Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, júlí 16, 2004 :::
 
Hæ,
Í gærkvöldi þeytti ég tæplega fjóra desilítra af rjóma í nýju KitchenAid hrærivélinni minni. Ég horfði spennt niður í stálskálina þegar kröftugur þeytarinn byrjaði að snúast á fullum hraða í þessari litlu rjómalögg og hugleiddi hvort þetta væri of lítið magn fyrir þetta nýjasta heimilistæki, hvort þeytarinn næði niður í sopann, sem virtist rétt hylja skálarbotninn. En áhyggjur voru óþarfar því innan stundar fór rjóminn að þykkna.
Meðan ég horfði á þeytarann fara hring eftir hring og þeyta rjómann, flugu ýmsar hugsanir gegnum hugann. Mín fyrsta hrærivél, nei ekkert sem við fengum í brúðargjöf, heldur einmitt vélin, sem var að störfum á þesu augnabliki. Í brúðargjöf fengum við handþeytara af Philips-gerð, sem gagnaðist afskaplega vel um margra ára skeið þar til hann gafst allt í einu upp þegar verið var að undirbúa komu afmælisgesta. Síðan hafa nokkrir slíkir verið til á heimilinu og þrátt fyrir að engin KitchenAid eða Kenwood væri til staðar, hefur það ekki komið í veg fyrir bakstur afmælis-, skírnar- og brúðkaupsterta, rjómaísgerð, kæfugerð, fiski- og kjötbollugerð, bollu- og brauðbakstur, svo fátt eitt sé nefnt.
Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór að baka vatnsdeigsbollur i fyrsta skipti í minni húsmóðurtíð og dró fram nýjustu útgáfuna af Helgu Sigurðardóttur, sem ég fór og keypti um leið og við fluttum inn í fyrstu íbúðina okkar, þar sem ég var sannfærð um að þetta væri hin þarfasta heimilisbiblía og ekki væri hægt að vera án þessarar gagnlegu bókar. Í vatnsdeigsuppskriftinni er talið upp hvernig hráefnum er blandað saman, í hvaða röð og hvernig og þegar allt er komið í ílátið kemur setning, sem ég hef aldrei getað gleymt og er sem meitluð í huga mér: “Hrærið viðstöðulaust í 20 mínútur í höndunum, en skemur í hrærivél.” Hversu skemur? Mér hefur alltaf fundist að þetta skemur gæti verið svona kortér í vatnsdeigsbollunum. Skyldi Helga Sigurðardóttir ekki hafa átt hrærivél? Ætli hún hafi matbúið hátt í 600 blaðsíður af mataruppskriftum og hrært viðstöðulaust í höndunum einum saman tímunum saman? Ég get ekki einu sinni þeytt í eina mínútur í höndunum og hef aldrei getað. Ég hef ekki þolinmæði til að standa með handþeytara í kortér. Hávaðinn í honum er búinn að æra mig löngu áður en sá tími er liðinn.
Ég minnist míns mesta afreks í matargerðarlist. Það er 7. nóvember 1970 á stúdentagarði í Moskvu. Byltingarafmælið. Hátíð. Allir eru að undirbúa veislu, stúdentar safnast saman og skemmta sér. Við erum önnum kafin við undirbúning, þegar allt í einu er bankað hjá okkur og frammi stendur Tolja, strákur í líffræðinámi, sem býr á sömu hæð og spyr hvort við búum svo vel að eiga majones. Hann og kærastan hans, hávaxin og grönn með koparrautt lokkaflóð, eru búin að bjóða bekkjarfélögum sínum til teitis, ekkert majones er til í háskólabúðinni, enda lítið eftir af því litla vöruúrvali sem þar er. Nei, við eigum því miður ekkert af því tagi og raunamæddur fer Tolja að rekja majonesraunir sínar fyrir okkur. “Eigið þið matarolíu og egg”, spyr ég. Hann segir að svo hljóti að vera. “Ég skal búa til majones fyrir ykkur”, býð ég, gríp Philipsþeytara hinn fyrsta og fylgi Tolja, afar vantrúuðum, til hans heima, þar sem stórveisla er greinilega að renna upp.
Sú rauðhærða horfir á mig eins og ég sé snarvitlaus, en lætur mér hráefni og skál í té. Ég set gripinn góða í gang, sem fylgdi mér til Rússlands og aftur til Íslands, og hef majones-gerðina, hræri eggin og læt einn og einn dropa af matarolíu drjúpa út í. Rauða lokkadísin, Tolja, gestir og nágrannar safnast í kringum mig og fylgjast með eins og um virkilega spennu- og átakamynd sé að ræða. Ekkert þeirra hafði nokkru sinni heyrt að hægt væri að búa til majones. Héldu þau að það yrði til í  krukkunum? “Gerið svo vel, majones,” segi ég, þegar verkinu er lokið.
Viðstaddir eiga ekki orð yfir þetta töfrabragð mitt, þau hefðu vart orðið meira undrandi, þótt ég hefði breytt banana í lifandi frosk á staðnum, nema kannske ef ég hefði breytt lifandi froski, eða bara hverju sem var í banana, því þeir sáust ekki í verslunum í Sovét á þessum árum.
Getur verið að einhver úr þessum hópi segi stundum. “Munið þið ekki eftir mjóu, útlendu stelpunni, sem bjó til majonesið fyrir partýið hjá okkur?”
Ég hrekk upp frá þessum hugsunum. Nýja hrærivélin mín bregst ekki vonum. Rjóminn er þeyttur.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:45 e.h.


