Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, september 04, 2009 :::
 
Hæ,
Ég er hef í áratugi horft á fréttamann, fréttaþul og þáttagerðarmann lesa fréttir, taka viðtöl, stjórna þáttum alltaf óaðfinnanlegur á skjánum allt í öllu með allt á hreinu. Nýlega skipti þessi maður um vinnu og hóf störf á nýjum vinnustað. Eftir örfárra mánaða setu á nýja staðnum mætti hann vel slompaður eða kannske bara blindfullur í vinnuna og hafði ekki þá dómgreind til að bera að sitja þegjandi og láta lítið fara fyrir sér svo ekki kæmist upp um hann, heldur stóð hann drafandi og þvoglumæltur frammi fyrir alþjóð, frammi fyrir þeim sem borga launin hans. Það er alltaf gott að vita í hvað peningarnir mann fara.
En sýnir þessi framkoma starfsmannsins ekki bara viðhorf hans til hins nýja vinnustaðar og þeirra sem reka þann stað?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:23 e.h.


fimmtudagur, september 03, 2009 :::
 
Hæ,
Engrar lágmarksmenntunar er krafist af alþingismönnum, þeir eru ekki einu sinni teknir í lestrar- og skriftarpróf, þannig að þeir geta svifið ólæsir og óskrifandi inn á þing, bara ef þeir hafa munninn fyrir neðan nefið og geta beitt talandanum til að blekkja kjósendur og náð það með í atkvæði þeirra.
Mér finnst að gera eigi kröfu um að þeir sem setjast inn á þing séu færir um að nota svar-takkann í tölvupóstkerfum af fullu öryggi, svo þjóðin þurfi ekki að vera vitni að þeim ótrúlega subbuskap sem vellur út úr tölvupósti þeirra þingmanna, sem ekki eru takkafærir. Ég tala ekki um þann tíma sem eytt er í skilgreiningu, rannsóknir, umræður og viðtöl eftir að hin slysalega opinberun á áliti þeirra á samstarfsfólkinu og öðrum aðilum hefur átt sér stað. Þann tíma mætti t.d. nota til að bjarga þjóðinni frá kreppunni, svo maður láti sér detta eitthvað þarfara í hug.
Gera má ráð fyrir að flestir þingmenn kunni á þennan takka, svo það er auðvelt að ímynda sér hversu mörg skeyti af þessu tagi hafa ekki komið fyrir augu almennings. Það má sem sagt leiða getum að því að þarna sé um að ræða vinnustað, þar sem allir eru tilbúnir að níða skóinn hver af öðrum, reka rýtinginn í bakið á næsta manni og vega að hróðri samstarfsfólksins því sem næst samviskulaust. Svo er bara hægt að segja "Úps! Alveg óvart!"
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:13 e.h.


miðvikudagur, september 02, 2009 :::
 
Hæ,
Það væri gaman að vita hvað löggan er lengi á staðinn og hversu hratt gengur fyrir sig athugun og rannsókn á málsatvikum þegar málningu er úðað í skjóli nætur á íbúðar- og bílskúrsveggi venjulegs fólks og skilið eftir eitthvert óskiljanlegt krass sem á að heita listaverk og sjálfskipaðir listfræðingar kalla tákn um innibyrgða þörf fyrir listræna tjáningu. Það er til venjulegt fólk, sem er svo óheppið að veggir á húsnæði þess liggja vel við úðun og hreinlega bjóða þessari niðurbældu listhneigð að brjótast úr viðjum og fá fulla útrás. Þetta venjulega fólk hefur þurft að leggja á sig mikið erfiði og fjárútlát til að hreinsa og halda veggjunum hreinum – og ekki bara einu sinni, heldur hvað eftir annað. Einu sinni var brotist inn í bílinn minn – löggan hafði engan áhuga á því máli, enda ég bara venjuleg kelling úti í bæ, ekkert forsíðuefni í Séð og Heyrt, og bíllinn hrikalega algeng tegund og nóg til að sams konar bílum. Mér var bara sagt að tala við tryggingarnar, mér var næstum því sagt að ég hefði hringt í skakkt númer, ég væri ekkert númer í þjóðfélaginu.
Því er spurt: Er lögreglan jafnfljót að spretta úr spori og koma málum í rannsóknarfarveg þegar um er að ræða veggjakrot - jafnvel síendurtekið - á húsveggi hjá venjulegu fólki og skemmdir á venjulegum bílum eins og þegar sprautað er málningu á hús eða bíla auðmannapakksins?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:18 f.h.




Powered by Blogger