Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, október 14, 2004 :::
 
Hæ,
Þá er Sigrún Sól búin að fá þriðju neitunina, þar sem beðið hefur verið um undanþágu fyrir hana í kennaraverkfallinu.
Ég veit ekki betur en skólaskylda sé bundin í lög hér á landi. Það er sem sagt verið að brjóta lög meðan börnin sækja ekki skóla. Hver er það sem brýtur lögin? Spyr sá sem ekki veit.
Það eina góða sem ég sé við þetta kennaraverkfall er að skattar mínir sem launþega hljóta að lækka, vegna þess að ég ásamt fleirum greiði m. a. laun kennara með sköttunum, sem eru teknir stundvíslega af laununum mínum á útborgunardegi hvers mánaðar. Hefur ríkisvaldið leyfi til að ráðstafa þessum peningum í einhvern annan málaflokk?
Ég ætla að leggja þá peninga, sem fjármálaráðherra borgar mér til baka vegna ofgreiddra skatta í kennaraverkfalli, í sjóð til styrktar fötluðum börnum - börnum, sem kerfisaumingjarnir njóta þess að níðast á.
Líklega verður þriðja beiðnin um undanþágu fyrir Sigrúnu Sól send til undanþágunefndar á morgun og fær að bíða umfjöllunar meðan líkamlega fullhraust fólk karpar fram og til baka um fundartíma, fundarsköp og formsatriði, kennir hinum aðilanum um og sendir hvort öðru tóninn í fjölmiðlum.
Við í fjölskyldunni höldum samt áfram að vera vonglöð og bjartsýn, bíðum næsta fundar nefndarinnar með bros á vör og verk í baki.
Kannske forlagadísirnar haldi einhvern tíma svo á málum að einhver í undanþágunefndinni eigi eftir að eignast fatlað barn.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 5:00 e.h.


mánudagur, október 11, 2004 :::
 
Hæ,
Nokkrar hugleiðingar í tilefni haustveðurs og sláturgerðar. Ég tók slátur um helgina, Palli og fjölskylda fengu að smakka nýlagaða lifrarpylsu á laugardagskvöldið, en það gekk aftur á móti verr að bjóða einhverjum í sjóðandi heitan blóðmörinn í gærkvöldi. Þeir/þær sem ég hringdi í afsökuðu sig á alla lund og gátu ómögulega komið. Síðast hálmstráið var Halla frænka, komin undir áttrætt. Okkur datt helst í hug að hún hefði lyst á nýjum blóðmör, en hún átti ekki heimangengt, var með matarboð fyrir stórfjölskylduna. Ekki af baki dottin.

SAKLAUS OG BLÁEYGÐUR
Hafið þið heyrt um Íslendinginn, sem fór til Spánar og kom til Sitges? Hann vissi ekki nafnið á borginni, en sagðist hafa komið í bæ, þar sem væri svo rosalega mikið af feðgum.
Ég er ekkert hissa á þessum viðbrögðum hans. Við vitum öll hvernig íslenskir feðgar eru, leiðast alltaf svo innilega og halda hvor utan um annan, þegar maður mætir þeim á förnum vegi, í Kringlunni, Smáralind og á Laugaveginum.

SPRENGJUSTAUR
Sturla samgönguráðherra var aldeilis heppinn að drepa ekki tug manna, þegar hann sprengdi síðasta haftið í Almannaskarði 13 mínútum fyrir áætlaðan tíma. Í útvarpi og Fréttablaðinu var fjallað um þennan atburð af miklum móð, rætt við hina og þessa, sem sögðu oft “ef “og “hefði” og fannst næstum súrt í broti að sprengingin skyldi ekki hafa víðtækari áhrif og að einhver skyldi ekki slasast eitthvað verulega. Þeir sem báru ábyrgð á sprengingunni drógu auðvitað úr öllu saman og sögðu að hvert mannsbarn vissi, að enginn mætti vera á ferð á sprengjusvæði hálftíma fyrir sprengingu. Ég vissi þetta ekki, en mun í framtíðinni haga mér samkvæmt þessu, ef menn muna eftir að skýra mér frá yfirvofandi sprengingum á förnum vegi.
Sturla er búinn að skipa nefnd til að kanna hvað fór úrskeiðis. Gaman væri að vita hverjir verða í nefndinni – sennilega nokkrir úrvalsvinir hans á fullum launum.
Ég þykist vita hvað fór úrskeiðis. Það var kokteillinn. Einhver asni í þjónaliðinu hefur hellt allt of snemma í glösin og útlit fyrir að vínið yrði flatt, ef bíða þyrfti í kortér. Þess vegna hefur verið gefin út sprengjutilskipun á stundinni og ekki nokkur maður leitt hugann að því að einhverjir óbreyttir væru svo samviskusamir að sinna störfum sínum við framkvæmd mannvirkisins alveg fram í sprengingu.
Það sem mér fannst eftirtektarvert í þessu var, að Mogginn minntist ekki á þetta, heldur birti glansmynd af Sturlu, þar sem hann ýtti á sprengjupinnann þrettán mínútum of snemma skælbrosandi og ótrúlega líflegur. Kannske hann ætti að skipta yfir í dýnamít-bransann?
Kunningjakona mín, sem vinnur í samgönguráðuneytinu, sagði að skipt hefði um þegar Sturla hefði komið í ráðuneytið og sest í stól fyrirrennara sína, Halldórs Blöndal, sem hefði verið ákaflega skemmtilegur og sífellt með stökur á takteinum. Nú væri öllu dauflegra þar. Hún kvaðst sakna Halldórs, en aðspurð hvað henni fyndist um Sturlu, sagði hún, að ágætt væri að vinna fyrir hann, en sér fyndist hann aftur á móti álíka spennandi og símastaur. Mér fannst þetta ágætis samlíking.
Er ekki við hæfi að símastaur stjórni samgöngumálunum?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 2:05 e.h.




Powered by Blogger