfir áður en það var birt eins og maður hélt að væri venja hjá mönnum á hans level. Hann birti heldur ekki leiðréttingu í dönsku blöðunum, nei, nei, bara á vefsíðu gamla góða Moggans. Allt í einu virðist hann kominn með blaðafulltrúa eða talsmann, eða kannske væri bara rétt að segja geltandi senditík, er forsætisráðherra var spurður á óformlegum blaðamannafundi um ummæli Mr. DO og sagði hann ummælin hafa verið tekin úr samhengi í dönsku umfjölluninni og að Mr. DO hefði birt leiðréttingu á mbl.is.
Eftir að hafa flutt þjóðinni skilaboð frá seðlabankastjóra í fjölmiðlum klykkti forsætisráðherra út með því að tilkynna að aldrei hefði hvarfað að honum að láta Mr. DO víkja úr seðlabankanum. Hann bæri fullkomið traust til hans. Ekkert að honum að finna. Hvernig væri að forsætisráðherra spyrði kjósendur hvaða hann ætti að gera?
Á fundi, sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir nýlega, var seðlabankastjóri ræðumaður dagsins og auglýst var að hann ætti að tala um stöðuna í þjóðfélaginu. Það vantaði ekki að hann talaði lengi og fjálglega um sakleysi sitt og allar sínar látlausu viðvaranir, sem virtust fara fram hjá flestum, ef ekki öllum. Hann minntist ekki á framtíðina, minntist ekki á fjármálastefnuna, ekki á viðbrögð við vandanum og lagði ekki fram neinar áætlanir. Hann hjó á báða bóga og dró síðan þetta líka tromp upp úr brókinni – hann veit hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum á Ísland, en má ekki segja frá ástæðunni! Þegar hann drattaðist svo í fylgd lögreglu og lífvarða á fund viðskiptanefndar Alþingis, sem hann var boðaður á til að gera grein fyrir þessum ummælum sínum, vildi hann ekkert segja og bar fyrir sig bankaleynd. Hann rauf að vísu bankaleyndina sjálfur á fundi Viðskiptaráðs, en svona smáatriði eru greinilega ekkert að þvælast fyrir honum.
Já, seðlabankastjóri birtist í fylgd lögreglumanna og lífvarða. Er þetta stöðutákn eða er hann óttasleginn? Fyrir hverjum er verið að verja hann? Ábyggilega fyrir almenningi, fyrir sauðsvörtum almúganum, sem hann þarf ekki að óttast. Hann óttast sína eigin samvisku – það er hún, sem plagar hann.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:58 e.h.


fimmtudagur, desember 04, 2008 :::
 
Hæ,
Mörg vötn hafa til sjávar runnið síðan ég setti síðast til birtingar á blogginu nokkur orð um upphaf kreppunnar sem helltist yfir land og þjóð – vel að merkja upphaf kreppunnar, því hún er ekki skollin á okkur af fullum þunga. Ég hef lifað nokkra áratugi og er komin vel á seinni helming ævinnar, ég hef lifað niðursveiflur og uppsveiflur, verðbólgu, óvissu, stjórnarkreppu og óáran, sem almenningur hefur látið yfir sig ganga með endalausri þolinmæði og langlundargeði, en aldrei hef ég orðið vitni að annarri eins árás á almenning og lífskjör hans sem nú. Maður finnur hreinlega krumlu stjórnvalda rekast á kaf inn í brjóstholið á sér, komna til að vera þar og kraka með nöglunum eftir hverri tutlu sem finnst.
Eitt er víst í þessu moldviðri og það er að ríkisstjórn og ráðamenn hafa ekki haft neina stjórn á ástandinu. Við vorum með banka, sem voru þandir út á ystu nöf, en ráðamenn héngu og hanga á krónunni eins og hundar á roði. Hér hafa margir varað við og talað máli annars gjaldmiðils, en ekkert hefur verið gert. Gjaldmiðlum hefur farið fækkandi í heiminum og innan áratugs verða innan við tíu gjaldmiðlar í heiminum, kannske bara fimm gjaldmiðlar. Ég vissi þetta. Vissu menn í ríkisstjórn, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti þetta ekki?
