Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, ágúst 31, 2004 :::
 
Hæ,
ÞRÁIR KULDANN
Allt í einu breyttist veðrið, óskiljanlegt að allt í einu geti skollið á rigning og hávaðarok eftir lognið og sólarylinn, sem flestir virtust njóta til hins ýtrasta, nema Íslendingurinn, sem var nýfluttur á skerið eftir margra ára búsetu við hærra hitastig en við eigum að venjast. Hann var grautfúll yfir því að geta ekki gengið um í flíspeysu allan daginn, bæði úti og inni eins og hann hafði hlakkað þessi ósköp til, hann var þjáður af skapillsku yfir því að þurfa að vera kófsveittur í stuttbuxum og ermalausri skyrtu hér heima, hitastigið hér hefði varla farið yfir 18 gráður á þeim árum, sem hann gekk um allan ársins hring í föðurlandi í sínu föðurlandi.
CITIUS – ALTIUS - FORTIUS
Nú er búið að slíta Olympíuleikunum, þeir virtust bara ganga nokkuð vel og margir keppendur og þeirra aðstoðarmenn býsna ánægðir með sig. Þegar þátttakendur gengu inn á leikvanginn við setningu leikanna, sá ég nokkra vera að spjalla í farsíma. Ég var að hugleiða hvað þeir hefðu verið að segja:
“Nei, ég er ekki að gera neitt sérstakt í augnablikinu, alveg fastur hérna, við getum spjallað næstu klukkustundirnar.”
“Mamma, mér er alveg sama þótt þér finnist ég púkalega klæddur. Við eigum öll að vera svona!”
“Ertu með sjónvarpið opið?”
Aldrei hægt að sleppa gemsanum, hvað sem á gengur. Mikið að keppendur skyldu ekki vera með gemsann klemmdan á sig í keppni. Öskra í hann: “Ég er fyrstur!" En líklega hefur hann fengið að liggja í íþróttatöskunni rétt á meðan met voru sett. Sjálfsagt hafa einhverjir hringt heim og út í heim og tilkynnt um góðan árangur eða lélega frammistöðu á milli þess sem þeir stukku upp úr startholunum, settu met eða töpuðu. Það er áreiðanlega gott að geta hringt beint í áfallahjálpina eftir að hafa glutrað niður Olympíugullinu.
ALLTAF Í PÍPULÖGNINNI
Sjaldan er ein báran stök. Nýlega flaug af mér eitt af afmælisarmböndunum er ég var að athafna mig á baðinu og beint ofan í klósettið – ekki búið að sturta niður eftir númer eitt.
Pípulagningameistaragenin í mér fóru kollhnís af gleði yfir þessu verðuga verkefni, sem barst óvænt upp í hendurnar á mér. Ég fór fram í eldhús og náði í rautt sogrör frá því ég vann síðasta björgunarafrekið á skartgripunum mínum. Nei, nei, allir slaki á, ég notaði það ekki til að sjúga! Ég stakk því niður í klósettið og fiskaði armbandið fimlega upp með hægri hendi og greip sterklega um það með þeirri vinstri, gúmmíhanskaklæddri auðvitað, svo viðkvæmir þurfa ekki að hrylla sig nema stutta stund, og hóf síðan sótthreinsun.
Mér líst ekki á hvað skartgripirnir mínir sækja í holræsin.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 4:35 e.h.




Powered by Blogger