Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, febrúar 08, 2005 :::
 
Hæ,
Bollludagurinn liðinn. Ég ætlaði ekki að borða neina bollu, en borðaði bollur á laugardaginn, sunnudaginn, bolludaginn og sprengidaginn, sem er í dag. Setti lokapunktinn á bolluátið - vonandi - er ég fékk mér eina bollu á eftir saltkjöti og baunum. Ljúffengt, en e.t.v. ekki svo hollt. Öskudagssælgæti á morgun. Ég er að fara að kaupa sælgætið sem við úthlutum til syngjandi krakka, sem mættu mörg hver vera lagvissari – vísa að öðru leyti til pistils míns frá síðasta öskudegi.
Ég er alveg föst í að horfa á Idol. Mér fannst síðasti þáttur alveg einstaklega skemmtilegur. Krakkarnir stóðu sig öll einkar vel, voru hvert öðru betra og sum komu mjög á óvart með frammistöðu sem stakk mjög í stúf við fyrri atriði. Það voru allir í banastuði, bærði kynnar, keppendur og dómnefnd. Sungin lög frá Keflavík, hvert öðru fallegra og það verður seint af þeim Keflvíkingum tekið, að þaðan hafa komið mörg af fallegustu og skemmtilegustu dægurlögum landsins.
Rúnar Júl var gestadómari, með gríðarstóra gítarnælu í jakkabarminum, flottur í tauinu og mér þótti vænt um að hann er búinn að læra að tala – liklega í þriðja sinn. Ég man að ég sá hann í sjónvarpsþætti þegar ég var nýkomin heim frá námi erlendis upp úr 1970 og var þá öll í málhreinsunar- og hreintungustefnunni. Hann var þar með þeim bræðrum Kalla og Sigurjóni Sighvatssonum. Sigurjón var eini maðurinn í þættinum, sem gat stunið upp úr sér meira en tveim orðum í samhengi svo skiljanlegt væri. Sigurjón var vel mæltur og skýr, Kalli sagði ekkert, hefur ábyggilega verið í hassvímu, og Rúni Júl reyndi að vísu að svara spurningum um popp- og hljómsveitarmenningu, en kom bara upp einsatkvæðisstunum, sem minntu einna helst á hljóð frummannsins. Ég veit ekki hvernig þessi þáttur hefði verið ef Sigurjón hefði ekki verið þar til að svara fyrir þá þrjá. Þar kom fram að hann var samhliða veru sinni í popphljómsveitum og þátttöku í skemmtanalífi borgarinnar í Kennaraskólanum og sú vist hefur örugglega bjargað honum frá ýmsu slæmu, enda er hann núna stórframleiðandi í Hollywood og eigandi heilla héraða og stórfyrirtækja hér á landi, en Kalli er genginn fyrir ætternisstapa og Rúni Júl enn í Keflavík.
Mörgum árum seinna sá ég Rúna Rúl í sjónvarpsþætti, þar sem hann sagði hreinskilnislega frá sínum hljómlistarferli og einkalífi og þótti mér honum hafa farið verulega fram í íslensku enda tókst honum vel upp þar. Og nú virðist hann hafa lært að tala íslensku í þriðja skipti, enda auglýsir hann það í sjónvarpsauglýsingum fyrir Reykjalund alveg villt og galið kvöld eftir kvöld. Sem sagt einn þeirra, sem hefur kíkt yfir í hina eilífu sælu, en ekki sóst eftir vist þar á bæ.
Það komu margar hnyttnar athugasemdir frá dómnefndinni, svo ég snúi mér aftur að Idol og láti af að segja þroskasögu Rúna Júl, sem ég þekki hvorki haus né sporð á. En mér fannst hann flottur í þættinum og setja á hann skemmtilegan svip.
Bubbi er miklu mildari í ár heldur en í fyrra og skapbetri, sérstaklega í síðasta þætti og var þá greinilega nýbúinn að fá það, á svipinn eins og köttur, sem komist hefur í rjómaskál. Hann hældi öllum stelpunum á hvert reipi, sagði þær afar kynþokkafullar og fallegar og mændi á þær eins og ástsjúkur unglingur áður en hann gat komið upp nokkru orði. Kannske Brynja hafi haft svona slæm áhrif á hann? Skilinn eða ekki skilinn eða jafnvel misskilinn – mér finnst gaman að Bubba. Þekki hann samt álíka mikið og Rúna Júl.
Þorvaldur og Sigga eru fín, engir trúðastælar þar. Þekki þau ekkert. Þekki Jóa og Simma ekkert, en finnst stundum bara gaman að hlusta á þá. Mér fannst aftur á móti pabbi hans Simma algert æði fyrir rúmum 40 árum, en er ekki jafn snortin í dag, enda maðurinn 40 kílóum þyngri.
Idol er minn þáttur um þesar mundir og mér finnst skítt að RUV skuli ekki vera með eitthvað sams konar fyrir Eurovision í staðinn fyrir að þröngva upp á mann Myrkva(Styrkja)höfðingjanum sunnudagskvöld eftir sunnudagskvöld.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 5:48 e.h.




Powered by Blogger