Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, október 01, 2004 :::
 
Hæ,
Á langri ævi hef ég verið einlægur stuðningsmaður þeirra sem hafa sótt rétt sinn af einurð og sanngirni. Ég hef stutt ýmsar stéttir í ótal boðaföllum, verið ákafur talsmaður hinna vinnandi stétta og varla látið mig vanta í mótmælastöður við Alþingishúsið og ráðuneytin um áratuga skeið. Hafi ég heyrt auglýst að til stæðu mótmæli gegn kjararáni og óréttlæti hef ég ýmist sett hlífina á ritvélina, slökkt á tölvunni eða tekið af mér svuntuna og skundað á Þingvöll til að sýna lítilmagnanum stuðning og berjast fyrir bættum lífskjörum hans. Ég hef talað mig hása og óvinsæla í heitum stuðningi við stéttir, sem hafa gert verkfall trekk í trekk til að gera sannkallaða eymdarsamninga. Þeir eymdarsamningar hafa oft þegar upp er staðið ekki skilað neinu í vasa fólksins, sem lagði á sig að leggja niður störf um lengri eða skemmri tíma og herða sultarólina.
Ég hef talað máli kennara, framhaldsskólakennara, leikskólakennara, sjúkraþjálfara, þroskaþjálfa, sjúkraliða og ræstingafólks, svo eitthvað sé nefnt. Aftur á móti hefur samúð mín verið af afar skornum skammti, þegar flugmenn, flugumferðastjórar, yfirlæknar, alþingismenn og ráðherrar hafa sett sína kjarasírenu í gang. Fögnuður minn hefur einnig verið mjög takmarkaður þegar þeir hafa fengið úrbætur án mikillar fyrirhafnar.
Allt í einu ber svo við að ég ber ekki lengur í brjósti samúð með þeirri stétt sem nú reynir að skekja þjóðfélagið með verkfalli og virðist að sumu leyti ekki hafa erindi sem erfiði. Málflutningur þeirra nær ekki inn að samúðartaugum mínum, annað hvort er hið fyrrnefnda slakt eða hið síðarnefnda orðið sér úti um góða einangrun.
Ég hef heldur ekki samúð með foreldrum skólabarna, vegna þess að þeir hafa mestar áhyggjur af því hvað á að gera við litlu börnin á vinnutíma. Skólinn er í þeirra augum geymsla fyrir börnin. Mjög fáir foreldrar hafa lýst yfir áhyggjum vegna þess að börnin missi úr kennslu.
Hvað skyldi valda því að samúðarbrunnar mínir eru þurrausnir í kennaraverkfallinu? Ég vil sterka skóla, sem ríkið stendur undir fjárhagslega, en að hvert sveitarfélag hafi sterk ítök í rekstri síns skóla. Ég vil vel menntaða kennara, uppalendur og skólastjórnendur, sem eru börnunum fyrirmyndir og félagar. Ég vil skóla, þar sem kennarar bera virðingu fyrir börnunum og innræta þeim virðingu fyrir umhverfi sínu Ég vil heilsteypta námsskrá, bóklegt nám, sem byggist bæði á klassík og hinum líðandi degi, traust og markvisst verknám. Ég vil skóla, þar sem kennararnir ganga æðsta skólastjórnanda næst, þar sem ótal sérfræðingar eru settir undir kennarana í goggunarröðinni. Ég vil kennara, sem hvetja nemendur sína til að setja sér háleit og metnaðarfull markmið. Ég vil skóla, sem heldur fast utan um sinn nemendahóp og er honum heimili á dagvinnutíma foreldra og forráðamanna. Ég vil skóla sem gerir kröfur til kennara sinna og að kennarar geri kröfur til sín, til skólans og nemenda sinna.
Ég vil skóla, þar sem sérkennsla miðast ekki eingöngu við hina verst settu í námi, heldur vil ég að afburðanemendur fái sinn hlut af líklega hátt í 100 milljónum, sem hér í borg er veitt er til sérkennslu, sérkennslu sem felst í því að stimpla lélega nemendur um lífstíð og æpa yfir skólann og samfélagið að þeir séu tossar og verði það. Þeim sé ekki viðbjargandi.
Ég vil losna við kennara, sem segja hiklaust við foreldra, systkini, afa, ömmur og frændgarð á foreldradegi eða bekkjarskemmtun: “Langar ekki einhverjum foreldra til að hjálpa til við þetta?” “Hlakkaði ekki ykkur öllum til að koma hingað í dag?” “Það var látið okkur gera verkefni.” “Ef það sé hægt ætlum við að eiga næs stund saman.”
Það er þetta lið, sem er orðið of fjölmennt í kennararstéttinni fyrir minn smekk.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 5:57 e.h.




Powered by Blogger