Horfir ríkisstjórn og ráðamenn ekki fram í tímann, er þetta fólk ekki með nein plön? Var ekkert plan A, plan B, plan C, plan D og nokkuð lengi fram eftir stafrófinu? Öll stórfyrirtæki eru rekin eftir áætlun, eru með áætlanir og varaáætlanir á öllum sviðum og hafa á takteinum viðbrögð við óvæntum uppákomum. Smærri fyrirtæki setja upp plön, megnið af venjulegu fólki er með áætlun og varaáætlun og krakkar í leik eru með leikplan A og B og C. Ríkistjórnir hljóta að vera með áætlun og margar varaáætlanir. Bara ekki sú íslenska. Hún klúðraði bara hlutunum og klúðraði þeim alltaf betur og betur eftir því sem á leið, enda hlýtur hún að hreppa gull, silfur og brons í heimsmeistarakeppninni í klúðri og klaufaskap.
Blaðamannafundir forsætisráðherra og viðskiptaráðherra fyrstu dagana eftir fallið hljóta að verða notaðir í framtíðinni sem skólabókardæmi um heim allan til að kenna hvernig á ekki að koma fram við þjóð í vanda, hvernig á ekki að koma fram gagnvart umheiminum. Það var ótrúlegt hvaða orð ráðamenn hafa látið falla undanfarnar vikur. Veit þetta fólk ekki, að í heiminum er sérstök fjármálapressa, sem birtir á augabragði alla umfjöllun um fjármál, hlutabréf, skuldabréf o.s.frv. Þau ummæli sem þar fara inn verða ekki leiðrétt svo glatt. Hvernig getur forsætisráðherra og ríkistjórnin öll verið svo skyni skroppin að ráða sér ekki klárt ímyndar-teymi til að móta stefnu og framkomu á þessum erfiða tíma. Að vísu var kallaður til norskur hernaðarsérfræðingur, sem kom í Kastljós og huggaði okkur með því að infrastrúktúr í þjóðfélaginu á borð við síma og þjóðvegi virkaði!
Svo voru aðrir sem gættu þess vel að tala ekki við fjölmiðla. Það voru menn, sem eru á launaskrá hjá okkur, hjá almenningi þessa lands, og það hærri launum en almenningur á kost á. Svo voru sumir sem líka eru mjög ofarlega á launaskrá hjá okkur, sem hreyttu bara skætingi í blaðamenn - rétt eins og hortugir krakkar.
Hvernig er hægt að taka banka, sem er í erfiðleikum og afgreiða mál hans á einni helgi? Það er ekki hægt og það þurfti ekki og átti ekki að ganga frá málum Glitnis í einni svipan, en gáfnaljósin í ríkistjórninni og seðlabankanum töldu sig geta leyst vandann í næturvinnu. Þá helgi var unnið af kappi í forsætisráðuneytinu, en ekki af forsjá.
Þá helgi stóð Helgi Hóseasson líka í næturvinnu á Langholtsveginum með mótmælaspjaldið sitt, sem á er letrað: Blóð, Busi, Dóri, Davi. Betur væri að fleiri hefðu þá vitað hvað var á seyði og tekið sér mótmælastöðu við forsætisráðuneytið. Þögul mótmælastaða tuga þúsunda – ógnandi almenningur með mótmælaspjöld: Við kjósum ykkur aldrei aftur – aldrei framar. Það gæti kannske skotið ríkisstjórn og seðlabankastjóra skelk í bringu.
Hvers vegna var ekki sett upp neyðarstjórn í landinu? Kallaðir til forsvarsmenn stjórnarandstöðu, atvinnulífsins, verkalýðsfélaga? Fulltrúar þessara afla buðu ráðamönnum aðstoð sína hver um annan þveran. Þeim var ekki ansað, ekki einu sinni gefið fokkmerki. Hví voru ekki kallaðir á vettvang menntaðir hagfræðingar, lögfræðingar og viðskiptafræðingar? Efnahagslegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar var látinn fjúka af því að hann var ekki á bandi ríkisstjórnarinnar, heldur fylgjandi öðrum leiðum. Þjóðin þurfti á að halda öllum góðum öflum til að koma í veg fyrir að vandinn yrði eins víðtækur og yfirgripsmikill og hann varð, en ríkisstjórnin sat í hroka sínum og þóttist ráða við stöðuna.
