Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, febrúar 05, 2004 :::
 
Hæ,
Mr. Do er í essinu sina þessa dagana. Honum tókst að klekkja á erkióvini sínum Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Mr. Do hefur greinilega ákveðið að gefa ÓRG langt nef síðustu mánuðina sem sá fyrrnefndi gegnir embætti forsætisráðherra. “Við skulum sniðganga hann á allan hátt”, æpir Bubbi kóngur, sem er að láta kórónuna af hendi og stíga til hliðar. Skyldi hann sjá eftir því að hafa samþykkt að láta veldissprotann af hendi og vill þá að ÓRG fari með honum út í horn?
Mr. Do skortir heldur ekki meðreiðarsveina í þessa sendiför. Svo til allur Sjálfstæðisflokkurinn tekur undir fúkyrðin og þykist ekkert skilja í því að forseti lýðveldisins skuli vera í fýlu. Þeir ættu nú samt að skilja slíkt manna best, vegna þess að ráðamenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið í samfelldri og stækri fýlu út í ÓRG og forsetaembættið allt hátt í átta ár. Þeir vita nefnilega að sennilega kemur seint að því að fulltrúi þeirra flokks verði valinn til að gegna forsetaembættinu og þess vegna veit Davíð að ekkert þýðir fyrir hann að bjóða sig fram til forseta. Hann veit að þjóðin vill hann ekki. Fulltrúar sjálfstæðisflokksmaskínunnar hafa í hvert skiptið af öðru beðið ósigur fyrir fulltrúum vinstri afla í forsetakjöri – síðast fyrir fulltrúa allaballanna, sem heillaði næstum hverja kerlingu upp úr skónum í kosningabaráttunni. Ótrúlegt – en satt.
Rök sjálfstæðismanna í umræðunum undanfarna daga eru sum hver alveg dásamleg. Bæjarstjórinn á Ísafirði sagði í viðtali að ekki hefði staðið til að bjóða forsetanum í fyrirmannaveisluna þar, sem kostaði víst ekkert smáræði, vegna þess að forsetaembættið hefði ekki komið til fyrr en 40 árum eftir heimastjórn og því tengdist það ekki þessum atburði. Hvers vegna voru þá fulltrúar ríkisstjórnarinnar boðnir? Það var engin ríkisstjórn til þá, bara einn ráðherra. Hvers vegna var þá forseti, meðlimir ríkisstjórnar og fulltrúar annarra stofnana viðstaddir hátíð í tilefni 1100 afmælis byggðar á Íslandi, kristnitöku og annað í þeim dúr? Ísfirski bæjarstjórinn er greinlega með einhverja íhaldsstíflu í hausnum. Hefði ekki verið við hæfi að bjóða forsetanum til síns fæðingarbæjar til að taka þátt í hátíðahöldunum?
Hitt er svo stór þáttur í þessu máli að hér hafa ÓRG og hans menn misreiknað sig herfilega. Ég tek undir með Halldóri Blöndal – þótt ég sé ekki vön að vera honum sammála: Forsetinn mátti vita að haldinn yrði ríkisráðsfundur. Já, víst mátti forsetinn vita að sjálfstæðisklíkan sæti um að niðurlægja hann og gera lítið úr honum. Þeir hafa reynt að nota forsetann eins lítið og þeir hafa komist af með, beðið átekta, ekki aðhafst og þegar þjóðin heldur að allt sé fallið í ljúfa löð og að ráðamenn Íslenska lýðveldisins séu allir góðir vinir, er gerð atlaga úr launsátri. Forsetinn mátti vita að íhaldskurfarnir brynnu í skinninu eftir að stjórna ríkisráðsfundi, þó ekki væri nema í sjö mínútur, bara einu sinni. Þess vegna átti forsetinn og hans menn að vera á verði og ekki láta Mr. Do og hans pótintáta koma svona hrikalega aftan að sér.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 10:56 f.h.




Powered by Blogger