fimmtudagur, júlí 15, 2004 :::
 
Hæ,
Ég sem hélt að enginn læsi bloggið mitt nema nánustu aðstandendur og Þóra Þorsteins, en hef nú fengið sönnun þess - og það fleiri en eina - að ég á fleiri lesendur en þessa sauðtryggu vini og vandamenn. Ekki nóg með það heldur hef ég fundið út að bloggið mitt er lesið globalt, ef svo mætti segja og það sem meira er: Mínar hugmyndir eru teknar traustataki og notaðar í fjölmiðlum. Ekki bara hér innanlands, heldur og erlendis, meira að segja í Ameríku.
1. dæmi: Í pistli mínum þann 16. september sl. sló ég fram þeirri frumlegu hugmynd að einhleypt fólk gæti gift sig án þess að maki væri til staðar. Sagði m.a. að þetta væri fínt fyrir einhleypinga, sem vildi skipta um skrautmuni og leirtau að bjóða til giftingarveislu og vera með óskalista í verslununum Tékk-kristall og Borð fyrir tvo. Tilbreyting í munka- og nunnulífinu að vera með brúðkaup í klausturstíl. Nýtt heimili - einn einstaklingur ánægður.
Líða svo nokkrir mánuðir og ég sit í mesta grandvaraleysi – eins og kellingin sagði – heima hjá mér og horfi á einn af mínum eftirlætisþáttum: Beðmál í borginni. Það er svo gaman fyrir úthverfa- og nástrandarfólk að fylgjast með unaði borgarlífsins. Carrie Bradshaw varð fyrir því óláni að skónum hennar var stolið í teiti heima hjá kunningjum hennar, sem vildu ekki og nenntu ekki gera neitt í málinu og höfðu engan skilning á því hversu mikið tjón er að tapa módel-skóm. Ekki það að Carrie ætti ekki fleiri skó til að sporta sig í, en eftir árangurslausar tilraunir til að endurheimta skóna hringir hún í hina ábyrgðarlausu kunningja og segist ætla að gifta sig – ein – og gjafalistinn sé í skóbúð í miðborg New York. Á listanum var aðeins ein ósk, sams konar skór og þeir sem stolið var. Mig minnir að þeir hafa kostað 450 dollara, sem er í dag 31.991 kr. en ekki man ég gengið þegar þátturinn var sýndur. Þannig fékk Carrie skóna aftur. Mín hugmynd!
2. dæmi: Aftur líður góður tími og loks rennur upp 2. júlí. Þar fjalla ég um afar hagkvæma og fyrirhafnarlitla leið til að lækka matarreikninginn verulega á vorin og fram eftir sumri. Ekki hef ég fengið mikið á ánægjuviðbrögðum hjá fóki, sem hefur streymt út til að tína fífla í matinn. Enginn hringt í mig og þakkað mér þessa frábæru og kostnaðarlækkandi hugmynd, sem er að vísu ekki fyllilega mín. Fyrr en í Kastljósi í gærkvöldi – þar geysast allt í einu tvær valkyrjur fram á völlinn með villtar jurtir í bastkörfu og ferðaprímus og byrja að steikja fíflakrónur, sem velt hefur verið upp úr hveiti, salti og pipar, ofan í þáttastjórnanda. Í fyrstu sat hann hrelldur hjá og ætlaði varla að þora að setja ógeðið upp í sig, en hefur sjálfsagt ekki getað frægðarinnar vegna neitað að setja slíkt inn fyrir sínar varir. Hann kyngdi þrisvar, tók Stinna stuð sér til fyrirmyndar, var tilbúinn að gera allt fyrir frægðina, nema að koma nakinn fram, tuggði fíflakrónunar af bestu lyst og smjattaði ákaft í beinni.
Ég efast ekki um að hægt sé að finna miklu fleiri dæmi um mín gullkorn á þessum vettvangi, en ég er bara svo lítið í tengslum við fjölmiðlana. Þeir eru eitthvað svo markaðsráðandi.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:41 e.h.




Powered by Blogger