Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, ágúst 27, 2003 :::
 
Hæ,
Við hjónin erum að fara í sumarbústað á Flúðum í eigu Kennarasambands Íslands á föstudaginn kemur, þ. e. 29. ágúst og verðum þar um helgina. Heitur pottur, grill og ég veit ekki hvað. Bústaðurinn er í Ásabyggð og er nr. 39.
Allir velkomnir sem vilja. Látið endilega sjá ykkur.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:02 e.h.


 
Hæ,
Ég fór í Bónus í fyrradag, þar sem ég held líklega hálfum starfsmanni uppi með innkaupum mínum. Ég undrast alltaf að Bónus-feðgar og vinkonur þeirra í það og það skiptið skuli ekki einhvern tíma standa í dyrunum og segja: "Sæl og blessuð Bergþóra, ástkæri viðskiptavinur, sem borgar laun hálfs starfsmanns hjá okkur, að vísu án launatengdra gjalda. Vertu ævinlega velkomin! Vegna tryggðar þinnar við verslanir okkar bjóðum við þér að að fylla innkaupakörfu að vild í dag án þess að greiða krónu fyrir." Ekkert slíkt hefur enn gerst.
Oft rifja ég upp í huganum þau ár sem ég verslaði í Hagkaup. Sex manna heimili og launin mín runnu í áratug óskert til Hagkaups-fjölskyldunnar, sem lifir bara góðu lífi í dag og hefur engar taugar til sinna gömlu, góðu kúnna. Þá hélt ég uppi a.m.k. einum starfsmanni og greiddi af honum launatengd gjöld og allan kostnað. Þar var samt heldur ekki tekið á móti mér sem kostagesti og hvítum hesti, heldur varð maður að hafa sig allan við að láta ekki svindla á sér. Hversu oft stóð ég ekki með grimmmdarsvip og fylgist með öllum innslætti á kassann, áður en farið var að skanna verðið á vörunum. Hversu oft kom ég ekki með athugasemd um að ekki hefði rétt verð verið slegið inn í kassann. Einn daginn gáfu þeir í Hagkaup skít í mig og mín laun og breyttu búðunum í Nýkaup, hækkuðu verðið upp úr öllu valdi og fjarlægðu úr búðunum ýmsar vörur sem ég var vön að kaupa og neyta. Vörur á tilboði inni í búð kostuðu fullt verð á kassanum og ég þurfti að standa í þvargi við misviturt og misáhugasamt afgreiðslufólk til að fá leiðréttingu mála. Hvað gat ég gert? Ég gaf skít í Hagkaup og Nýkaup og allt þeirra vafstur og sneri mér til annarra verslana. Ég hef ekki snúið til þeirra aftur og verður bið á því.
Nú versla ég nær eingöngu í Bónus og stend mig að því að vera aftur farin að bíða eftir því að einhver búðareigandi þakki mér persónulega fyrir að styrkja hann og hans verslunarumsvif.
Svo ég snúi aftur að upphafinu eftir þennan útúrdúr, var ég sem sagt stödd í Bónus við kassann með tíu kíló af sykri í krækiberjasaft í körfunni, þegar mér verður litið til hliðar, þar sem standa tveir krúnurakaðir Búddha-munkar í dimmappelsínu-gulum kuflum og leðurbandaskóm. Það var svo sem ekkert út á þetta að setja, nema annar munkanna var í svörtum sokkum, sem kuðluðust um ökklana og skein í beran legginn milli sokka og kufls. Hinn var í grábláum ullarsokkum það háum að ekki sást í bert á milli, en var í drapplituðum rykfrakka yfir kuflinum. Mér alveg blöskraði. Mér fannst þetta ekki nógu smart. Mér finnst flott að vera berfættur í bandaskóm við munkakuflinn, en sokkarnir fóru alveg með heildarsvipinn. og frakkinn féll ekki að þeirri mynd, sem Búddha-munkar skapa í mínum huga.
Þá datt mér allt í einu í hug hvernig munkarnir myndu skoða mig, ef svo ólíklega vildi til að þeir hefðu skotrað auga til mín. Fullorðin kona í svörtu pilsi og dökkbláum jakka, sem er ábyggilega 30 ára gamall. Ég veit ekki sjálf hversu gamall hann er, því ég fékk hann í arf eftir gamla konu, sem lést fyrir sex árum. Einn af þessum sígildu blazer-jökkum, sem alltaf ganga. En passar svart og dökkblátt saman? Mér til afsökunar má segja að jakkinn lítur næstum út fyrir að vera svartur, a.m.k. í lélegri birtu. Skær neonbleikur bolur, sem strengist yfir björgunarhringinn, sem hefur fest sér lögheimili yfir mig miðja. Svartir skór, sem mætti bursta, annar skórinn of þröngur yfir ristina. Sokkabuxur óaðfinnanlegar, enda dýrasta tegund úr Bónus. Skartgripir einnig hafnir yfir vafa - að mestu leyti. Plús fyrir mig. Hárgreiðsla úr skorðum, ef hægt er að tala um hárgreiðslu, varalitur enginn, málning í andliti farin að trosna eftir vinnudaginn. Hörkuleg og gribbuleg á svipinn með stress-áruna lýsandi í allar áttir. Aftur í mínus. Tíu kíló af sykri, mjólkurferna, skyrdós, rjómaferna og tómatapoki í kerrunni. Hvað skyldu þeir halda um þessa undarlegu konu? Að hún nærist á sykri svo til eingöngu? Ég gat ekki hugsað þá hugsun til enda.
Á leið minni úr Bónus keyrði ég fram hjá munkunum tveimur gangandi í blíðunni, þar sem leið liggur yfir grasflötina niður að Kópavogslæknum, rólegir og yfirvegaðir með allt annað í huga en konuna, sem stóð við hlið þeirra í Bónus stundarkorni áður.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:57 e.h.


