Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, apríl 16, 2004 :::
 
Hæ,
Ég var að skokka blogghringinn og finnst býsna margir vera orðnir afar rólegir í blogginu, svo ekki sé meira sagt. Sumir hafa ekki bloggað svo mánuðum skiptir.
Annars er sumar og sól í lofti í Garðabænum, ég sit við opinn gluggann og vinn, inn berast ýmis umhverfishljóð, aðallega bíladrunur og einstaka flugvél rennir sér gegnum loftið.
Þórdísi frænku minni er algerlega óskiljanlegt hvers vegna fullorðið fólk velur sér það hlutskipti að tala og skrifa eins og það sé ekki fært um það. Er það yfirleitt nokkuð fært um það? Ég hef ósjaldan bent fólki á stafsetningarvillur í bréfum, sem fara af mínum vinnustað, eða málvillur í tali og oftast fæ ég svarið: "Þetta skiptir engu máli," eða jafnvel: "Ertu viss um að þetta sé rétt?" Þessu fólki er alveg nákvæmlega sama hvernig það talar og tjáir sig. Það hefur nefnilega ekki hugmynd um eigin ambögur og ritvillur. Þórdís segist vera næstum því fullkomin og ég tek svo sannarlega undir það og rúmlega það.
Ef gráu hárin á mér eru mælikvarði á rassbögur og stafsetningarvillur þeirra sem mig umkringja í tali og letri, þá ætti ég að hafa búið við mjög góðan kost á því sviði og aðallega umgengist fulltrúa málhreinsunarstefnu og úrvals íslenskukennara af gamla skólanum. En því miður er því ekki svo varið. Mínar rannsóknir benda því ótvírætt til þess að lélegt málfar og réttritun í molum hafi engin áhrif á háralitinn.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:41 e.h.


fimmtudagur, apríl 15, 2004 :::
 
Hæ,

Hvernig eru fingraför Sigga Hall á bragðið? Betri en fingraför Nigellu?
Fingraför í matinn í kvöld hjá mér. Nóg handa öllum.

Er ríkisstjórnin ekki búin að sitja fulllengi? Halda ráðherrarnir að þeir eigi skútuna eða er þjóðin búin að gefa þeim hana?

Eru flestir hættir að blogga? Er einhver ný tækni að halda innreið sína í samskiptaheiminn?

Læra, læra, læra...
Lykillinn að lífshamingjunni er að vaka og vinna, vaka og vinna, vaka og vinna.

Til hamingju með fermingarafmælið, Þórdís! Hvað skyldi ég hafa gefið þér í fermingargjöf fyrir tíu árum?

Ég átti 46 ára fermingarafmæli 7. apríl sl. Það var kökuboð þegar ég fermdist og boðið upp á ís frá Kristjáns bakaríi síðar í veislunni - ekki venjulegan klaka. Ég fékk fullt af slæðum og hönskum og kássu af símskeytum. Það var kalt borð frá KEA þegar Hildigunnur systir fermdist þrem árum síðar. Ekkert, segi og skrifa, EKKERT komst í hálfkvisti við kalt borð á þeim tímum. Ég var fárveik með hettusótt og missti af allra dýrðinni, svo bólgin var ég að ég gat ekki opnað munninn meðan gestirnir gæddu sér á majones-salötum, skinku, roastbeef, steiktum lauk, remoulade og stráum - öllu skolað niður með Sinalco og öðrum eðaldrykkjum með kökum og kaffi á eftir. Þvílík vonbrigði. Kjálkarnir á mér voru samfastir í rúma viku, eins og víraðir saman. Ég lá í hettusóttinni í mánuð og gat varla staulast í skólann eftir lengstu fjarvistir frá skóla og vinnu á minni ævi.

Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 2:40 e.h.


miðvikudagur, apríl 14, 2004 :::
 
Hæ,

Nigella
Mér finnst hún krafla alltof mikið í matnum. Ég hef aldrei séð hana svo mikið sem skola af höndunum á sér. Í þáttunum er það líka bara hún sem smakkar og stynur síðan af mikilli munúð: Guð, hvað þetta er gott. Ég hef aldrei heyrt gestina hjá henni hæla neinu, ef það koma yfirleitt gestir í þáttarlok.

Leikhús
Það eru konur sem halda leikhúsunum uppi. Þær eiga upptökin að því að fara í leikhús, með eiginmanninnum, með vinkonu sinni eða vinkonum, saumaklúbbnum, skólasystrum, samstarfskonum, frænkuklúbbnum o. s. frv. Fari karlmenn í leikhús hefur kona í langflestum tilvikum átt frumkvæðið og pantað miða. Hefur einhver séð nokkra karla saman í leikhúsi eftir að hafa farið á veitingahús og fengið sér léttan kvöldverð?

Brimborg
Öruggur staður til að vera á...?
Eigum við þá öll að fara í Brimborg ef kemur til kjarnorkustyrjaldar?

Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:28 e.h.




Powered by Blogger