Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, júlí 09, 2004 :::
 
Hæ,
Vanalega vappa ég á vinnustaðnum og utan hans í svartri eða dökkblárri dragt, oftast buxnadragt, alvag eins og lítill krummi. Stundum er ég líka í svörtum bol innan undir, en fer einstaka sinnum í bol í glaðlegum lit til hátíðabrigða eða hengi slæðu um hálsinn til að fá punktinn yfir i-ið - eins og svo oft er komist að orði í glanstímaritum.
Í morgun klæddist ég ljósbláum Gardeur-buxum, sem ég keypti í útsölukasti í Iðunni fyrir tveim árum, og bol í sama lit. Ein samstarfskona mín sagði að það væri nýtt að sjá mig í gallabuxum. "Fyrirgefðu, þetta eru Gardeur-buxur" sagði ég hin merkilegasta og gaf í skyn að þetta væri tvennt ólíkt, sem það auðvitað er. Hún var ekki sú eina sem ræddi klæðaburðinn við mig í dag. Ég sagði öllum, að ég hefði verið að hugsa um að fara í bleikan jakka við, sem ég hefði keypt mér nýlega, en hætt við það vegna þess að þá hefði öll vinna örugglega fallið niður í fyrirtækinu í dag. Ég er svo húsbóndaholl.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:50 e.h.


 
Hæ,
Í gær fór ég í heimsókn til rithöfundar og leikritaskálds, sem ég hef aldrei hitt, aðeins talað einu sinni við í síma fyrir nokkrum dögum til að segja honum að ég hefði í fórum mínum pakka til hans frá fjarlægu landi. Þessi pakki innihélt magnaða dúkku vafða í hessíanstriga, sem á að halda burtu illum öflum. Heyrst hafði til útlanda að á heimili skáldsins og fjölskyldu hans hefðu fleiri aðsetur en þeir, sem í þjóðskrána eru skráðir og honum því sendur þessi bjargvættur. Ég hélt að ég þekkti mig um í hverfinu, en þegar til átti að koma, varð ég að keyra ótal króka til að komast inn í hverfið og að húsinu.
Ástæðan var sú að skammt frá heimili listamannsins stóðu yfir gífurlegar framkvæmdir, þar sem verið var að breyta gömlum götum í stórborgarhrauðbraut og umferðaslaufur. Þegar inn var komið hvarf sá athafnaheimur, þar sem þyrlað er upp endalausri mold, sandi og ryki, þar sem menn í appelsínugulum göllum gefa merki, sveifla skóflum og vísa villtum vegfarendum á rétta braut, þar sem skurðgröfur þrýsta skóflu og tönnum að klettum og grjóti með rífandi ískri, skófla jarðvegi upp á palla þungaflutningabíla, sem keyra landið yfir í annan athafnaheim eða láta það hverfa sjónum okkar.
Listamaðurinn bauð mig velkomna og bauð mér inn í einstaklega heillandi hús, sem lætur lítið yfir sér hið ytra. Hið innra ríkti friður, menningarlegt yfirbragð, allt var í röð og reglu, heimilislegt, tandurhreint og smekklegt og augljóst, að húsráðendur láta ekki tískustrauma og innlits- og útlitsbylgjur ráða, heldur hafa í áranna rás safnað að sér fallegum og persónulegum gripum, sem fá að njóta sín. Í stofunni var síður suðurgluggi með djúpri gluggakistu, þar sem fjórar pottarósir blómstruðu hver í kapp við aðra. Fyrir utan gluggann gægðist þétt röð af hávöxnum, bleikum venusarvagni í fullum bóma upp yfir rósapottana, enn aftar gnæfðu grænir trjátoppar sem skógur væri, þar fyrir ofan ríkti heiðblár himinn. Inn um opinn glugga í stofu lagði létta golu, það skrjáfaði í gluggatjöldum og pottaplöntum eins og einhver gengi um hús.
Húsbóndinn sagði mér að konan sín ætti heiðurinn af þessum fagurrauðu rósum, allt yrði að fögrum gróðri í höndum hennar. Ég sagði honum að ég væri bara i harðgerðu plöntunum, afhenti gjöfina og flutti kveðjur og fréttir utan úr heimi.
Mér var boðið upp á kaffi og nýbakaða ástarpunga, sem móðir húsráðanda hafði komið og steikt fyrr um daginn handa dóttursyni þeirra hjóna. Við settumst gegnt rósaglugganum og töluðum um eftirlætisumræðuefni mitt þessa dagana. Nei, nei, ekki um mig sjálfa, sem ávallt er mitt eftirlætisumræðuefni, heldur um Rússland.
Að kaffidrykkju og skemmtilegu spjalli fannst mér ég vera búin að raska nægilega lengi friðsælu lífi og jafnvægi innan dyra, stóð upp, þakkaði veittan beina og kvaddi skáldið, sem situr að skriftum í fögru umhverfi og er svo heppið að eiga konu, sem ræktar rósir í glugga og mömmu, sem kemur heim til hans og bakar ástarpunga handa fjölskyldunni.
Ég gekk út úr húsinu friðsæla, sem virtist lifa og anda í öðrum heimi, skammt frá drundi í skurðgröfum, ég keyrði á brott og vonaði að heimsókn mín hefði ekki skapað feilnótu í verkum skáldsins.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 4:13 e.h.