mánudagur, ágúst 25, 2003 :::
 
Hæ,
Ég er mætt til bloggs á ný í sól og sumaryl eftir góða helgi. Ég dressaði mig upp í morgun, í sumarpils, léttan jakka og bandaskó – sommergarderoben!

ÚT ÚR BÆNUM
Við fórum til Akureyrar um helgina. Keyrðum norður á föstudaginn í yndislegu veðri með viðkomu á nokkrum stöðum til berjatínslu. Mest varð uppskeran í Vatnsskarði. Þar mokuðum við upp berjum, léttklædd í sólarhitanum. Mamma tók á móti okkur með kjötsúpu – kjöt úr Holti – feitt og ljúffengt. Við fórum svo suður í gærdag eftir að hafa étið á Bautanum í boði mömmu. Við höfðum viðkomu í Vatnsskarði til að tína meira af berjum, en ákváðum að hverfa þaðan þegar fór að rigna fyrir alvöru. Keyrðum sem leið lá og stönsuðum hjá Selmu og Helga í Öxl í Vatnsdal. Þar sitja þau að höfðingjasið og horfa yfir héruð út um stofu- og eldhúsglugga. Viðtökurnar voru líka að hætti höfðingja – grænt te, speltbrauð og gómsætir ostar, svo lifandi sumir hverjir að þeir skriðu næstum sjálfir um borðið. Við héldum áfram keyrslunni í vatnsveðri. Gærdagurinn tengist vatni. Fyrsta verk okkar þegar við komum heim var að mæla berjatekjuna – okkur sýndist þetta vera um 45 lítrar af berjum, sem tínd voru í Vatnsskarði, Víkunum og á Hesjuvallaklöppunum. Eyjó tíndi bróðurpartinn. Nú liggur fyrir að safta og sulta.

GUÐMUNDUR MANNASÆTTIR
Mér finnst Guðmundur Steingrímsson æðislega skemmtilegur og fyndinn. Ég reyni alltaf að hlusta á pistlana hans í útvarpinu og les dálkinn hans í Fréttablaðinu. Guðmundur segist tilbúinn að taka að sér embætti hæstaréttardómara. Hann ætlar sér að vera í dómaraskikkjunni alla daga og sætta menn í hávaðarifrildi hvar sem er, miðla málum, Guðmundur mannasættir myndi færa dómsvaldið út til fólksins. Hann sagðist jafnvel mundu vera í skikkjunni þegar hann færi út að kaupa kókómjólk. Hugsið ykkur hvað væri gaman að mæta honum í Bónus í Harry Potter skikkju með kassa af kókómjólk í fanginu og taka hann tali. Veit einhver hvort Guðmundur Steingrímsson bloggar og hvaða bloggfang hann er með?
Hvers vegna skipaði dómsmálaráðherrann ekki Guðmund Steingrímsson, fyndinn og frumlegan náunga, í embættið í staðinn fyrir einhvern dreifbýlislúser, sem enginn hefur heyrt minnst á og enginn veit til að hafi nokkurn tíma sagt brandara eða gert nokkuð af viti, nema þá að fæðast inn í ætt forsætisráðherra, ef það er þá vitlegt? Ofan á öllu saman trónir fyrirlitleg önnur einkunn á embættisprófi, sem sæmir ekki hæstaréttardómara. Þegar dómsmálaráðherra var spurður, hvort hann hefði ráðfært sig við lögfróða menn við valið á nýja dómaranum, varð hann eins og véfrétt í framan og kvaðst hafa ráðfært sig við sérfróðan aðila. Mér fannst skína af öllu hans fasi, að það var hinn djúpvitri og ráðagóði Hannes, sérfræðingur íhaldsráðherranna í öllu mögulegu, sem ráðherrann ráðfærði sig við. Svo reyndi ráherrann að brosa til þjóðarinnar, en það mistókst hjá honum. Þjóðin yggldi sig á móti, nema Jón Steinar, sem líst afar vel á nýja dómarann. Þarf vitnanna við?
Guðmundur Steingrímsson myndi hleypa lífi í starfsemi Hæstaréttar Íslands. Hann myndi kveða upp sanngjarna og réttláta dóma, dansandi í dómaraskikkjunni með dragspilið. Allir almennilegir afbrotamenn myndu sækjast eftir því að láta Guðmund dæma sig í stað þess húmorlausa liðs sem húkir í Hæstarétti. Almenningur myndi þyrpast að í hópum til að klappa og hrópa húrra fyrir dómum Guðmundar. En þetta fáum við ekki að upplifa, heldur sitjum uppi með ÓB – ódýrt bensín.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:38 e.h.




Powered by Blogger