föstudagur, janúar 26, 2007 :::
Hæ,
Ég sá nýja sérfræðinginn í meltingarfærasjúkdómum í Kastljósinu í fyrradag. Jónína Ben hefur fundið sér nýja og skemmtilega fræðigrein, sem er ristillinn. Hún virðist orðin sérmenntuð og útskrifuð í ristilhreingerningu og jafnvel doktor, kannske heiðursdoktor, í greininni. Hún er búin að vera í Póllandi og búin að láta skafa og skola öll spörð og gamla klepra út úr ristlinum á sér. Síðan numið spekina og aðferðafræðina á heilsuhælum þar í landi, enda skrýdd fögrum skartgripum,sem ég gat ekki betur séð en væru í hinum gamla austantjaldssmekk, sem á þeim tíma þótti púkó í hinum frjálsa heimi, en eftir að járntjaldið féll hefur allt hallærislega byltingardraslið færst upp í hátísku.
Jónína er eindreginn talsmaður þess að ristillinn sé hreinsaður í fólki, enda hefði maður ekkert að gera með að dragnast um með fleiri kíló af skít í farteskinu. Hún kunni greinilega margar mergjaðar sögur af yfirfullum ristlum, útbólgnum af kúk, og þar af leiðandi hræðilegum afleiðingum, banvænum sjúkdómum og þaðan af verra fyrir viðkomandi. Hún var með svör á reiðum höndum við öllum spurningum þáttastjórnandans og athugasemdum meltingarsérfræðingsins, sem kallaður hafði verið til að andmæla henni. Sá var yfirmáta rólegur, bara brosti og lét fara vel um sig í stólnum. Nennti ekki einu sinni að standa í fjálglegum umræðum um þetta líffæri, sem hefur ekki þótt við hæfi að taka fyrir í smáatriðum í kaffisamsætum og matarboðum. Jónínu var alveg sama um það, þá fékk hún bara að tala meira, enda var hún stútfullur viskubrunnur þegar að þessu líffæri og hreingerningu á því kom og lét mörg fróðleikskorn falla í umræðunni. En henni brást alveg bogalistin þegar hún sagði að 60 kíló af hægðum hefðu verið í ristlinum á Elvis Presley þegar hann dó - saddur lífdaga.
Það passar ekki vegna þess að Elvis lifir!
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 1:00 e.h.