Sparnaði almennings var gefið langt nef nema peningarnir væru á bankabókum. Allt í einu komu þær upplýsingar úr herbúðum stjórnarinnar að hlutabréfakaup og peningamarkaðssjóðir væru áhættusparnaður. Það eru ekki mörg ár síðan almenningi var gefinn góður skattaafsláttur við hlutabréfakaup. Þá var aldrei talað um áhættu eða vogun. Flestir þeir sem hafa sett peninga í hlutabréf og peningamarkaðssjóði hafa verið að hugsa um góða ávöxtun til langs tíma og ekki verið að taka áhættu. Þetta er ekki fólk, sem leikur sér með peningana sína heldur gætir þeirra eftir bestu getu í þeirri von að geta notið þeirra síðar á lífsleiðinni. Þetta er ekki fólk með stóru upphæðirnar með ótal núllum, heldur fólk, sem fór vel með sitt og lagði til hliðar – oft af litlu.
Það er eins og engin stefna hafi verið mótuð, engin mál skoðuð ofan í grunninn, það er bara göslast áfram, yfirlýsingar gefnar á báða bóga og fólk veit ekki lengur hvað það á að halda og því síður hvað það á að gera. Herðið sultarólina, vörur hækka látlaust, uppsagnir framundan, launalækkanir settar á þegar í stað hvort sem þess þarf eða ekki.
Einn daginn þegar allt var á suðupunkti kom forsetinn og hleypti öllu í bál og brand með ummælum, sem hann hafði látið falla á fundi með sendiherrum norrænu ríkjanna. Einn sendiherrann var ekki meiri maður en svo að hann lét blaðamenn hafa minnispunkta frá fundinum. Þessi sendiherra er ekki sá eini sem hefur sýkst af lekanda um þessar mundir. Ótal margt hefur lekið úr bönkunum og ráðuneytunum. Aftur á móti er vendilega límt fyrir kjaftinn á ríkisstjórninni þegar kemur að því að segja sannleikann og skýra rétt og satt frá ástandinu.
Það er ekki furða þótt fólk sé öskureitt, þegar búið er að rífa af því sparnaðinn og hækka alla greiðslubyrði upp úr öllu valdi og gera hana óviðráðanlega. Það er ekki skrýtið þótt það kenni þeim um sem halda um stjórnartaumana. Samt sitja ráðamenn eins og límdir í valdastólana – rétt eins og tröllagrip hafi verið borið á stólseturnar. Aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar til varnar heimilunum var hvorki fugl né fiskur, (ég kann ekki við að skrifa það sem ég hugsa í því sambandi). En þegar kom að því að skera niður fríðindin hjá þeim sjálfum og fyrrverandi alþingismönnum voru silkihanskarnir settir upp og aðeins krakað í eftirlaunalögin svona rétt til málamynda.
Svo fær almenningur að heyra að hann hafi eytt um efni fram, keypt sér utanlandsferðir og flatskjái, sem af einhverjum undarlegum orsökum virðast vera verkfæri hins vonda í krepputalinu og undirrót vandans í heild. Minna er talað um að ríki og sveitarfélög hafa verið á fullu í framkvæmdum í góðærinu, sem hafa veri fjármagnaðar með erlendum lánum og nú á samdráttartímum þegar ríkið og bæir ættu að hefja framkvæmdir og bjóða fram störf og hefja innkaup geta þessir aðilar sig lítið hreyft og grípa til niðurskurðar. Mörg sveitarfélög eru með myntkörfulán og hafa tapað á hlutabréfum og peningasjóðum, þannig að ég sé enga ástæðu til að berja á almenningi fyrir eyðslusemi undanfarinna ára.
Einhver spekingur, kannske fulltrúi ríkisstjórnarinnar, setti fram þá frábæru tillögu að fólk yrði gott hvert við annað, gætti að náunganum og hugsaði vel um börnin sín. Ég spyr: Eigum við þá bara að vera góð hvert við annað og faðmast og knúsast þegar fátækt og neyð ber að dyrum? Eigum við að fara að fylgjast með náunganum núna? Af hverju ekki fyrr en nú? Þurfti þessa ekki meðan nógir peningar voru til? Hefur fólk almennt verið að vanrækja börnin sín í góðærinu? Hvaða kjaftæði er þetta? Það er bara verið að beina sjónum fólks frá aðalatriðinu –það er búið að klúðra fjármálum og orðspori þjóðarinnar og koma okkur á kaldan klaka.
Það segja margir með réttu þessa dagana að þeim hafi ekki verið boðið í góðæris-partýið. Ég komst ekki.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:48 e.h.




Powered by Blogger