miðvikudagur, júlí 07, 2004 :::
 
Hæ,
Dagarnir líða hratt, hitti skemmtilegt fólk í morgunverðarboði á laugardagsmorguninn í boði okkar Beigó. Takk fyrir síðast! Margt bar á góma, knattspyrna ofarlega á dagskrá, til allrar hamingju var nýjasta útspilið í fjölmiðla-lönguvitleysunni ekki ekki búið að líta dagsins ljós – annars stæði boðið líklega enn.
Ég fór í Hagkaup í Smáralindinni um daginn – nokkuð sem ég geri frekar sjaldan – fór bara af því að ég sá í bæklingi frá versluninni að þeir voru með Berjadaga í Hagkaupsbúðunum, þar sem talin voru upp alls konar ber á lágu verði.
Ég ráfaði um alla búðina, sérstaklega ávaxtadeildina og fann hvergi nein ber, hvað þá berjadaga. Ég var að hugsa um að fara að berja einhverja afgreiðslustúlku, þegar ég rak augun í smástand – endurtek smástand - með berjum í útjaðri ávaxtadeildar, svo ég gat hætt að fnæsa af pirringi. Ég er orðin svo séð í matarinnkaupum, að ég fór ekki með körfu inn í búðina til að kaupa bara það sem mig bráðvantar í augnablikinu. Greip nokkrar berjadollur og einn ananas, hélt á þessu í fanginu og skimaði eftir undankomuleið að kössunum, því eins og allir vita eru nauðsynjavörurnar hafðar lengst inni í horni, svo hægt sé að freista ístöðulausra viðskiptavina sem mest.
Ég skipulagði útgönguleið, hélt niðri í mér andanum meðan þég hentist í gegnum bakarís-deildina, þar sem alltaf er verið að baka brauð, sem stendur rjúkandi og ilmandi á afgreiðsluborðinu, lokaði augunum þegar ég gekk fram hjá aukastandi með ostakökum í nágrenni mjólkurbúðarinnar, sem hafði verið settur algerlega í gangveginn, beygði til vinstri inn í gang með þvottadufti og hreinsilögsflöskum, helst hægt að komast þar í gegn án stórfreistinga. Strunsaði fram ganginn milli sérvöru og kvenfatadeildar, leit hvorki til hægri né vinstri, komin í deild bóka og geisladiska, aftur lét ég sem ég væri með hestahlífar á hausnum, fór í gegn án þess að skoða nokkuð og komst að kassanum með það sem ég hafði ætlað mér að kaupa. Þvílíkt afrek!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:50 e.h.




Powered by Blogger